17.10.1968
Efri deild: 3. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

7. mál, happdrætti fyrir Ísland

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta til breyt. á l. um stofnun happdrættis fyrir Ísland var flutt hér á síðasta þingi, en náði þá ekki endanlegri afgreiðslu, og er nú aftur flutt að beiðni háskólaráðs.

Frv, er einfalt í sniðum, og er þess efnis, að háskólahappdrættinu verði heimilað að gefa út nýjan flokk hlutamiða, C-flokk. Nú eru flokkar í happdrættinu tveir, A- og B-flokkur, með sömu númeratölu, og ætlunin er að gefa út þriðja flokkinn, einnig með sömu númeratölu. Svo sem öllum hv. þdm. er kunnugt, er hlutverk Happdrættis Háskólans að standa undir kostnaði við allar nýbyggingar Háskólans, viðhald núverandi bygginga og ýmiss konar tækjakaup og frágang lóða. Hér er að sjálfsögðu um mjög mikilsvert viðfangsefni að ræða og með stuðningi happdrættisins hefur hingað til tekizt að leysa að verulegu leyti húsnæðisþörf Háskólans. Það er hins vegar alveg ljóst, að þarfir Háskólans fara mjög vaxandi, nemendatala hefur vaxið mjög og húsakostur hans er að verða mjög þröngur, þannig að það er óumflýjanlegt að gera ráðstafanir til þess að bæta fjárhagsaðstöðu Háskólans að þessu leyti. Það verður naumast betur gert að sinni á annan hátt en þann að leyfa Háskólanum að auka við happdrætti sitt með þeim hætti, sem hér er lagt til, og vænti ég, að hv. þdm. geti fallizt á að mæta óskum Háskólans að þessu leyti.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Málið er ljóst, og ég vil leyfa mér að mega vænta þess, að það fái nú endanlega afgreiðslu hér sem fyrst í hv. þd. Það er mjög æskilegt, að stjórn háskólahappdrættisins og háskólaráð fái vitneskju um það sem fyrst hvort heimild fæst til að bæta við þessum nýja flokki.

Ég leyfi mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.