27.03.1969
Neðri deild: 70. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

191. mál, aðgerðir í atvinnumálum

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um staðfestingu á samkomulagi um aðgerðir í atvinnumálum, sem gert var á milli ríkisstj., samtaka vinnuveitenda og miðstjórnar Alþýðusambands Íslands hinn 17. janúar 1969. Er nauðsynlegt að fá þá lánsheimild, sem frá er greint í 5. gr. frv., og jafnframt að kveða á um það, hvaða aðilar eigi að ráðstafa því fé og með hverjum hætti í aðalatriðum. Þetta samkomulag er alþjóð kunnugt og hefur áður verið í stórum dráttum rætt hér á Alþingi, og skal ég því ekki fjölyrða um það út af fyrir sig. Mér þykir rétt í þessu sambandi að gera nokkra grein fyrir því starfi, sem þegar hefur verið unnið af hálfu atvinnumálanefndar ríkisins, og fara þá fyrst nokkrum orðum um fjáröflun þá, sem ráðgerð var og nú er veitt heimild fyrir í 5. gr. frv.

Í samkomulaginu frá 17. janúar var gert ráð fyrir, að aflað væri fjár að upphæð 300 millj. kr. vegna starfsemi atvinnumálanefndanna. Frá upphafi var talið, að mikils hluta þessarar fjárhæðar yrði að afla með erlendri lántöku. Ríkisstj. hóf þegar í stað undirbúning að þessari fjáröflun, og er nú tryggt, að erlent lán til þessara og annarra þarfa muni bráðlega fást með útboði á lánamarkaði í Evrópu, svo sem fjmrh. mun gera Alþ. nánari grein fyrir. Enda þótt frá upphafi væri ljóst, að þessara 300 millj. kr. yrði fyrst og fremst að afla með erlendri lántöku, var æskilegt, að nokkur hluti fjárins yrði fenginn með láni innanlands, þar sem margir af væntanlegum lántakendum eiga erfitt með að taka lán í erlendri mynt með þeirri gengisáhættu, sem því fylgir. Gert er ráð fyrir, að a.m.k. 1/3 hluta upphæðarinnar, þ.e.a.s. 100 millj. kr., verði aflað með lántöku innanlands, þar af ekki minna en 50 millj. kr. á þessu ári og mun hæstv. fjmrh. gera nánari grein fyrir þeim ráðagerðum, áður en langt um líður. Ríkisstj. gerði samkomulag við Seðlabankann um, að hann veitti Atvinnujöfnunarsjóði lán til bráðabirgða til þess að ekki þyrfti að verða töf á lánveitingum atvinnumálanefndar ríkisins eða á hagnýtingu þeirra lána, sem hún samþykkti að veita. Þeim lántakendum, sem þegar hefur verið úthlutað lánum, hefur verið boðið að taka með þessum hætti til bráðabirgða innlend lán, er síðar yrði breytt í endanlegt lán, þegar fjár hefði verið aflað til frambúðar. Óhætt er því að fullyrða, að dráttur á fjáröflun hefur ekki valdið töfum á störfum atvinnumálanefndar ríkisins.

Þá skal ég víkja að starfsemi atvinnumálanefndanna. Þegar að gerðu samkomulaginu hinn 17. janúar var í samræmi við það boðað til ráðstefnu allra atvinnumálanefndanna í Reykjavík, og var hún haldin dagana 27.–29. janúar. Sumar nefndanna höfðu þá þegar haldið fundi með sér, en flestar þeirra héldu fyrstu fundi sína í Reykjavík þessa daga. Á fundunum fékkst eftir atvikum gott yfirlit um atvinnuástandið í heild og í hverju héraði um sig. Enn fremur voru starfshættir nefndanna ræddir ítarlega og settar þær starfsreglur, er fylgja þessu frv. sem fskj. II. Að lokinni ráðstefnunni voru n. síðan beðnar um að gefa nánari upplýsingar um einstök atriði og þá fyrst og fremst um þau atvinnutæki, sem ekki væru starfrækt. Þær voru spurðar um fiskiskip, er ekki væru gerð út eða ekki væru líkur fyrir, að yrðu gerð út, fiskvinnslustöðvar og iðnfyrirtæki, er ekki væru starfrækt að fullu. Þá voru nefndirnar einnig beðnar að benda á opinberar framkvæmdir, sem helzt gætu komið til greina í sambandi við lánveitingar. Frá nefndunum komu greinargóð svör um þessi efni og auk þess ítarlegar skýrslur frá mörgum sveitarfélögum. Jafnframt þessu tóku að berast umsóknir um lánveitingar ýmist fyrir tilstuðlan nefndanna eða beint frá aðilum sjálfum. Flestar bárust þessar umsóknir seint í febrúar og fyrri hluta marz. Væntanlega má nú telja, að ýkjamargar umsóknir berist ekki úr þessu. Héraðanefndirnar hafa þegar veitt umsagnir sínar um verulegan hluta þessara umsókna og flokkað þær eftir mati sínu á þýðingu þeirra.

Um s.l. helgi, þ.e.a.s. þann 22. marz, höfðu borizt 275 umsóknir um lán eða styrki til atvinnufyrirtækja víðs vegar að, og eru umsóknir um opinberar framkvæmdir þá ekki taldar með. Láns- eða styrkjaupphæðir, sem um er sótt, þ.e.a.s. fyrir utan opinberu framkvæmdirnar, eru samtals 526 millj. kr. Flestar þessara umsókna eru vegna fiskveiða, eða 96 að tölu, og nema 72 millj. kr. Frá fiskvinnslufyrirtækjum, öðrum en niðursuðu- og niðurlagningarverksmiðjum og fiski- og síldarmjölsverksmiðjum, eru 59 umsóknir að upphæð 101 millj. kr. Frá niðursuðu- og niðurlagningarverksmiðjum eru 7 umsóknir, 30 millj. kr. að fjárhæð, og frá fiski- og síldarmjölsverksmiðjum 8 umsóknir, 17 millj. kr. að upphæð. Frá vinnslustöðvum landbúnaðarafurða og fóðurblöndunarstöðvum voru 10 umsóknir, er nema 57 millj. kr. Frá skipasmíðastöðvum og dráttarbrautum eru 9 umsóknir, að fjárhæð 38 millj. kr. og frá netagerðum 5 umsóknir, samtals 27 millj. kr. Þar við bætist mikill fjöldi umsókna, sem flokka má undir ýmislegan iðnað annan en þann, sem áður hefur verið talinn, og eru þetta 81 umsókn að upphæð 185 millj. kr.

Þessar umsóknir atvinnufyrirtækja eru margvíslegrar tegundar. Þar er bæði um að ræða umsóknir vegna framkvæmda, þ.e.a.s. til stækkunar bygginga eða aukningar vélakosts starfandi fyrirtækja og til stofnunar nýrra fyrirtækja. Enn fremur er mikið af umsóknum til endurskipulagningar á fjárhag starfandi fyrirtækja, er geri þeim kleift að halda áfram starfsemi eða auka starfsemi sína án þess að um beinar framkvæmdir sé að ræða. Þetta eru tveir aðalflokkar umsóknanna. Í þeim fyrri eru 141 umsókn, samtals að upphæð 324 millj. kr. Í þeim síðari eru 82 umsóknir, að upphæð 120 millj. kr. Á milli þessara flokka eru þó hvergi nærri skýr mörk, enda oft um hvort tveggja að ræða framkvæmdir og endurskipulagningu á fjárhag. Þá er nokkuð um umsóknir um hrein rekstrarlán eða 31 umsókn, að upphæð 65 millj. kr. Umsóknir um styrki eru 21, að upphæð 16 millj. kr.

Umsóknir skiptast þannig eftir landshlutum, að flestar þeirra eru frá Norðurlandi, þ.e.a.s. bæði Norðurl. v. og Norðurl. e., 86 umsóknir, samtals að fjárhæð 171 millj. kr. Næstflestar eru frá Austurlandi, 54 umsóknir, að upphæð 84 millj. kr. Frá Vesturlandi eru 36 umsóknir, að fjárhæð 52 millj. kr. Frá Suðurlandi eru 32 umsóknir, sem nema samtals 68 millj. kr. Frá Vestfjörðum eru 28 umsóknir, samtals 36 millj. kr. Frá Reykjanesi er 21 umsókn, að fjárhæð 52 millj. kr. Fæstar eru umsóknirnar frá Reykjavík eða 18, að upphæð 64 millj. kr. samtals.

Þá skal ég ræða sérstaklega um starfsemi atvinnumálanefndar ríkisins. Þegar samkomulagið hinn 17. janúar var gert, hafði gengisbreytingin skapað grundvöll þess, að atvinnuástand í landinu gæti að nýju færzt í eðlilegt horf. Það var hins vegar ljóst, að margvíslegra viðbótarráðstafana væri þörf til þess að unnt yrði að hagnýta þennan grundvöll, og fjallaði samkomulagið einmitt um sum þeirra vandamála. Eitt þeirra var aukning rekstrarfjár fyrirtækja, en þörf hennar varð enn brýnni við gengisbreytinguna. Undirbúningur var fljótlega hafinn til úrbóta í því efni, og var það m.a. rætt á fyrstu fundum atvinnumálanefndar ríkisins. Þær ráðstafanir, sem í þessu skyni voru gerðar, eru í aðalatriðum þessar: Afurðalán til sjávarútvegsins voru hækkuð í samræmi við verðhækkanir vegna gengisbreytingarinnar, og hefur þetta leyst þau rekstrarfjárvandamál fiskvinnslustöðva, sem stöfuðu af gengisbreytingunni. Þá ákvað Seðlabanki Íslands að verja 100 millj. kr. til sérstakra rekstrarlána til fiskiskipa. Þessi rekstrarlán skyldu einkum notuð til að létta byrði af lausaskuldum, og þau veitt fyrir milligöngu viðskiptabanka til 11/2 árs, þ.e.a.s. tveggja vertíða. Enn fremur ákváðu viðskiptabankarnir að auka venjuleg rekstrarlán til fiskiskipa um 50%. Framangreindar ráðstafanir komu til framkvæmda strax og vertíð hófst eftir sjómannaverkfallið.

Loks ákvað Seðlabankinn að verja 150 millj. kr. til aukningar rekstrarlána iðnaðarins í samvinnu við viðskiptabankana. Veiting þessara lána hófst um miðjan febrúar og hefur haldið áfram síðan, en þessar lánveitingar taka nokkurn tíma, þar sem fyrirtæki verður að sækja um þær hjá viðskiptabanka sínum, og málið fer síðan til athugunar hjá Seðlabankanum. Framkvæmd þessara ráðstafana er þó nú komin vel á veg. Í upphafi árs fengu enn fremur allmörg frystihús, sem voru í fjárhagserfiðleikum, sérstaka fyrirgreiðslu, samtals að fjárhæð 30 millj. kr., af fé, sem Atvinnujöfnunarsjóði hafði verið veitt í fjárl. í þessu skyni.

Auðvitað hefur ekki allur vandinn verið leystur með þessum ráðstöfunum og sjálfsagt stendur sitthvað enn til bóta, einnig hjá öðrum atvinnugreinum. Ýmsir gera sér t.d. titt um óhæfilegan gróða verzlunarinnar á s.l. árum. Sannleikurinn er hins vegar sá, að verzlunin hefur verið hart leikin síðustu misseri. Hennar almennu vandamál hafa raunar ekki verið rædd í atvinnumálanefnd ríkisins, en sjálfur verð ég að lýsa þeirri skoðun, að kanna þurfi betur ýmis atriði, sem hér að lúta, t.d. nauðsyn á ráðstöfunum til að hagræða eða framlengja lausaskuldir verzlunarinnar vegna gengisbreytinganna tveggja á hliðstæðan hátt og gert hefur verið fyrir aðra höfuðatvinnuvegi, þótt af öðrum orsökum sé. Ákvarðanir um það verður þó að taka á öðrum vettvangi en þessara nefnda, og skal ég því ekki fara fleiri orðum um það vandamál.

Með framannefndum aðgerðum hefur verið stuðlað að því að sjávarútvegur hefur verið stundaður með góðum árangri á þessari vertíð, frá því að sjómannaverkfallinu lauk. Fiskibátarnir hafa verið gerðir út með eðlilegum hætti og fiskvinnslutæki verið nýtt eftir því, sem hráefni hefur fengizt. Af þessu hefur leitt, að þörf fyrir afskipti atvinnumálanefndanna af fiskveiðum og fiskvinnslu hefur ekki reynzt jafnbrýn og ætlað hafði verið af ýmsum, áður en áhrifa þessara aðgerða fór að gæta. Atvinnumálanefndirnar hafa þó vissulega þýðingarmikið verk að vinna til lausnar á sérstökum vandamálum í þessum efnum svo sem nú skal nánar vikið að.

Atvinnumálanefnd ríkisins hefur látið athugun á umsóknum vegna fiskibáta njóta forgöngu umfram aðrar. Umsagnir héraðsnefnda um báta bárust snemma, en síðan var þremur trúnaðarmönnum ríkisnefndarinnar, völdum af þeim þremur höfuðaðilum, er hana skipa, falið að kanna umsóknirnar nánar. Þessir trúnaðarmenn hafa gert drög að till. um meðferð lánsumsókna vegna fiskibáta og hafa nú lokið könnun á flestöllum þeim umsóknum, sem borizt hafa. Í stuttu máli eru niðurstöður trúnaðarmannanna þær, að fram úr þeim erfiðleikum, sem þarna sé við að etja, verði sjaldan ráðið með nýjum lánveitingum fyrir milligöngu atvinnumálanefndar ríkisins. Lausnar vandans sé oftast að leita hjá þeim fjárfestingarlánasjóðum, sem að þessum málum starfa, þ.e. einkum Fiskveiðasjóði og Atvinnujöfnunarsjóði. Samkomulag hefur og orðið um það milli atvinnumálanefndar ríkisins og Atvinnujöfnunarsjóðs, að hann taki að sér að leysa sérstök vandamál, sem að hafa borið, t.d. vegna breytinga á skipum til togveiða og til kaupa á veiðarfærum í því skyni. Enn fremur er talið, að Atvinnujöfnunarsjóður geti yfirleitt greitt úr þeim vandamálum, sem upp koma í sambandi við kaup á notuðum bátum, vegna endurbóta báta, þar sem Fiskveiðasjóður getur einnig hlaupið undir bagga, og vegna sérstakra greiðsluerfiðleika báta. Þá eru lánareglur um nýsmíði báta svo rúmar, að ekki er þörf nýrra lánastofnana, heldur fjáröflunar, til þess að sjóðir þeir, sem annast eiga um þessar lánveitingar, hafi nægilegt fé milli handa. Þrátt fyrir þetta hafa trúnaðarmennirnir talið, að í einstökum tilvikum, svo sem vegna sérstakra óhappa, sé eðlilegt, að atvinnumálanefnd ríkisins veiti fyrirgreiðslu um lán, enda hafa nokkur slík lán verið samþ. og önnur munu væntanlega brátt bætast við. Á meðal þeirra fiskibáta, sem sótt hafa um lán, eru að sjálfsögðu allmargir, sem fengið hafa mikil lán, en eiga annaðhvort ekki fyrir skuldum eða standa fyrirsjáanlega ekki undir auknum skuldum. Þeir, sem svo stendur á um, eru sennilega ekki fleiri nú en lengst af hefur tíðkazt. Á meðal hins mikla fjölda báta, sem héðan eru gerðir út, hljóta alltaf að vera nokkrir, sem þannig er komið fyrir og því er ekki unnt að aðstoða með frekari lánveitingum. Sterk rök má færa fyrir því, bæði um fiskveiðar og fiskvinnslu, að þessar atvinnugreinar eigi í erfiðleikum, ekki svo mjög af of naumum lánveitingum, heldur miklu frekar af hinu, að lánsfé hafi ekki verið notað af nægilegri fyrirhyggju.

Enda þótt fiskveiðar séu nú stundaðar með eðlilegum hætti og fjárhagsörðugleikar eða lánsfjárskortur hamli sjaldnast rekstri fiskiskipa, getur starfsemi atvinnumálanefndanna haft mikla þýðingu fyrir lausn sérstakra vandamála. Slík vandamál eru einkum tvenns konar. Útgerð togara eða stórra togbáta frá þeim stöðum í landinu, þar sem slíkar veiðar hafa verið stundaðar árangursríkt, þarf að haldast. Hér er um að ræða Reykjavík, Hafnarfjörð, Akureyri og Siglufjörð. En kunnara en frá þurfi að segja er, að á undanförnum áratug hefur togurum mjög farið fækkandi. Þessi þróun er nátengd takmörkunum á veiðisvæðum togaranna, skipshafnarstærð, hinum mikla uppgangi síldveiðanna, betri aðstöðu og afla hinna minni þorskveiðibáta. Togveiðar á stórum togskipum hafa hvorki staðizt samkeppni við síldveiðar né við þorskveiðar minni báta, enda þótt togaraútgerðin hafi notið opinberra styrkja umfram aðra. Þrátt fyrir þessa annmarka er sem sagt þýðingarmikið, að útgerð stórra togskipa sé haldið áfram frá þeim stöðum, þar sem þau ein geta skapað grundvöll fyrir öflugum sjávarútvegi, þó að álitamál geti verið, hver gerð og stærð togveiðiskipa muni henta bezt í þessu skyni. Fyrir atvinnumálanefnd Reykjavíkur hafa legið till., sem hún hefur sent til atvinnumálanefndar ríkisins um viðgerð á þremur gömlum reykvískum togurum, sem legið hafa ónotaðir um nokkurra ára skeið. Ítarlegar athuganir og viðræður hafa farið fram um viðgerð og útgerð þessara skipa og sýnist sitt hverjum, hvað hyggilegt sé í þessum efnum, þótt óumdeilt sé, að viðgerð skipanna og útgerð muni um sinn skapa mikla atvinnu. Atvinnumálanefnd ríkisins hefur því boðið Reykjavíkurborg að láni til langs tíma þá upphæð, sem þarf til viðgerðar á þessum togurum, og er talið, að hún sé um 26 millj. kr. Á valdi Reykjavíkurborgar er hins vegar að kveða á um, hvort þessari upphæð skuli varið til viðgerða á þessum þremur tilteknu togurum eða til eflingar fiskveiða frá Reykjavík á annan hátt, sem atvinnumálanefnd ríkisins samþykkir. Um leið og atvinnumálanefnd ríkisins tók þessa ákvörðun, ákvað hún að svipaðri upphæð skyldi varið til eflingar fiskveiða frá öðrum stöðum, þar sem togaraútgerð hefur sérstaka þýðingu.

Enginn efi er á, að fiskiskipasmíði innanlands er mjög löguð til þess að bæta í bráð úr atvinnuleysi og tryggja atvinnu til frambúðar. Í landinu er nú veruleg afkastageta til skipasmíða. Á hinn bóginn er eftirspurn eftir nýjum skipum lítil í bili, enda þótt búast megi við, að hún vaxi aftur áður en langt um líður. Til þess að unnt sé að halda áfram að efla skipasmíðar og hafa fyrir hendi hentug ný skip, þegar eftirspurn fer vaxandi á ný, er þörf sérstakra aðgerða. Þetta verkefni hefur verið til athugunar hjá atvinnumálanefnd ríkisins, og um það hafa verið gerðar till. frá öllum héraðsnefndum. Þá hefur iðnmrn. haft málið til sérstakrar athugunar, svo og Fiskveiðasjóður. Fyrirætlun atvinnumálanefndar ríkisins er að láta gera sérstaka áætlun um þessar smíðar hið allra bráðasta og verja nokkrum hluta af því fjármagni, sem hún hefur yfir að ráða, til framkvæmdar hennar. Dugar þar sennilega ekki minna en um 50 millj. kr. Á hinn bóginn er sá vandi á höndum, að umráðafé Fiskveiðasjóðs til þessara þarfa er mjög takmarkað, svo að ekki sé meira sagt, og mun verða það næstu árin, meðan verið er að greiða niður lán fiskiskipa þeirra, er keypt hafa verið í útlöndum á undanförnum árum. Er því enn óvíst, hversu umfangsmiklum skipasmíðum er unnt að hrinda í framkvæmd. En hér er um að ræða einhverja áhrifaríkustu ráðstöfun til atvinnuaukningar í bráð og lengd, að mati atvinnumálanefndar ríkisins, og leggur n. því megináherzlu á framgang þessarar ráðstöfunar.

Fiskvinnslustöðvar eru nú starfræktar hvarvetna þar sem nægilegt hráefni er fyrir hendi. Lánveitinga frá atvinnumálanefndum hefur því ekki verið þörf til að koma þeim af stað. Á hinn bóginn á hér einnig við hið sama og um bátana, að æskilegt er, að nefndirnar sinni nokkrum úrlausnarefnum. Þessi vandamál eru þrenns konar:

Í fyrsta lagi eru vandamál frystihúsanna í þeim landshlutum, þar sem síldveiðar hafa einkum verið stundaðar á undanförnum árum og bolfiskvinnslustöðvar hafa því ekki verið endurbættar og jafnvel beinlínis komizt í niðurníðslu. Þetta á í mismunandi ríkum mæli við norðan frá Raufarhöfn suðaustur um til Djúpavogs og að nokkru leyti um Siglufjörð. Á þessu svæði er þörf verulegra lánveitinga til þeirra frystihúsa, sem fyrir eru. Fiskveiðasjóður og atvinnumálanefnd ríkisins hafa þegar tekið ákvarðanir um fyrirgreiðslu til fjögurra frystihúsa, þ.e. á Raufarhöfn, Seyðisfirði og tveggja á Siglufirði. Umsóknum annarra úr þessum byggðarlögum mun verða sinnt eins fljótt og tök eru á, er nauðsynlegar athuganir hafa farið fram.

Í öðru lagi er um að ræða mikla fjárhagsörðugleika hjá frystihúsum á nokkrum stöðum, þar sem skipulag hefur verið óheppilegt og rekstur fiskvinnslustöðva hefur gengið illa árum saman, svo að miklar skuldir hafa safnazt. Hér er ekki um ný vandamál að ræða, enda þótt erfiðleikar frystiiðnaðarins á 2–3 síðustu árum hafi gert úrlausn þeirra enn brýnni en áður. Endurskipulagning frystiiðnaðarins á þessum stöðum bæði varðandi fjárhag og rekstur hefur verið til athugunar í Fiskveiðasjóði og í bönkunum um tveggja ára skeið og hefur þegar verið greitt úr þessum málum víða, að miklu eða öllu leyti, fyrir milligöngu Fiskveiðasjóðs og Atvinnujöfnunarsjóðs, þar sem slíkt er á þeirra færi. Sums staðar eru þó vandamál enn óleyst og leggja atvinnumálanefndir sig nú fram um lausn þeirra. Ljóst er, að forsenda árangurs er, að nauðsynlegt samstarf fyrirtækja á þessum stöðum takist. Ef óhjákvæmilegar umbætur fást ekki, hrökkva ný fjárframlög eða lán frá opinberum aðilum skammt, því að nýrra erfiðleika og nýrrar stöðvunar er þá skjótt að vænta.

Í þriðja lagi er um að ræða lánveitingar til endurbóta á frystihúsum og öðrum fiskvinnslustöðvum í öðrum landshlutum en þar sem um sinn voru einkum stundaðar síldveiðar. Þar er ekki um miklar fjárhæðir að ræða, enda mun Fiskveiðasjóður að verulegu leyti geta leyst úr þeirri þörf og er þó til athugunar, hvort, og að hve miklu leyti, atvinnumálanefndir þurfa einnig að hlaupa þar undir bagga.

Athugun á afgreiðslu umsókna í sjávarútvegi hefur verið látin ganga fyrir öðrum. Athugun annarra umsókna, en þær eru fyrst og fremst til ýmiss konar iðnaðar, er því skemmra á veg komin. Þó hafa nokkur þýðingarmikil mál þegar hlotið athugun og fyrirgreiðslu. Má í því sambandi sérstaklega nefna fyrirætlanir Sambands íslenzkra samvinnufélaga um stækkun sútunarverksmiðju á Akureyri, sem atvinnumálanefnd ríkisins ásamt öðrum aðilum hefur heitið verulegri lánveitingu, eftir því sem nánar semst um milli umsækjenda og lánveitenda í heild. Undirbúningur þeirrar framkvæmdar heldur því áfram af fullum krafti.

Önnur þýðingarmikil mál eru nú til athugunar hjá Framkvæmdasjóði. Í sumum tilvikum er þar um að ræða nýjar framkvæmdir eða iðnað nýrrar tegundar hérlendis. Auðséð er, að slíkar lánveitingar krefjast nákvæmrar athugunar. Afgreiðsla þeirra kann þess vegna að taka nokkurn tíma. Honum mun þó vel varið, bæði frá sjónarmiði umsækjenda sjálfra og væntanlegra starfsmanna, þar sem illa undirbúnar og óheppilegar framkvæmdir mundu ekki stuðla að varanlegum atvinnubótum, heldur von bráðar leiða af sér ný vandamál. Aðrar umsóknir frá minni fyrirtækjum eru til athugunar í Atvinnujöfnunarsjóði, en athuganir eru skammt á veg komnar, vegna þess að meira máli hefur verið talið skipta að sinna sjávarútveginum. Oft er um að ræða fyrirtæki, sem Atvinnujöfnunarsjóður hefur þegar kynni af og hefur veitt lán, svo að málsmeðferð mun þess vegna taka skemmri tíma en ella. En of oft kann að reynast erfitt að greiða úr vanda þessara fyrirtækja, vegna þess að hann er ekki fyrst og fremst fólginn í skorti lánsfjár, heldur í skorti á eigin fé og nægilegri þekkingu og reynslu í stjórnun og rekstri. Í þessum efnum er mikilla umbóta þörf hér á landi, svo sem alviðurkennt er. Lausn þess vanda er utan verksviðs atvinnumálanefnda, en almannavaldið og stofnanir þess geta þó stuðlað að því með ýmsu móti, að aðilar sjálfir og þeir, sem næstir standa, geri ráðstafanir til þess að reyna að bæta úr þessum annmörkum.

Nokkur brögð eru að því, að sótt hafi verið um hrein rekstrarlán, því að alls eru þvílíkar umsóknir 31 að tölu og að fjárhæð 65 millj. kr. Atvinnumálanefnd ríkisins hefur ákveðið, að hún muni ekki veita slíka fyrirgreiðslu, sem eðli sínu samkv. heyri undir hinar varanlegu lánsstofnanir, enda mundi slík íhlutun valda varhugaverðum glundroða. N. hefur því þegar afgreitt allmargar þessara umsókna og vísað umsækjendum til viðskiptabanka sinna og þeirrar fyrirgreiðslu, sem Seðlabankinn veitir með þeirra aðstoð. Aðrar sams konar umsóknir munu væntanlega verða afgreiddar á sama hátt.

Þá skal ég fara nokkrum orðum um opinberar framkvæmdir. Í starfsreglum atvinnumálanefndar er berum orðum fram tekið, að lán til atvinnufyrirtækja skuli yfirleitt sitja í fyrirrúmi fyrir lánum til opinberra framkvæmda, en þó mega þær einnig koma til greina, þegar þær hafa mikil og skjót áhrif til atvinnuaukningar, og jafnframt mikla þýðingu fyrir framtíð atvinnulífsins á staðnum. Mikill fjöldi umsókna um opinberar framkvæmdir hefur borizt frá flestum sveitarfélögum í þéttbýli. Áhugi fyrir lánveitingum hefur einnig komið fram af hálfu aðila, sem sjá um hreinar ríkisframkvæmdir. Erfitt er að segja með vissu, hve háar upphæðir er hér um að ræða, þar sem upplýsingar um framkvæmdakostnað og lánaþörf eru ekki alltaf fullnægjandi. Þó má telja, að þær framkvæmdir, sem um er að ræða á árinu 1969, mundu kosta nokkuð yfir 300 millj. kr., og þau lán, sem um er sótt, nema um eða yfir 200 millj. kr. Augljóst er, að ekki er unnt að sinna nema litlum hluta þessara umsókna með því fjármagni, sem atvinnumálanefnd ríkisins hefur yfir að ráða og samkv. starfsreglum hennar. Annað mál er, að sveitarfélögin eiga nú við að etja sérstakan vanda, sem á rætur sínar að rekja til þess, hversu mjög mörg þeirra juku framkvæmdir sínar á veltiárunum frá 1962–1966. Slíkar framkvæmdir jukust þá meira en annarra aðila í landinu eða um 22% á ári að meðaltali á föstu verðlagi eða um það bil þrisvar sinnum örar heldur en þjóðartekjur jukust á þessu tímabili og meira en helmingi örar heldur en ríkið sjálft jók sínar framkvæmdir á þessum sömu árum. Sveitarfélögunum var þetta unnt vegna hinna auknu tekna, sem þau höfðu á þessum árum. Nú þegar viðhorfin eru önnur, verður vandinn enn meiri einmitt af þessum sökum.

Sjálfsagt er, að atvinnumálanefnd ríkisins hlaupi undir bagga, eftir því sem máttur hennar endist, og þegar slík aðstoð er líkleg til varanlegs gagns. En hér verður vel að vanda athugun og undirbúning. Enn sem komið er, hefur aðeins verið ákveðin ein slík lánveiting, og er það lán vegna Hitaveitunnar í Reykjavík. Þessi lánveiting er að upphæð 20 millj. kr. og ásamt jafnháu láni frá Atvinnuleysistryggingasjóði mun hún gera Hitaveitu Reykjavíkur kleift að halda uppi framkvæmdum, er nema 70–80 millj. kr. á þessu ári. Þær framkvæmdir munu veita mikla atvinnu, meðan þær standa yfir, og leiða til varanlegra hagsbóta fyrir þá, sem með þessu móti geta fyrr en ella orðið hitaveitu aðnjótandi. Loks verður að þessu verulegur gjaldeyrissparnaður fyrir landið í heild.

Nokkrar aðrar framkvæmdir eru nú til athugunar hjá atvinnumálanefnd ríkisins. Þar er einkum um að ræða hitaveitu- og vatnsveituframkvæmdir og hafnargerðir, en allar slíkar framkvæmdir hafa bæði mikla þýðingu fyrir atvinnu þegar í stað og fyrir framtíðarheill byggðarlaganna. Enn er ekki hægt að segja, hversu háar fjárhæðir hér getur verið um að ræða eða hvaða framkvæmdir þykja árangursríkastar, en till. um þessi efni hafa nú þegar borizt frá atvinnumálanefndum kjördæmanna.

Þá er þetta að segja sérstaklega um ráðstafanir til að auka húsbyggingar. Atvinnumálanefnd ríkisins fjallaði á fyrstu fundum sínum um sérstakar ráðstafanir til að örva byggingarstarfsemi. Nefndin átti viðræður um þetta við fulltrúa Seðlabankans og varð samkomulag um, að Seðlabankinn veitti sérstaka fyrirgreiðslu til húsnæðismálastjórnar, að upphæð rúmar 100 millj. kr. til þess að flýta lánum til húsbygginga. Frekari aðgerðir í þessum efnum eru nú til athugunar á vegum atvinnumálanefndar ríkisins. Slíkar aðgerðir hafa mikla almenna þýðingu fyrir atvinnuástandið í landinu líkt og aðgerðir til aukningar rekstrarlána til sjávarútvegs og iðnaðar og jafnvel enn skjótari en hagnýting þeirra 300 millj. kr., sem n. hefur beint til ráðstöfunar.

Þá hef ég gert stuttlega grein fyrir þeim málum, sem atvinnumálanefnd ríkisins hefur einkum fjallað um. Eðlilegt er, að menn spyrji, hvaða áhrif þessar ráðstafanir hafi haft á atvinnuástandið í landinu. Nú er það að vísu svo, að á því hefur orðið mikil breyting á síðustu vikum. Í desemberlok var tala atvinnuleysingja talin kringum 2220. Í janúarlok var þessi tala komin upp í 5475 menn. Í febrúarlok hafði hún lækkað niður í 3607. Í gær var, eftir því sem næst verður komizt, það er ekki nákvæm tala, álitið, að atvinnuleysingjar væru um 2100. Þetta er enn allt of há tala og ljóst, að betur má, ef duga skal, því að að sjálfsögðu keppum við öll að því, að ekkert atvinnuleysi eigi sér stað í landinu. Það er einnig sjálfsagt að viðurkenna, að þessi mikla breyting, sem þó hefur á orðið frá því í janúarlok, er ekki nema að sáralitlu leyti að þakka starfsemi atvinnumálanefndanna, vegna þess að hér er það, sem mestu hefur valdið um, að sjávarútvegurinn hefur getað tekið til starfa með fullum krafti. Það eru þess vegna þær almennu ráðstafanir, sem gerðar hafa verið honum til eflingar varðandi rekstrarlán, að vísu í samráði við atvinnumálanefnd ríkisins, sem hér hafa ráðið úrslitum. Og það er ljóst, hverja þýðingu einmitt eðlilegur rekstur sjávarútvegsins hefur, af því, að í janúarlok skyldu um 5500 manns hafa verið atvinnulausir eða nær 3000 mönnum fleiri en nú. Þessir menn voru atvinnulausir til viðbótar þeim mikla fjölda, sem þá var í verkfalli. Eins hygg ég, að það sé greinilegt, að áframhaldandi velgengni sjávarútvegsins fyrst og fremst, en auðvitað einnig annarra greina, muni eiga mestan þátt í því að ráða bug á því atvinnuleysi, sem enn er eftir.

Sanni mun nær, að meginorsök þess sé sú, að byggingarstarfsemi í landinu er nú miklu minni en áður. Þetta er óhjákvæmileg afleiðing þess, að allur almenningur, alþjóð getum við sagt, hefur nú miklu rýrari tekjur heldur en áður fyrr var, svo að menn geta síður ráðizt í byggingarframkvæmdir heldur en hér var um alllangt skeið. Höfuðbótin hlýtur því að verða sú, að atvinnuvegirnir rétti sig við á ný, þannig að það umframfé skapist, ef svo má segja, sem runnið geti til slíkra framkvæmda. Það er svo annað mál, að hér er hægt að gera margt til styrktar og til að hraða þessari þróun. Og það hefur atvinnumálanefnd ríkisins einmitt reynt að gera í sinni starfsemi. Hún hefur talið mjög mikilsvert að ýta undir byggingarframkvæmdir með því að beita sér fyrir því láni, sem Seðlabankinn veitti húsnæðismálastjórn ríkisins. Atvinnumálanefndin hefur einnig t.d. varðandi hitaveituframkvæmdirnar hér í Reykjavík stuðlað að því, að þær gætu hafizt í stærra mæli heldur en áður var fyrirhugað, svo að tvennt eitt sé talið. Aðrar þær framkvæmdir, sem hér skipta máli, hef ég þegar talið upp og skal því ekki rekja á ný. En við höfum verið sammála um það, að þótt æskilegur væri hinn allra mesti flýtir, þá verður einnig að athuga vel hverja framkvæmd um sig, og gæta þess, að ekki væri um aðrar framkvæmdir frekar að ræða, sem fljótar eða til meiri frambúðar gætu bætt úr þeim vanda, sem hér er við að etja.

Það er ljóst, að nú þegar er verulega gengið á það fé, sem atvinnumálanefnd ríkisins hefur yfir að ráða. Þó er verulegur hluti þess eftir. Menn hafa margar ráðagerðir til íhugunar, sem ég skal ekki rekja hér að sinni. Ég hef einungis minnzt á það, sem fastráðið má heita. En ætlunin var, og um það var samið, að fénu yrði fyrst og fremst varið til arðbærs atvinnurekstrar, sem kæmi að varanlegu gagni. Og það vona ég, að reynslan eigi eftir að sanna, að ávöxtur af starfi nefndarinnar verði slíkur, að við höfum fylgt þeirri meginreglu. Hitt skiptir svo langsamlega mestu og hefur úrslitaþýðingu, að vinnufriður haldist í landinu, að menn geti ótruflað starfað að eðlilegum atvinnurekstri, og þá mun það skjótlega, þótt nokkurn tíma taki, koma í ljós, að sá arður, sem kemur t.d. af sjávarútveginum, dreifist um allt þjóðfélagið og verður öllum stéttum að gagni.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um málið að sinni, en leyfi mér að leggja til, að frv. verði sent til 2. umr. og hv. fjhn. d. til athugunar.