20.03.1969
Efri deild: 61. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

11. mál, Listasafn Íslands

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., felur í sér sáralitlar breytingar frá því, sem er í núgildandi lögum um Listasafn Íslands. Í aths. er þess getið, að breytingarnar séu þær, að með 4. gr. frv. skuli um tölu safnvarða og starfsliðs fara eftir því, sem fé er veitt til í fjárl. á hverjum tíma, en samkv. núgildandi lögum virðist vera gert ráð fyrir einum safnverði. Og þá er önnur breyting, sem í frv. felst, í 5. gr. um kosningu í safnráð. Menntmn. hefur haft frv. til athugunar, og hefur orðið samkomulag um það í n. að flytja brtt. við 4. gr. frv. Sú brtt. liggur fyrir á þskj. nr. 360, og það má segja, að það séu tvær breyt. á 4. gr., sem brtt. felur í sér. Það er fyrst, að upphaf gr. orðist þannig, að menntmrh. skipi forstöðumann safnsins. Í frv. segir, að menntmrn. skuli skipa forstöðumanninn. Ég held, að þetta sé nú svo sjálfsögð og eðlileg breyt., að það þurfi ekki nánar að skilgreina hana.

Önnur breyting, sem n. leggur til, að gerð verði, er við síðasta málsl. 4. gr., þar sem segir, að laun starfsmanna skuli vera hin sömu og hliðstæðra starfsmanna við önnur ríkissöfn. Þetta stangast á við okkar núgildandi löggjöf um kjarasamninga opinberra starfsmanna, ríkisstarfsmanna, og er þess vegna lagt til, að þetta orðist þannig, að þeir skuli taka laun samkv. hinu almenna launakerfi starfsmanna ríkisins. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 360, hafa einstakir nm. áskilið sér rétt til að flytja frekari brtt. við frv. og að fylgja brtt., sem kunna fram að koma, en n. í heild mælir með samþykkt frv. með þessari breytingu, sem ég áður greindi frá.