14.11.1968
Efri deild: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

15. mál, siglingalög

Frsm. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt í samræmi við 28. gr. stjskr. til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin hinn 31. ágúst í sumar, þar sem gefinn var sjóveðréttur fyrir kröfur, sem skipstjóri stofnar til vegna kaupa á nauðsynjum skipsins eða viðgerðarþjónustu, til að tryggja áframhald veiðiferðar á fiskimiðum í 300 sjómílna fjarlægð frá Íslandi eða meira. Nú er það svo, að sjóveðréttur og önnur lögveð eru náttúrlega gallagripir að því leyti, að þau rýra mjög verðgildi skipanna og gera þess vegna útgerðinni erfiðara fyrir um lánaöflun, en þó hefur þótt rétt að fara þessa leið í ýmsum tilfellum, þar sem ella kynni að vera örðugt að afla hinna brýnustu nauðsynja til skipsins eða tryggja afkomu sjómanna, sem, annars væru illa settir, ef ekki kæmu slík ákvæði til. Við höfum athugað þetta mál í sjútvn., og við höfum sannfærzt um, að það hafi verið brýn nauðsyn að gefa út þessi brbl., þau séu því réttmæt, þarna séu ný atvik, sem ekki hafi verið séð fyrir, er siglingalögin voru sett, og séu fyllilega hliðstæð þeim öðrum undantekningartilfellum, þegar sjóveðréttur er veittur fyrir ákveðnar kröfur. Með tilliti til þessa var n. sammála um að leggja til við hv. þd., að frv. verði samþ. óbreytt.