28.03.1969
Efri deild: 68. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (706)

191. mál, aðgerðir í atvinnumálum

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, var samþ. í hv. Nd. með mjög óverulegum breytingum. Það var orðalagsbreyting í 4. gr. Orðið fyrirgreiðsla var notað um meðferð Atvinnujöfnunarsjóðs. Það var í fyrsta hluta 5. gr.: „Féð skal vera í umsjá Atvinnujöfnunarsjóðs, sem annast fyrirgreiðslu samkv. reglum, sem um það verða settar af atvinnumálanefnd ríkisins.“ Þessu var breytt, svo að það er Atvinnujöfnunarsjóður, sem fer með féð samkv. reglum. Það þótti einungis fara betur á þessu. Svo var 5. gr. skipt í tvær gr., þannig að lánsheimildin var tekin sér, en efnið að öðru leyti, með þessari breytingu, algerlega óbreytt.

Frv. er til staðfestingar á því samkomulagi, sem komst á milli ríkisstj., samtaka vinnuveitenda og Alþýðusambands Íslands hinn 17. janúar s.l., eftir að umr. á milli aðila höfðu staðið nokkra hríð. Þetta samkomulag hefur þegar verið rætt að nokkru við almennar umr. um efnahagsmál hér á Alþ., og er hv. þingheimi bæði kunnugt þaðan og af umr. annars staðar. Það var bent á það á sínum tíma, réttilega, af hv. 3. þm. Norðurl. v., Ólafi Jóhannessyni, að nauðsynlegt væri að fá lagaheimild fyrir þeim aðgerðum, sem ráðgerðar voru í þessu samkomulagi. Það var vissulega rétt ábending, því að þarna er bæði um að ræða lántöku og ráðstöfun fjár, sem ekki er heimil, nema til þess séu lög, og þá þarf einnig að taka fram, hverjir eiga að ráðstafa fénu. Þetta er aðalefni þess frv., sem hér er nú fram lagt, og er út af fyrir sig enginn ágreiningur um efni frv. eða form þess. Það var að vísu bent á það í hv. Nd., að það hefði verið nóg að hafa eingöngu lánsfjárheimildina og, að því er ég hygg, heimild til þess að verja fénu í frv., vegna þess að öðrum ákvæðum væri ekki hægt að breyta, vegna þess að það mundi brjóta samkomulag, sem gert hefur verið. Auðvitað hefur Alþ. alveg frjálsar hendur um að gera hverjar breytingar, sem það kýs, á frv. Hitt er annað mál, að þá þyrfti að leita samkomulags við aðra aðila eða samkomulagið í heild mundi niður falla.

En í frv. eru tekin þau aðalatriði, sem ég hygg, að þar þurfi að vera eðli málsins samkv.

Ég gaf í hv. Nd. ítarlega skýrslu um störf atvinnumálanefndar ríkisins fram að þessu, og skal ekki rekja þá ítarlegu skýrslu í einstökum atriðum nú. En ljóst mál er, að höfuðverkefni nefndanna var í fyrstu að fá það tryggt, að lánsfé fengist, og var því þegar yfirlýst af hálfu ríkisstj., að svo miklar líkur væru til þess, að störf nefndanna gætu hafizt af þeim sökum, enda útveguð bráðabirgðalán í bili til þess, að störf þyrftu ekki að tefjast af þeim ástæðum. Nú hefur formlega verið tryggt, að lánið sé fáanlegt, og verður það boðið út sem hluti af því heildarláni, sem hv. Ed. var nú áðan að samþykkja frv. um, þ.e.a.s. 200 millj. af þessu láni, sem atvinnumálanefndirnar eiga að ráðstafa, en 100 millj. er ráðgert, að verði fengnar hér innanlands.

Um síðustu helgi höfðu borizt frá einstökum atvinnufyrirtækjum 275 umsóknir, samtals að upphæð 526 millj. Þar að auki fjölmargar umsóknir frá sveitarstjórnum, að segja má í öllum þéttbýlissveitarfélögum landsins, og er talið, að þar hafi a.m.k. verið farið fram á lánveitingar að upphæð 200 millj. kr. Ljóst er, að þær 300 millj., sem hér er verið að afla, endast ekki til þess að fullnægja öllum þessum óskum, enda hefur auðvitað enginn búizt við því, að við öllum óskum væri hægt að verða. En greinilegt er, að verulegt starf hlýtur að vera í því fólgið að vinna úr þessum umsóknum, og hefur það nú þegar verið gert að töluverðu leyti með þeim árangri, að ákveðið hefur verið að veita allveruleg lán til fiskveiða, bæði skipa og vinnslustöðva. Enn fremur lán til iðnaðarframkvæmda og má þar fyrst nefna sútunarverksmiðju SÍS á Akureyri, sem ráðgert er að veita lán af þessu fé í samráði við og samvinnu við aðrar lánastofnanir hér innanlands, og er eftir að koma sér saman um skiptingu lánsfjár frá hverjum aðila um sig. Þá hefur einnig að meginstefnu til verið tekin ákvörðun um það að verja verulegu fé, allt að 50 millj., til eflingar innlendra skipasmíða til þess að gera skipasmíðastöðvum hér mögulegt að hefja og halda áfram smíði fiskiskipa, þó að ekki sé þegar fyrir hendi kaupandi. Þetta mundi skapa skipasmíðastöðvum í öllum héruðum landsins mjög aukin verkefni, verða bæði til mikilla atvinnubóta í bili, efla íslenzkan iðnað og veita frambúðaratvinnu vegna þeirra skipa, sem þannig yrði hleypt af stokkum. En um þetta er ekki búið að kveða á í einstökum atriðum, enda er ekki unnt að gera það, fyrr en séð verður, hvort Fiskveiðasjóður reynist þess megnugur að veita lán út á smíðarnar af sinni hálfu. Að því er nú unnið að greiða fyrir því, að slíkt takist og mun atvinnumálanefnd ríkisins ýta þar verulega á eftir samkv. sinni getu. Þá hefur verið ákveðið að veita 20 millj. til hitaveituframkvæmda hér í Reykjavík, sem gera það mögulegt, að þær verði mun umfangsmeiri, komi fleirum að gagni og veiti fleirum atvinnu, meðan á byggingunni stendur, heldur en ella hefði verið unnt.

Það má e.t.v. segja, að þegar þetta tvennt er tekið saman, það, sem til sjávarútvegsins hefur verið veitt, til iðnaðar og til hitaveitunnar, þá fari að nálgast það, að helmingi fjárins sé ráðstafað. En þó eru þar í enn allmörg óviss atriði, enda er stöðugt unnið að því að hraða afgreiðslu annarra mála, sem enn eru til meðferðar. Samhliða þessum lánveitingum hefur verið unnið að því að greiða fyrir framkvæmdum með öðrum hætti. Ein af fyrstu ákvörðunum nefndarmanna var að beina því til Seðlabankans að hafa fyrirgreiðslu um hraðari lánveitingar til húsnæðismálastjórnar. Eða réttara sagt, að Seðlabankinn hlypi í skarðið, þar sem tekjur húsnæðismálastjórnar voru ekki nægar, til þess að hægt væri að veita þegar lán til byggingar. Lagt var til, að þá væru veittar af Seðlabankanum nokkuð yfir 100 millj. kr., til þess að byggingarframkvæmdir gætu hafizt eða haldið áfram. Enn fremur hafði Seðlabankinn samráð við nefndina, og það var eitt af fyrstu málum, sem í nefndinni var rætt, um þá mjög auknu fyrirgreiðslu, sem hann hefur veitt til sjávarútvegs, bæði útgerðarmanna og eigenda fiskvinnslustöðva, og einnig til iðnaðar. Ákvörðunarvaldið í þessum efnum er hjá Seðlabankanum og bönkunum, en Seðlabankinn hafði samráð um þetta við atvinnumálanefndina, sem var þess hvetjandi, að þessi aukna fyrirgreiðsla gæti sem fyrst hafizt.

Við erum öll sammála um það, hygg ég, að það fé, sem hér er um að ræða, geti komið að miklu gagni, en þó er okkur ljóst, að það eitt hrekkur skammt. Það, sem langsamlega mestu máli skiptir, er, að höfuðatvinnuvegir landsmanna geti starfað ótruflaðir og geti eflzt svo, að þeir megni að taka við sem allra flestum vinnufærum mönnum til starfa. Það má hins vegar búast við því, að eftir slíka erfiðleika, sem við nú höfum átt við að etja, en einnig ella, séu á nokkrum stöðum og í einstökum greinum erfiðleikar, er vari lengur og þurfi að gera sérstakar ráðstafanir til þess að bæta úr, og einkanlega í þeim tilfellum er enginn vafi á því, að þessar ráðstafanir geta bætt úr mjög brýnni þörf.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um málið að svo stöddu. Ég skal ekki fara í þær almennu stjórnmáladeilur, sem út af fyrir sig er eðlilegt, að upp vakni í hugum manna við meðferð máls eins og þessa, en þau ágreiningsatriði hafa margoft verið rædd, og ég sé ekki ástæðu til þess að hefja þær deilur að fyrra bragði.

Ég leyfi mér að leggja til, að málið verði samþykkt til 2. umr. og vísað til hv. fjhn. d., sem ég hygg, að nú þegar hafi raunar um það fjallað að einhverju leyti í samvinnu við fjhn. hv. Nd.