28.03.1969
Efri deild: 67. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

201. mál, lántökuheimildi fyrir ríkissjóð

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er tvíþætt. Annars vegar er óskað eftir heimild til, að ríkissjóður taki allt að 180 millj. kr. lán í þýzkum mörkum til byggingar hafrannsóknaskips, og hins vegar, að heimilað verði að taka allt að 300 millj. kr. lán eða jafngildi þess í erlendri mynt vegna Framkvæmdasjóðs Íslands.

Um lántökuheimildina vegna hafrannsóknaskips er það að segja, að í fjárl. yfirstandandi árs var ríkissjóði heimilað að ábyrgjast lán vegna byggingar hafrannsóknaskips. Það kom hins vegar í ljós, að auðveldara mundi reynast að fá lánið, ef ríkissjóður yrði beinlínis lántaki og þá yrði hægt að fá lán með hagstæðari kjörum. Það þótti því sjálfsagt að hverfa að því ráði og er því óskað eftir þessari heimild, en hér er sem sagt ekki um nýja lántöku að ræða.

Varðandi lántöku í sambandi við Framkvæmdasjóð Íslands er það að segja, að eins og hv. þdm. er kunnugt, var það svo, meðan Framkvæmdabanki Íslands var starfandi, að sá banki hafði almenna lántökuheimild, sem var hækkuð eftir atvikum hér á Alþ., en ekki ákveðið hverju sinni til hverra þarfa þessu lánsfé yrði varið. Framkvæmdasjóðurinn hefur í gildandi lögum ekki slíka almenna heimild. Það hefur hins vegar komið í ljós, að það hefur þurft hvað eftir annað að afla Framkvæmdasjóði fjár, til þess að hann gæti staðið undir sínum skuldbindingum. En hlutverk hans er fyrst og fremst það að afla lánsfjár vegna stofnlánasjóða atvinnuveganna og enn fremur að standa straum af lánsfjáröflun til ýmissa stórframkvæmda.

Eins og nú standa sakir, er ljóst, að óumflýjanlegt er að afla aukins lánsfjár til Framkvæmdasjóðs og hverfa verður að því ráði að taka erlent lán í því sambandi. Hér er um tvíþætt vandamál að ræða. Annars vegar skortir allverulegt fjármagn til þess að leysa brýnustu viðfangsefni, sem nú bíða úrlausnar, og má þar nefna ýmsar framkvæmdir, sem nú er unnið að, svo sem stækkun Áburðarverksmiðjunnar, fyrirhugaða Laxárvirkjun, ýmsar nauðsynlegar lánsfjáraflanir vegna Sementsverksmiðju og jafnvel vegna verksmiðja Sambands íslenzkra samvinnufélaga á Akureyri. Og loks ekki hvað sízt lánsfjáröflun vegna Fiskveiðasjóðs Íslands, sem er ljóst, að þarf á mjög verulegu fé að halda á þessu ári, einkanlega til þess að skjóta fótum undir íslenzkan skipasmíðaiðnað, sem er hin brýnasta nauðsyn, að gert verði, bæði af þjóðhagslegum ástæðum, vegna nauðsynjar skipasmíðastöðvanna og vegna atvinnuástands í landinu.

Þá er enn fremur mikil nauðsyn á því að konvertera ýmsum stuttum lánum, sem eru erlendis, og er þar fyrst og fremst um að ræða lán í Englandi, frá tímum Framkvæmdabanka Íslands, sem nemur rúmum 160 millj. kr. og áætlað er að breyta í langt lán með þessari fyrirhuguðu lántöku. Á þessu stigi er ekki hægt nánar að skýra frá því, hversu fer um ráðstöfun þessa lánsfjár, en innan tíðar mun stjórn Framkvæmdasjóðs, sem er þingkjörin stjórn, ganga frá framkvæmdaáætlun fyrir sjóðinn á þessu ári og þá mun það koma skýrar í ljós, hversu ástatt er með fjárþörf sjóðsins.

Þetta lántökumál hér tengist öðru máli, sem hér mun koma til umr. í hv. þd. nú á eftir, en það er lánsfjáröflun vegna atvinnuframkvæmda á vegum atvinnumálanefndar ríkisins. Þar er gert ráð fyrir að afla 300 millj. kr. lánsfjár og verður óumflýjanlegt að afla töluverðs hluta þess fjár á erlendum markaði. Það er gert ráð fyrir því, að hið erlenda lánsfé, sem samtals verði aflað vegna þessara tveggja frv., muni nema um 500 millj. kr. Ég get ekki nánar skýrt frá því, hversu verður um lán þetta eða lánskjör, þar sem ekki hefur endanlega verið frá samningum gengið, en málið er þó komið það langt, að það þykir nokkurn veginn öruggt, að þetta lán muni fást. Ég vil taka það fram, sem ég hef áður gert, að svo sem ástatt er með okkar skuldamál erlendis, þá ber brýna nauðsyn til þess að gjalda hina mestu varúð við því að taka of mikið af erlendum lánum. Hitt er alveg jafnljóst, að miðað við þann fjárskort, sem við eigum við að búa, getum við ekki komizt út úr okkar vanda og eflt atvinnulíf okkar, sem óumflýjanlegt er að gera til þess að komast upp úr þeirri lægð, sem við erum í, nema með því að nota verulegt, erlent fjármagn. Ég legg hins vegar áherzlu á það, að erlent fjármagn má ekki nota nema til arðbærra framkvæmda í landinu og til þeirra framkvæmda, sem annaðhvort auka gjaldeyristekjur okkar beinlínis eða óbeinlínis á þann hátt, að þær séu gjaldeyrissparandi. Þetta tel ég vera grundvallaratriði, sem ég vil leggja sérstaka áherzlu á í sambandi við þessar lántökur, sem hér er um að ræða. Og ég tel, að bæði þetta lán, sem hér er talað um, og einnig ráðstöfun atvinnumálanefndanna á því erlenda lánsfé, sem þær fá til meðferðar, verði að mótast af þessari höfuðnauðsyn.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn., en ég vonast til þess, að hv. n. geti skilað áliti mjög skjótt um málið vegna þess, að nefndir beggja þd. unnu saman að athugun málsins í gær, þannig að ég vildi mega vænta þess, að hægt yrði að afgreiða þetta mál héðan út úr hv. þd., áður en páskahlé hefst.