14.11.1968
Neðri deild: 15. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

7. mál, happdrætti fyrir Ísland

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur verið afgr. shlj. frá hv. Ed. Það er þess efnis að heimila Happdrætti Háskóla Íslands að bæta einum flokki happdrættismiða við þá tvo flokka, sem nú eru gefnir út, samhliða flokki. Í grg. frv. er að því vikið, sem öllum hv. þdm. er kunnugt, að Happdrætti Háskólans er ætlað að standa straum af kostnaði við byggingar Háskólans og það eru að sjálfsögðu mjög brýnar þarfir, sem þar er við að glíma, og úr þeim þörfum hefur ekki dregið, þannig að það ber brýna nauðsyn til þess að reyna að greiða sem bezt fyrir því, að Háskólinn fái fjármagn til að sinna þeim aðkallandi verkefnum, sem hér er um að ræða. Það þótti því eðlilegt að verða við ósk stjórnar Happdrættis Háskólans um að heimila happdrættinu að auka starfsemi sína að þessu leyti. Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um málið, það er mjög einfalt í sniðum og ég þykist viss um, að hv. þdm. hafi allir ríkan skilning á nauðsyn þess að bæta aðstöðu Háskólans að þessu leyti.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjhn.