27.03.1969
Neðri deild: 71. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

201. mál, lántökuheimildi fyrir ríkissjóð

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki endurtaka það, sem ég sagði áðan. Ég reyndi að vera þá eins stuttorður eins og ég gat að rifja upp það, sem ég hef sagt hér á Alþingi í 8 ár. Rifjaði það upp í örfáum orðum. Það er náttúrlega ávinningur að heyra það nú viðurkennt úr herbúðum ríkisstj., að við höfum stefnu. Ég tel það raunar mikinn ávinning. Allt fram á þennan dag hefur ríkisstj. rætt þessi mál af slíkum hroka, að það hefur verið sagt, að við hefðum enga stefnu og hefðum ekkert til málanna að leggja. Það væri raunar aðeins ein stefna til og hún væri þessi, sem ríkisstj. hefur fylgt. Sem sé, hin leiðin, sem ég kallaði hér í gamni okkar stefnu, væri alls ekki til. Á þessu hefur þjóðin verið fóðruð í 8 ár.

Það er skemmtilegt og það er kannske fyrsta skrefið, að þeir eru nú farnir að viðurkenna, að stjórnarandstaðan hafi aðra stefnu að bjóða. Það er þá eftir allt saman eitthvað annað til en þetta, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert. En ætli það komi til af góðu, að þeir hafa nú sveigt þetta undan? Ég held ekki. Þeir eru á hinn bóginn að byrja að bogna undan staðreyndunum. Þeir eru að byrja að bogna undan þeim staðreyndum, sem nú eru komnar fram og eru þannig, að það er ekki hægt að leyna því, hvernig ástatt er. Fjöldinn allur af fólki sér auðvitað núna, að það er eitthvað bogið við þetta, hvernig komið er. Það þýðir ekkert að bjóða mönnum upp á það lengur, að þetta sé allt vegna þess, að síldveiðar hafa brugðizt í tvö ár eða verðlag á afurðum farið niður úr því, sem það var hæst o.s.frv. Þetta þýðir ekki lengur, svo að þetta er byrjun á undanhaldinu og það er út af fyrir sig gott.

En auðvitað var það eðlileg krafa til þeirra öll þessi ár, að þeir ræddu þetta af fullri skynsemi og viðurkenndu, að þarna var um tvær stefnur að ræða. Kjarninn í þeirri stefnu, sem hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. hefur fylgt, kom í raun og veru fram að sumu leyti í þeim fáu orðum, sem ráðh. sagði. Hann sagði þá setningu, að þeir vildu setja til að vinna gegn atvinnuleysinu allt það fjármagn, sem hægt væri að nota, allt það innlent fjármagn, sem hægt væri að nota. Og þá mundi ég vilja, fyrst þetta er svona einfalt, spyrja hæstv. ráðh., hvað er mikið af peningum til? Hvað er mikið af peningum til á Íslandi? Hann vildi kannske svara því. Í hugum þeirra, sem hugsa svona, ætti að vera ákaflega einfalt svar við þessu, því það kemur sem sagt í ljós, að þeir miða við það, hvað mikið er af peningum til, og hafa sennilega alltaf gert í þessi 8 ár. Og ráðh., sem stýrir fjár- og efnahagsmálum, hlýtur þá að vita það nálega hvern dag, hve mikið er til af peningum. Og hvað er þá mikið af peningum til á Íslandi í dag? Vill ekki hæstv. ráðh. svara þessari spurningu, fyrst þetta er leiðarstjarnan, sem miðað er við?