10.12.1968
Neðri deild: 26. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

68. mál, ráðstafanir vegna flutninga sjósaltaðrar síldar af fjarlægum miðum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um ráðstafanir vegna flutninga sjósaltaðrar síldar af fjarlægum miðum sumarið 1968, er flutt til staðfestingar brbl., sem út voru gefin 10. maí s.l. Eftir að l. höfðu verið gefin út, var gefin út reglugerð um ráðstafanir vegna flutninga saltaðrar og ísvarinnar síldar af fjarlægum miðum á þessu sumri. Lögin og reglugerðin fjalla um lántökuheimildir, framkvæmd og greiðslu kostnaðar við þessa flutninga. Síldarútvegsnefnd var falið að hafa á hendi framkvæmd flutninga saltaðrar síldar af miðunum til hafna hér á landi á þessu sumri, og var n. falið að taka á leigu flutningaskip í þessu skyni og gera þær aðrar ráðstafanir, sem nauðsynlegar teljast til að tryggja framgang flutninga. Ákveðið var að greiða 130 kr. í flutningastyrk á fiskipakkaða tunnu, til þeirra veiðiskipa og móðurskipa, sem fluttu saltaða síld af fjarlægum miðum til íslenzkra hafna. Enn fremur var heimilað að verja allt að 3 millj. kr. til að styrkja flutninga á ísvarinni síld af fjarlægum miðum. Segja má, að flutningastyrkirnir hafi ótvírætt verið til þess, að meira magn var saltað um borð í veiðiskipunum í vor, en í vor töldu margir, að erfitt mundi reynast að fá sjómenn til að salta. Þótt flutningaskipin hafi flutt lítið magn á land, er það þó álit mjög margra, sem að sjósöltuninni hafa staðið, að aðstoð flutningaskipanna sé meginforsenda þess, að sjósöltunin fór fram. óhikað má segja, að reynslan af þessum tilraunum með flutninga saltaðrar og ísvarinnar síldar í sumar sé mjög mikilvæg. Við ættum að geta undirbúið næstu sumarsíldarvertíð með hliðsjón af þeirri reynslu, sem í sumar fékkst. Þá er á það að líta, að flutningarnir hafa orðið okkur að öðru leyti mjög verðmætir. Talið er, að flutningar þessir hafi stórbætt aðstöðu okkar á sænska, finnska og rússneska markaðinum frá því, sem útlit var fyrir. Við höfum á ný vakið traust kaupenda saltsíldar með því að sýna vilja og getu til að framleiða saltsíld að sumrinu til, þótt engin síld veiddist í námunda við landið á þeim árstíma. Það er einkum mikils virði, að þar sem síldarsöltun í haust hefur verið mjög lítil og komið seint til, hefur sú þróun mála ekki sízt aukið gildi sjósöltunarinnar frá s.l. sumri.

Herra forseti. Ég tel óþarft að hafa um frv. fleiri orð nema sérstakt tilefni gefist til, en legg til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.