13.02.1969
Neðri deild: 44. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

131. mál, yfirráðaréttur íslenska ríkisins yfir landgrunninu

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Meginefni þessa frv. er, að íslenzka ríkið fái fullan og óskoraðan umráðarétt yfir landgrunni Íslands að því er tekur til rannsókna á auðæfum landgrunnsins og vinnslu og nýtingu þeirra. Öll slík auðæfi skuli vera eign íslenzka ríkisins og skuli íslenzk lög gilda í einu og öllu í þessu efni. Þessi ákvæði taka til allra þeirra jarðefna, fastra, fljótandi og loftkenndra, sem finnast kunna í íslenzka landgrunninu, og allra annarra auðæfa þess, lífrænna og ólífrænna. Ástæðan til þess, að farið er fram á, að samþ. sé frv. um lögsögu íslenzka ríkisins yfir landgrunninu kringum Ísland, er auðvitað fyrst og fremst sú, að með vaxandi tækni er nú hægt að vinna þær auðlindir, sem í landgrunninu kunna að felast eins og stendur, allt út á 200 metra dýpi, en gera má ráð fyrir, að á næstu árum eða á næstunni verði komizt lengra og hægt verði að nýta þessa hluti, ef til eru, lengra út. En þá má náttúrlega spyrja, hvers vegna það hafi ekki verið ráðizt í það fyrirtæki fyrr að setja löggjöf eins og þessa. En því er til að svara, að eftir Genfarsamninginn 1958, þar sem strandríkjum var heimiluð lögsaga yfir landgrunninu, var það skoðun íslenzku nefndarinnar á Genfarfundinum, að Íslendingar tækju ekki þátt í því eða gerðust aðilar að þessum samningi vegna þess, að þeir vildu hafa hvort tveggja afgreitt í einu, yfirráðin yfir landgrunninu og yfirráðin yfir fiskistofnunum yfir landgrunninu.

Annað atriði, sem réði því líka, að menn voru ekkert sérstaklega fíknir í það að setja löggjöf eins og þessa, var það, að almennt hefur verið talið, að í eða undir landgrunninu kringum Ísland mundu ekki finnast nein verðmæt efni að ráði vegna þess, að Ísland væri svo ungt land og þess vegna litlar líkur til, að þar mundu finnast jarðefni, sem eftirsóknarverð væru. Þetta er ástæðan til þess, að ekki hefur verið fyrr hreyft þessu máli, en upp á síðkastið hefur það komið á daginn, að verðmæt jarðefni hafa fundizt, ég vil segja á hinum ólíklegustu stöðum. Það, sem næst okkur er á því sviði, er sá árangur, sem náðst hefur í Norðursjónum. Þar hafa þau lönd fjögur, sem liggja að Norðursjónum, Bretland, Holland, Danmörk og Noregur, skipt upp á milli sín Norðursjávarsvæðinu öllu og hafa hafið þar boranir, sem hafa gefið — ja, ég vil segja merkilega góða raun. Englendingar og Hollendingar hafa fundið þar jarðgas, sem er mjög verðmætt. Það hefur líka fundizt á norska svæðinu, og raunar olía líka, þannig að þar sem menn töldu litlar líkur til, að slík efni fyndust áður, þá hefur það verið afsannað nú með þeim árangri, sem náðst hefur á þessum svæðum.

Norðmenn hafa skipt sínu svæði í æðimarga reiti. Þeir eru að mér skilst í kringum 500 ferkm. að stærð hver reitur, og þessir reitir eru nú þegar orðnir 278 og þar af 78 reitir, sem hafa verið leigðir til tilrauna og veittur þar réttur æðimörgum félögum, ég ætla 9 félögum, sem flest eru olíufélög eða í tengslum við olíufélög, áhugamannafélög um þessi mál, sem olíufélögunum eru tengd, og þeir hafa náð þar árangri, sem þeir telja sjálfir eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja frá þeim, mjög athyglisverðan. Það er talið, að þessi jarðefni, sem þeir hafa fundið þegar, séu að verðmæti til margir milljarðar norskra króna, þannig að þarna eru fjársjóðir, sem áreiðanlega geta í framtíðinni komið að miklu gagni fyrir þá. sem fá aðstöðu til þess að nýta þá, og fyrir landið, sem veitir þessi vinnsluleyfi, sem væntanlega fær þá hluta af arðinum af þessum rekstri að svo miklu leyti, sem ríkið þá ekki vill sjálft taka þetta í sínar hendur. Þetta svæði, sem Norðmenn hafa tekið fyrir að leigja út, nær frá 62. gráðu norðurbreiddar, og erum við þá komnir nokkuð nærri suðurmörkum Íslands, þ.e.a.s. mælt á breiddargráðum, en þetta norska svæði liggur náttúrlega verulega miklu austar heldur en okkar svæði, og nú hafa Norðmenn aftur, árið 1968, boðið út 68 reiti til viðbótar og óskað eftir umsóknum frá mönnum, sem vilja nýta þessa möguleika.

Við þetta er að athuga, að þessar rannsóknir allar eru afar dýrar. Það hafa verið boraðar á norska svæðinu að mér skilst eitthvað rétt um 20 holur, sem sumar hafa gefið árangur og aðrar ekki. Þetta er mjög áhættusamt fyrirtæki. En þær, sem hafa gefið góða raun, eru það arðgæfar að því er virðist, að þær réttlæti það, að í þetta sé varið mörgum millj. norskra kr. Það er talið, að hver borun kosti á dag hátt í 200 þús. n. kr., og er þess vegna sýnilegt, að þarna er um geysilegan kostnað að ræða.

Hér við Ísland hafa ekki verið framkvæmdar neinar rannsóknir, þannig að við vitum ekki, hvort um nein slík verðmæti er hér að ræða. Jarðfræðingar hafa ekki treyst sér til að láta í ljósi ákveðna skoðun á því, en segja hins vegar, að það sé ekki útilokað, að hér geti verið um eitthvað slíkt að ræða. Ríkisstj. telur þess vegna mjög æskilegt og nauðsynlegt, að þetta sé athugað og að við helgum okkur þessi verðmæti og tryggjum það, að þau lendi ekki á annarra manna höndum. Þessi réttindi, sem Ísland þannig helgar sér eða tryggir sér, eru ekki takmörkuð, hvorki niður á við né út á við. Landgrunnið sjálft er ekki skilgreint með föstum tölum, ákveðnum km-tölum. Það var að vísu á undanförnum árum talið, að það væri eðlilegt, að landgrunnið næði út á 200 m dýpi, og með því hefur verið reiknað í flestum tilfellum, en í Genfarsamningnum frá 1958 er gert ráð fyrir, að mörkin geti verið tvenns konar, annaðhvort 200 m dýptarlínan eða takmörkin fyrir því, sem hægt er að vinna. Og þess vegna eru í þessu frv. sett þau mörk, að landgrunnið íslenzka teljist í merkingu þessara laga ná svo langt út frá strönd landsins sem unnt reynist að nýta auðæfi þess. Þetta er talið öruggara heldur en miða við 200 m mörkin eins og áður var gert vegna þess, að til er komin eða er að koma til svo fullkomin tækni, að hægt er að framkvæma þessar boranir lengra út heldur en út á 200 m dýptarlínu.

Fjöldi landa hefur tryggt sér þennan rétt. Eftir 1958 hafa 16 lönd helgað sér sitt landgrunn, sem talin eru upp í grg. frv., og áður höfðu um 20 ríki tryggt sér þennan rétt, og eru þau líka talin upp í grg. fyrir frv. Norðurlöndin hafa öll farið út í að tryggja sér þessi réttindi og búast við að nýta þessi auðæfi, sem þegar hafa fundizt hjá þeim, og eru þegar byrjuð á því. Ég held, að það sé ekki ástæða til, að ég fari um þetta fleiri orðum. Málið liggur ákaflega ljóst fyrir. Þetta eru auðæfi, sem við þurfum að helga okkur, ef til eru. Það er sýnt, að málin bæði, sem fyrst var miðað við, að yrðu samferða, nýting sjálfs landgrunnsins og fiskveiðimarkalínan, geta ekki fylgzt að eins og nú horfir, og verðum við sjálfsagt að láta okkur nægja eins og er að taka það, sem fáanlegt er. Að hinu vinnum við svo í framtíðinni að reyna að tryggja okkur einnig fiskveiðiréttindin á þessu svæði eða yfir þessu landi.

Ég vildi svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn. líklega.