14.11.1968
Neðri deild: 15. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

7. mál, happdrætti fyrir Ísland

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Áður en mál þetta fer til n., sem ég tel sjálfsagt, að það geri, þótt ég sé á móti þessu frv. og muni greiða atkv. gegn því, þegar það kemur frá 2. umr., þá vil ég leyfa mér að benda hv. þdm. á það, að hér er verið að leggja til að lögfesta eitt nýtt happdrætti í viðbót. Þetta hefur að sjálfsögðu gífurleg áhrif á önnur happdrætti, sem starfandi eru í landinu, og miðað við þær aðstæður, sem við búum við, þá er þetta ekki til annars heldur en að draga úr því fjármagni eða þeim ágóða, sem þau happdrætti nú búa yfir, vegna þeirrar sérstöðu, sem Happdrætti Háskólans býr við, að hafa einkaleyfi til þess að vera með peningahappdrætti. En um leið og mál þetta fer til n., sem, eins og ég sagði, ég tel sjálfsagt, að það geri, þá vil ég óska eftir ákveðnum upplýsingum frá n., þegar málið kemur frá henni aftur. Það er í fyrsta lagi varðandi þá flokka eða þau tvö happdrætti, sem Háskóli Íslands hefur nú leyfi til að reka, hvort Happdrætti Háskólans hafi þegar notað sér heimildina til þess að hafa 65 þús. miða í hvorum flokki eða hvort þeir séu 60 þús., og einnig hvaða fjármagn Háskólinn hafði til umráða t.d. á s.l. tveimur árum og hvernig það fjármagn var notað, sem hann hafði til umráða. Mér finnst, að það hafi svolitla þýðingu fyrir alþm. að vita um þetta, sérstaklega, þegar verið er að leggja til að auka svona fjárráð um þriðjung.