28.03.1969
Neðri deild: 72. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

191. mál, aðgerðir í atvinnumálum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þegar umr. um þetta mál stóðu yfir í gær, fór ég upp að forsetastólnum til þess að biðja um orðið, en fyrir tilmæli forseta frestaði ég því þar til nú við 2. umr. þessa máls. En þó að störf þingsins byggist stundum á tillitssemi okkar í stjórnarandstöðuflokkunum, ber ekki að líta svo á, að í því felist nein viðurkenning á störfum eða stefnu hæstv. ríkisstj. eða að baráttuþrek okkar sé nokkuð að bila í baráttunni við að koma á heilbrigðari stjórnarháttum í landi okkar. Það eru ekki eingöngu við, sem fylgjum stjórnarandstöðuflokkunum, heldur einnig fjölmargir, sem fram að þessu hafa fylgt stjórnarflokkunum að málum, sem hafa sannfærzt um það, að þessari ríkisstj. sé ekki við bjargandi. Stefna hennar og störf séu þannig, að hún sé dæmd til að falla um leið og sá dagur rennur upp, að ekki tekst lengur að fá erlend lán eða gjafafé með nokkurra daga millibili. Hæstv. ráðh. og sendimenn þeirra eru í endalausu boðflugi úti um öll lönd í þessum tilgangi, og má segja með undraverðum árangri fram að þessu, eftir því sem fregnir herma. En hvað slíkar bónbjargaferðir ganga lengi úr þessu, og til hvers þær leiða, er svo annað mál, en líf hæstv. ríkisstj. byggist eingöngu á þessu, hvað erlendar þjóðir eru örlátar við þessa ráðvilltu ríkisstj. Og hvernig mun þjóðinni ganga að axla þær byrðar í næstu framtíð, sem hæstv. ríkisstj. er nú að binda á hennar herðar?

Á því er enginn vafi, að það vakti athygli, ekki sízt á þeim stöðum, þar sem atvinnuleysið var mest, þegar sú fregn barst út um landið þann 17. janúar s.l., að 300 millj. kr. yrði varið til þess að vinna bug á atvinnuleysinu og þegar fjölmiðlunartækin voru látin tilkynna það með miklum fjálgleik, að nú þegar yrði unnið að því að kveða niður þá drauga, sem atvinnuleysinu valda, og ýmsir litu bjartari augum á framtíðina í þorrabyrjun heldur en áður hafði verið. En nú síðan þetta gerðist er liðið á 3. mánuð. Hæstv. forsrh. játaði það hér í gær, að lítilla áhrifa gætti enn frá þessum fyrirheitum hæstv. stjórnarvalda, enda held ég nú, að trúin á þessi fyrirheit minnki með hverjum deginum, sem líður. Ekki sízt á þeim stöðum, þar sem ástandið er verst, enda er það staðreynd, að þrátt fyrir metaflabrögð í flestum verstöðvum landsins, ef ekki öllum, að ógleymdum loðnuveiðunum hér fyrir Suðurlandi, eru nú á hávertíðinni á þriðja þúsund manns atvinnulausir hér í landinu. Á sumum stöðum er algjört atvinnuleysi, t.d. á Þórshöfn, Raufarhöfn og ég held Hofsósi, svo að einhverjir staðir séu nefndir. 1. febrúar voru t.d. 80 manns atvinnulausir á Þórshöfn, en 1. marz 91 og hefur þeim ekki fækkað síðan. Sums staðar hafa róðrar tafizt, vegna þess að rekstrarfé hefur ekki fengizt, þó að sú upphæð, sem um var beðið, sé lítið hærri en atvinnuleyisbætur mundu nema til þeirra, sem við útgerð bátsins vinna yfir vetrartímann.

Þannig er haldið á þessum málum, en ekki vantar það, að um málið sé nóg fjasað, en það nægir skammt til þess að auka atvinnu í landinu, ef raunhæfar aðgerðir fylgja þar ekki í kjölfarið. Dagblaðið Vísir sagði frá því í gær, að aðeins 30% af skólafólki í landinu hefði von um einhverja atvinnu í sumar. Sagan frá í vetur má ekki endurtaka sig, það er ekki nóg að gera ráðstafanir í haust til að leysa erfiðleika skólafólksins í vor og sumar, það verður að gera ráðstafanir þá þegar, án frekari tafar, til þess að allt þetta fólk hafi lífvænleg störf að vinna í sumar. Langar ræður hér á hinu háa Alþ., og þó að þær séu endursagðar með stóru letri í dagblöðunum, leysa þar engan vanda. Það eru raunhæfar aðgerðir, sem hér þurfa að koma til. En ýmis teikn eru á lofti, sem ekki spá góðu um atvinnu í sumar, a.m.k. í sumum þéttbýlisstöðunum. T.d. hefur ekki verið beðið um eina einustu byggingarlóð á Húsavík, og á fleiri stöðum norðanlands er svipaða sögu að segja. Allir hljóta að sjá og skilja, til hvers slíkt muni leiða.

Eitt af því, sem gæti haft höfuðþýðingu fyrir suma þéttbýlisstaði norðanlands á næsta vetri, er, að í sumar verði skipulögð fiskileit fyrir Norður- og Norð-Austurlandi, sérstaklega leitað að rækju og loðnu. Margt bendir til þess, að rækjuveiðar sé hægt að stunda fyrir Norðurlandi. Stór og falleg rækja finnst oft í fiski fyrir norðan og athugun á þessu er því mjög brýn. Ef sæmileg rækjumið fyndust fyrir Norðurlandi, gætu slíkar veiðar haft mikil áhrif til að auka atvinnu á einhverjum þeirra staða, þar sem lítil atvinna er nú, því að rækjan veitir, eins og allir vita, mikla atvinnu hér í landi. Er hér um mjög aðkallandi mál að ræða, sem ekki má dragast lengi að sinna. Fiskifræðingar telja líklegt, að hægt sé að veiða loðnu fyrir Norður- og Norð-Austurlandi frá því í ágúst og fram yfir áramót. Þeir telja líklegt, að á þeim tíma sé loðnan um eða jafnvel yfir 20% feit, en rétt fyrir hrygningartímann er hún ekki nema 4% feit, eins og hefur komið fram í fréttum, eða á þeim tíma, sem veiðar eru hér suð-vestanlands. Ef hægt reyndist að veiða loðnu á þessum árstíma fyrir Norður- og Norð-Austurlandi, gæti það haft mikla þýðingu fyrir þá staði, sem nú eru verst úti, hvað atvinnu snertir. En þessar veiðar verða því aðeins stundaðar, að fylgzt verði með loðnugöngum í sumar, og því má það ekki koma fyrir, að þessu mikla hagsmunamáli verði ekki fullur gaumur gefinn nú þegar. Á Norðurlandi er meira atvinnuleysi nú hlutfallslega en í öðrum landshlutum.

Þegar atvinnumálanefndir voru skipaðar, var starfssvæði þeirra yfirleitt miðað við hvert kjördæmi, nema á Norðurlandi. Þar skyldi ein atvinnumálanefnd vera fyrir bæði kjördæmin, eins og frv. það, sem hér liggur fyrir, ber með sér. Hefði nú atvinnuástandið verið betra á Norðurlandi en í öðrum landshlutum, hefði mátt skilja þessa ráðstöfun, en þar sem því er alveg öfugt farið, vil ég leyfa mér að leggja þá spurningu fyrir hæstv. forsrh., hvaða ástæður hafi legið til þess, að ein atvinnumálanefnd var sett fyrir allt Norðurland, en ekki í hvert kjördæmi þar eins og annars staðar á landinu, og hvort ekki sé full ástæða að breyta þessari skipan nú, í sambandi við afgreiðslu á þessu frv., á þann veg, að það sé á Norðurlandi atvinnumálanefnd starfandi í hverju kjördæmi.