17.03.1969
Neðri deild: 65. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

68. mál, ráðstafanir vegna flutninga sjósaltaðrar síldar af fjarlægum miðum

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Það er alkunna, að á síðustu árum hafa orðið miklar breytingar á hegðun síldarinnar hér við land. Síldin hefur fjarlægzt landið, og í sambandi við þessa breytingu hafa skapazt ýmis vandamál, bæði hvað það snertir að stunda síldveiðarnar og eins hvað það snertir að sjá síldveiðiflotanum fyrir ýmiss konar þjónustu og nauðsynjum. Það frv., sem hér liggur fyrir um ráðstafanir vegna flutninga sjósaltaðrar síldar af fjarlægum miðum sumarið 1968, er lagt fyrir hv. Alþ. til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út s.l. vor í sambandi við það vandamál, sem ég gat um áðan. Snemma árs, eða skömmu eftir áramót s.l. ár, hóf Síldarútvegsnefnd viðræður við ýmsa aðila, sem þetta mál snertir, og sömuleiðis lét Farmanna- og fiskimannasamband Íslands sig þetta mál varða og átti um það viðræður við sjútvn. beggja þd. á þinginu í fyrra. Upp úr þessum viðræðum kom svo það, að sjútvmrh. skipaði 5 manna n. undir formennsku Jóns L. Arnalds deildarstjóra í rn. til þess að gera till. um ráðstafanir í þessu efni.

Frv., sem hér liggur fyrir, snertir eingöngu flutninga sjósaltaðrar síldar af fjarlægum miðum sumarið 1968.

Hygg ég, að óhætt sé að segja, að það sé almenn skoðun þeirra, sem þetta mál snertir, að þær ráðstafanir, sem gerðar voru á grundvelli brbl., hafi komið að mjög góðu gagni. Árangurinn varð sá, að það voru sjósaltaðar um 66 þús. tunnur síldar lengst norður í höfum og fluttar hingað heim til þess að fullverka og fullvinna. Þessi starfsemi hafði m.a. þá þýðingu, að það reyndist unnt að koma saltsíld á finnska markaðinn, sem hefur verið ágætur markaður fyrir saltsíld okkar, fyrr en ella hefði orðið. En það hefur legið við borð, að finnski markaðurinn glataðist okkur alveg vegna þess, að í lengri tíma hefur ekki verið hægt að standa við það að afgreiða síld til Finnanna nógu snemma. Það blandast að vísu fleira inn í markaðsmálin í Finnlandi, sem ég ætla ekki að gera að umræðuefni í þessu sambandi. En þetta hafði þýðingu að þessu leyti s.l. ár. Í brbl. fólust lántökuheimildir, ákvæði um framkvæmd síldarflutninganna og ákvæði um greiðslu kostnaðar vegna flutninga saltsíldar af fjarlægum miðum, og var Síldarútvegsnefnd falin framkvæmd brbl. að þessu leyti. Það var heimilað samkv. brbl. að taka á leigu allt að 5 flutningaskip, en reyndin varð sú, að ekki voru tekin á leigu nema tvö flutningaskip. Það sýndi sig, að veiðiskipin notuðu sér ekki, eins og búizt hafði verið við, þá möguleika, sem fyrir hendi voru til að flytja síldina eftir að hún var komin í tunnurnar, til lands með flutningaskipunum. Aftur á móti notuðu þau sér það að geta keypt tómar tunnur beint úr skipunum á miðunum, og að þessu leyti fékkst nokkur reynsla, sem sjálfsagt kemur að góðu haldi, þegar síldarvertíð verður undirbúin fyrir þetta ár, eins og nú er þegar byrjað að ræða um. Það var ákveðið að greiða 130 kr. á fiskipakkaða tunnu í flutningastyrk til veiðiskipa og móðurskipa, sem fluttu síldina að landi.

Brbl. gerðu ekki ráð fyrir, að greiddur yrði sérstakur styrkur vegna ísvarinnar síldar, en þegar leið á vertíðina, voru allir aðilar, þ.e. Síldarútvegsnefnd og fulltrúar útgerðarmanna og sjómanna, sammála um, að það væri mjög æskilegt að greiða styrk á ísvarða síld. Í reglugerð, sem sett var um þetta, var svo heimilað að verja allt að 3 millj. kr. í þessu skyni, eða sem svaraði 60 kr. styrk á 50 þús. tunnur, en með þessu móti voru fluttar að landi 35 þús. tunnur, sem nutu þessa 60 kr. styrks á tunnu. Lögin gerðu ekki beinlínis ráð fyrir þessu, en þetta var tekið upp í reglugerðina með samþykki allra aðila, sem hagsmuna eiga að gæta. Við meðferð hv. Alþ. á þessu frv. í þessari hv. d. hefur sjútvmrn. því óskað eftir, að frv. yrði breytt þannig, að inn í það kæmi afdráttarlaus heimild til þess að verja þessu fé þannig, og leyfi ég mér að vísa nánar um þetta atriði til bréfs sjútvmrn., sem er dags. 28. febr. þetta ár og er birt sem fskj. með nál. sjútvn. á þskj. 338. Ég hygg, að það sé skoðun allra, sem til þekkja, að flutningastyrkurinn á ísvörðu síldina eigi fyllsta rétt á sér. Hann bjargar því, að það er hægt að flytja síldina óskemmda að landi lengri leið en annars.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál. Ég álít, eins og ég sagði áðan, að reynslan í þessu efni s.l. ár sé mjög dýrmæt. Það er talið af kunnugum, að búast megi við, að sjósöltun á þessu ári verði meiri en hún reyndist í fyrra vegna þess, að sjómennirnir og þá aðallega skipstjórarnir á bátunum hafa sannfærzt um, að þetta er framkvæmanlegt með þessu móti. Einnig sýndi það sig, að sú vara, sem framleidd var á þennan hátt, var í alla staði góð. A.m.k. er óhætt að segja, að hún hafi verið lítið gölluð. Alltaf má búast við einhverjum göllum á síld, hvort sem hún er söltuð á landi eða sjó, en þetta tókst furðanlega vel, og þess er vænzt, að á þessu ári muni flest eða öll þau skip, sem fara á annað borð á síldveiðar á norðlægar slóðir, leitast við að koma sem mestu af veiði sinni í salt, enda er síldin unnin á þann hátt margfalt verðmætari en ef hún er látin fara í bræðslu.

Það er ekki enn sem komið er hægt að segja neitt um það, hve mörg skip muni fara til síldveiða þarna norður í höf á þessu ári, en kunnugir menn gizka á, að þau verði 60–70, og talið er, að 25–30 skip muni stunda síldveiðar í Norðursjó og sigla með afla sinn beint til löndunarhafna í Þýzkalandi og e.t.v. víðar, eins og nokkur skip gerðu með allgóðum árangri s.l. ár. En á undirbúningsfundi, sem síldarútvegsnefnd hélt nýlega með fulltrúum hinna ýmsu aðila, sem þarna eiga hlut að máli, komu fram mjög eindregnar óskir um það, að sjútvmrh. skipaði undirbúningsnefnd á sama hátt og gert var í fyrra til þess að gera till. um þessi mál í heild, ekki aðeins að því er snertir flutninga á sjósaltaðri síld, heldur einnig að því er tekur til læknisþjónustu, viðgerðarþjónustu og ýmissa annarra atriða í sambandi við þessar úthafsveiðar okkar.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til fyrir hönd sjútvn. d., að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem n. leggur til á þskj. 338. Þetta mál er komið frá hv. Ed. til þessarar hv. d. og þarf því, ef brtt. n. verða samþ., að fara á ný fyrir hv. Ed.