11.11.1968
Efri deild: 10. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

13. mál, vörumerki

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Á Alþ. í fyrra var samþ. nýr lagabálkur um vörumerki, sem fól í sér margar og mikilvægar breytingar á eldri lögum um það efni. Þau mistök urðu þó við þessa lagasetningu, að gildistími laganna var ákveðinn þegar í stað, eða síðasta gr. þeirra laga hljóðaði á þá leið, að lögin öðluðust þegar gildi, en við nánari athugun kom í ljós, að þarna þurfti á alllöngum fyrirvara að halda.

Þetta frv., sem samþ. var í fyrra, var lagt fyrir Nd. Alþ. skömmu eftir að þing kom saman, og í því frv., sem tilbúið var af hálfu iðnmrn., var lagt til, að lögin öðluðust gildi 1. jan. 1968. Þetta frv. var síðan ekki afgr. úr Nd. fyrr en komið var fram á árið 1968, þá fór það að sjálfsögðu til Ed., og þegar það kom hingað í þessa deild, þá sáum við þennan annmarka á, að þar stóð, að lögin skyldu öðlast gildi 1. jan. 1968, en sá dagur var þá alllöngu liðinn og auðvitað útilokað að láta slík lög verka aftur fyrir sig, þannig að þessu var breytt hér í meðförum Ed. á þá lund, að lögin öðluðust þegar gildi. En þau mistök urðu við þetta, að rn., sem hafði látið frumvarpið fara frá sér þannig úr garði gert, ætlaði að benda þingnefnd og þd. á, að þessu þyrfti að breyta, þeir sáu það síðar, en þetta láðist nú þeim í rn., að koma þessu á framfæri, og þess vegna fór sem fór, að lögin voru samþ. hér, þegar leið á veturinn, með því ákvæði, að þau öðluðust þegar gildi. Þessu varð svo að breyta af illri nauðsyn með brbl. á þá lund, að lögin öðlist gildi 1. jan. 1969, og það er til staðfestingar þessum brbl., sem þetta frv. er hér fram borið, og felur sem sé ekkert annað í sér heldur en breyt. á gildistöku áður greindra laga, þannig að henni er frestað til 1. jan. árið 1969.

Þessu frv. var vísað til allshn., og var n. sammála um að mæla með því, að frv. yrði samþykkt óbreytt.