20.03.1969
Efri deild: 61. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (610)

131. mál, yfirráðaréttur íslenska ríkisins yfir landgrunninu

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er um yfirráðarétt íslenzka ríkisins yfir landgrunni Íslands, að því er tekur til rannsókna á auðæfum landgrunnsins og vinnslu og nýtingar þeirra. En öll slík auðæfi, hvort heldur föst, fljótandi eða loftkennd, skulu vera eign íslenzka ríkisins. Landgrunnið í merkingu frv. telst ná svo langt út frá ströndum landsins sem unnt reynist að nýta auðæfi þess. Slík mörk eru að sjálfsögðu óljós, en með reglugerð má ákveða þessi mörk nánar. Það landgrunnssvæði, sem hér er um að tefla, er mun stærra en landið sjálft. Með lögfestingu þessa frv. er verið að stækka Ísland og tryggja okkur rétt yfir auðlindum, sem tækni og vísindi framtíðarinnar kunna að leysa úr læðingi. En í dag rennum við blint í sjóinn með það, hvort landgrunnið býr yfir vinnsluhæfum verðmætum. Nágrannaþjóðir okkar hafa þegar sett sín landgrunnslög svipuð að inntaki og frv. þetta, svo að með lögfestingu þessa frv. erum við ekki að aðhafast neitt, sem líklegt sé, að sæti andmælum af hálfu annarra þjóða.

Ég leyfi mér að öðru leyti að vísa til grg. með frv. og til ræðu hæstv. utanrrh. við 1. umr. málsins í þessari d. Allshn. var falið að athuga þetta frv. Mælir n. einróma með því, að frv. sé samþ., eins og fram kemur í nál. á þskj. 351.