28.10.1968
Neðri deild: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

11. mál, Listasafn Íslands

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Í síðustu viku mælti hæstv. menntmrh. fyrir frv. um Landsbókasafn Íslands. Að því var þá vikið hér í umr. á eftir, að vandi þess safns er ákaflega mikill vegna mjög alvarlegs húsnæðisskorts. Þessu er einnig þannig farið um Listasafn Íslands. Mér finnst það vera orðið dálítið umhugsunarefni fyrir hæstv. ráðh. viðskipta og mennta, hvaða byggingar standa hér uppi í höfuðborginni eftir býsna langan ráðherradóm hans. Á þessu tímabili hafa bætzt við ákaflega veglegar og miklar viðskiptahallir, hvers konar verzlunarmusteri. Þar er búið ákaflega vel um þær vörur, sem hér eru á boðstólum, hvort sem það eru bílar eða aðrar neyzluvörur. En þegar kemur að hinum þættinum í störfum hæstv. ráðh., menntamálunum, þá fer minna fyrir slíkum stórbyggingum. Ástæðan er sú, að á þessu tímabili hefur gróðinn átt að skera úr um það, hvað gert væri. Það hefur verið hagnaðaratriði að byggja slórhýsi yfir vörur, en til þess að byggja yfir menningarstarfsemi okkar hefur þurft opinbert frumkvæði, og það frumkvæði hefur skort hjá hæstv. ráðh. Mér finnst, að hæstv. ráðh. mætti hugleiða þetta mjög alvarlega og bera t.d. saman, hvað gerðist hér í upphafi þessarar aldar, þegar stjórnin var flutt inn í landið. Þá réðust landsmenn í það af ákaflega litlum efnum að byggja ákaflega myndarlega byggingu, safnahúsið. En nú á þessu tímabili, þegar tekjur þjóðarinnar hafa verið miklu meiri en nokkurn tíma fyrr, þá hefur hæstv. menntmrh. ekki tekizt að finna leiðir til þess að ráðast í brýnustu byggingar í þágu mennta. Listasafnið er eins konar niðursetningur hjá Þjóðminjasafninu, eins og menn vita. Það ræður þar yfir húsnæði, sem er orðið allt of lítið. Listasafnið á á 15. hundrað mynda, en veggrými til sýningar nægir fyrir svo sem eins og 100 myndir. Allar hinar eru í geymslu. Geymslurými er raunar ekkert þarna. Það hefur orðið að taka það af sjálfu sýningarrýminu, og þessar geymslur eru svo lélegar, að það er stórhætta á því, að dýrmæt málverk eyðileggist. Dæmi um það höfum við raunar þegar haft. Það bilaði hitun í safninu ekki alls fyrir löngu með þeim afleiðingum, að vatn lenti á einum 10 málverkum og eyðilagði þau mjög verulega.

Þetta ástand er óviðunandi með öllu. Það fer sannarlega að verða álitamál, hvort það er skynsamlegt að verja opinberu fé til þess að kaupa málverk handa þjóðinni, ef þau eiga að hreppa þau ein örlög að vera geymd, lokuð inni í hirzlum, sem eru auk þess svo lélegar, að það er mikil hætta á því, að listaverkin eyðileggist. Það eru nú liðin nærri 10 ár síðan sett voru lög um byggingarsjóð fyrir Listasafnið. Í hann hefur safnazt smávegis upphæð, en það er nú ekki meira en svo, að hún haldi í við verðbólguþróunina á þessu tímabili. Og ég hygg, að framtaksleysið af hálfu hæstv. ráðh. sé svo mikið, að það sé ekki enn þá einu sinni búið að ákveða lóð undir væntanlega safnbyggingu. Ég vildi mælast til þess við hæstv. ráðh., að hann gerði hér grein fyrir því, hvort einhver von er um framkvæmdir í þessu máli á næstunni. Það er ekki aðeins mikilvægt fyrir Listasafnið, eins og ég hef verið að lýsa, heldur fer það einnig að verða mjög mikilvægt fyrir Þjóðminjasafnið, því að það er einnig að verða mjög þröngt um starfsemi þess, og það þarf nú þegar á að halda því húsrými, sem nú er lagt undir Listasafn Íslands.