27.03.1969
Neðri deild: 70. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

191. mál, aðgerðir í atvinnumálum

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tefja þessar umr. og stend upp af sérstöku tilefni, en vil þó áður en ég kem að því taka undir þær aths., sem hér hafa fram komið varðandi þessar margrómuðu 300 millj., sem að vísu eru spor í rétta átt, eins og hv. 6. þm. Reykv. vitnaði hér í áðan, í orð eins upprennandi ungs Alþýðuflokksmanns, spor í rétta átt, en afskaplega lítið spor. Sú staðreynd, sem rædd hefur verið æ ofan í æ af hálfu okkar stjórnarandstæðinga hér á hinu háa Alþ., sú staðreynd, að á undangengnu góðæristímabili leyfðu stjórnarvöldin óprúttnum gróðaöflum, einstaklingum og fyrirtækjum, að láta greipar sópa um gjaldeyri og önnur verðmæti, sem alþýða manna hafði skapað með striti sínu, sú staðreynd verður með engu móti sniðgengin, en hlýtur að verða höfð til hliðsjónar, þegar vega skal og meta þetta mál, margnefndar 300 millj. til atvinnuaukningar.

Verzlunarhallir þær, sem risið hafa á undanförnum árum, svo og bankabyggingar, svo og heil íbúðarhverfi hér á höfuðborgarsvæðinu, þar sem lúxusinn og tildrið er bókstaflega yfirþyrmandi, allt þetta óhóf er ekki annað en ránsfengur, hvað sem það kann að heita á kurteisu máli hagfræðinga og hæstv. ráðh., ekki annað en ránsfengur, sem gróðaöflin hafa tekið af alþýðu manna í skjóli ranglátrar stjórnarstefnu. Ég er að vísu ekki ýkja fróður um verð á fasteignum. En trúað gæti ég því, að það ætti að vera auðvelt að benda á svo sem eins og 5, kannske í hæsta lagi 10, allavega einar 5 verzlunarhallir í eigu einstaklinga og einstakra fyrirtækja, sem samtals mundu að verðmæti samsvara þessum 300 millj., sem ríkisstj. ætlar til uppbyggingar því atvinnulífi, sem stefna hennar, sú stefna, sem gerði smíði þessara halla mögulega, hefur lagt í rúst víðs vegar um landið. Og sá, sem færi hér um lúxushverfin á höfuðborgarsvæðinu, gæti án efa fljótlega bent á svo sem eins og 50 einbýlishús, sem að verðmæti mundu svona hvert um sig, þegar allt er talið með, vera um 6 millj., þannig að sú híbýladýrð, sem 50 einstaklingar geta leyft sér og sínum, mundi samsvara þeim 300 millj., þeirri upphæð, sem hæstv. ríkisstj. virðist telja mátulegan skammt til þess að bæta kjör þeirra þúsunda alþýðufólks, sem vegna ófremdarástandsins í atvinnumálum á nú fullt í fangi með að hafa í sig og á.

Ég vek athygli á þessu til rökstuðnings þeirri fullyrðingu, að margnefndar 300 millj. til atvinnubóta eru ekki annað en kák og raunar enn ein staðfesting á þeirri ósvífnu stefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefur rekið og ætlar sér auðsjáanlega áfram að reka gagnvart alþýðu þessa lands. Það er ekki einu sinni svo vel, að þessar 300 millj. skuli teknar til baka af ránsfeng gróðaaflanna, t.d. með eignakönnun, eins og við Alþýðubandalagsmenn höfum lagt til, og skattlagningu í samræmi við hana, stóreignaskatti, sem um mundi muna, og gróðaskatti. Nei, það á að afla þeirra með lántöku. Allt þetta kák verður raunar þeim mun argvítugra, sem það hefur dregizt úr hömlu, eins og bent hefur verið á hér, að þessum 300 millj. yrði úthlutað, og voru margir farnir að halda, að komin yrðu græn grös og þau jafnvel farin að sölna aftur, áður en nokkur lifandi manneskja fengi notið góðs af þessum margrómuðu 300 millj.

En þá vildi ég aðeins drepa á það atriði, sem ég sagði áðan, að væri ástæðan til þess, að ég stend hér upp fyrst og fremst. Þetta er atriði, sem snertir mál, sem ég ber hér fram eða drep á fyrir tilmæli fólks í kjördæmi mínu, þ.e. nánar tiltekið uppi á Akranesi. Þar starfar nú sútunarverksmiðja, að vísu ekki neitt stórfyrirtæki, en sér þó svona 15–20 manns fyrir atvinnu, og það munar um slíkt á þessum erfiðu tímum. Nú er það altalað þarna efra, að til standi að flytja þessa sútunarverksmiðju í annan landshluta, þar sem síðan eigi að stofnsetja hana að nýju í eitthvað stækkuðu formi að því er manni skilst, en með fjármagni, sem fengið yrði við úthlutun á þessum títtnefndu 300 millj. Þetta vekur að sjálfsögðu furðu, og mig grunar, að nefna mætti fleiri dæmi slíks. Og menn hljóta að spyrja: Er nokkurt vit í svona löguðu? Hljóta menn ekki að spyrja, hvers konar eiginlega hagspeki það sé að auka atvinnu í einum landshluta með því að svipta fólk atvinnunni í öðrum landshluta?

Loks vil ég taka það fram, að ég tel, að þær nefndir, sem skipaðar hafa verið til þess að úthluta þessum smánarskammti ríkisstj., séu síður en svo öfundsverðar af sínu hlutskipti. Og eins og allt var í pottinn búið tel ég, að verkalýðshreyfingin hafi gert rétt í því að tilnefna fulltrúa til þess að hafa áhrif á þessa úthlutun, annað komi að sjálfsögðu ekki til mála. Hitt sýnist mér aftur á móti alger óþarfi, sem komið hefur fyrir, að fremstu menn verkalýðshreyfingarinnar tali um þetta sem merkilega viðleitni af hálfu stjórnarvaldanna til að bæta úr því ófremdarástandi, sem stjórnarvöldin bera ábyrgð á. Viðleitni mætti kannske kalla þetta, en það er alveg af og frá að kalla það merkilega viðleitni.