22.10.1968
Neðri deild: 5. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

3. mál, læknaskipunarlög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um breyt. á læknaskipunarl. frá 1965 fjallar um einn þátt þeirra mála, þ.e. svo kallaðar læknamiðstöðvar, möguleika til að koma þeim upp og fyrirkomulag í sambandi við stofnkostnað og rekstur þeirra. Nú mætti varpa fram þeirri spurningu, hvort þessi til þess að gera unga löggjöf þyrfti nú þegar endurskoðunar við, og eins hitt, hver árangur hefði orðið af endurskoðun laganna eða hinum nýju læknaskipunarlögum frá 1965, og skal ég víkja örfáum orðum að því almennt, áður en ég kem að efni sjálfs frv.

Eins og menn rekur minni til, var ekki alger samstaða milli þm. við setningu læknaskipunarlaganna 1965 og nokkuð ólík viðhorf. Ekki skal ég þó neitt úr því gera nú, enda náði málið fram að ganga. En menn skiptust þó nokkuð á um skoðanir í þessu sambandi, í aðalatriðum á þann veg, hvort rétt væri að sameina minni læknishéruð og fækka læknishéruðunum þannig, en eins og oft endranær á þingi var bæði einstökum þm. og svo einnig umbjóðendum þeirra úti í héruðunum sárt um hin gömlu og litlu héruð, enda þótt þau væru læknislaus og hefðu verið læknislaus um langan tíma, og auðvitað var enginn ágreiningur milli þm. um það að gera sitt ýtrasta til þess að skapa betri læknisþjónustu utan Reykjavíkur og utan helztu kaupstaðanna í strjálbýli landsins, en nokkur ágreiningur um það, með hverjum hætti þetta mætti verða. Þessa sögu skal ég ekki rekja.

Þó að ekki séu nú liðin nema rúm 3 ár síðan þessi lög voru afgreidd frá þinginu, hefur reyndar margt gerzt á þessu tímabili, og ég geri einnig ráð fyrir því, að viðhorf manna kunni töluvert að hafa breytzt til málsins. En spurningin er þá um það, hvort þessi löggjöf hafi ekki haft tilætlaðan árangur. Nú var auðvitað fyrst og fremst megintilgangur lagasetningarinnar 1965 að stuðla að því, að fólkið í strjálbýlinu fengi viðunandi læknisþjónustu, og því miður verður að segja það eins og er, að það vantar mikið á enn, að svo sé. Engu að síður held ég, að mér sé óhætt að fullyrða, að l. hafi haft verulegan árangur, þrátt fyrir það að ástandið í þessum efnum sé kannske tölulega séð um það, hvar lækna vantar o.s.frv., engu betra nú en þá, nema síður sé. En við höfum á árinu 1965, hygg ég, verið orðnir nokkuð seinir að breyta læknaskipunarlögunum og gengið þá of skammt, en hins vegar voru þá lögbundin margvísleg og mikilvæg hlunnindi, sem vissulega hafa stuðlað að því, að málum er þó ekki verr komið en er í dag, og einnig hefur margt, sem þá var athugað og gerðar till. um, síðan verið til meðferðar og íhugunar, og ég tel að því leyti málin töluvert miklu betur á vegi stödd en þegar umr. áttu sér stað um læknaskipunarfrv. 1965.

Það liggur í augum uppi, að það voru veitt svo mikil hlunnindi í kjaramálum og á ýmsan annan hátt með löggjöfinni frá 1965, að hjá því gat ekki farið, að það hefði veruleg áhrif, enda þótt benda megi enn á það, hversu ástandið er mjög slæmt. Þá var, svo að ég nefni aðeins nokkur af þessum atriðum, það ákveðið, að í 17 tilteknum læknishéruðum og ef nauðsyn krefur í 5 öðrum enn ótilteknum héruðum skyldi greiða héraðslækni staðaruppbót á laun, er nemi hálfum launum í hlutaðeigandi héraði, og þetta má segja að hafi verið í rýrustu héruðunum og gekk þá til þess að laða menn þangað m.a. með þessum hætti, og í framhaldi af því var svo einnig ákveðið, að í þessum sömu héruðum skyldi héraðslæknir, sem hefur setið 5 ár eða 3 ár samfleytt í héraðinu, eiga rétt á að hljóta eins árs frí með fullum launum til framhaldsnáms hér á landi eða erlendis. Og þetta ákvæði var ákveðið, að skyldi koma til framkvæmda tveimur árum eftir gildistöku Laganna. En mismunurinn á 3 og 5 árum var sá, að læknir sá, sem hafði verið 5 ár samfleytt í einhverju af þessum héruðum, eins og segir í l., átti rétt á að hljóta án skuldbindingar um áframhaldandi héraðslæknisþjónustu eins árs frí með fullum launum til framhaldsnáms hér á landi eða erlendis og fá greiddan úr ríkissjóði fargjaldakostnað fyrir sig og fjölskyldu sína að heiman og til þess lands í Evrópu eða Norður-Ameríku, þar sem hann hyggst stunda námið, að ársleyfinu loknu skal hann eiga rétt á að fá greiddan á sama hátt fargjaldakostnað heim til Íslands aftur, enda skuldbindi hann sig þá til að gegna áfram héraðslæknisstörfum. Eftir þriggja ára samfellda setu á hann þó rétt á að hljóta slíkt frí með sömu kjörum, en gegn skuldbindingu um að gegna áfram héraðslæknisstörfum eigi skemur en 2 ár að ársleyfi loknu.

Þetta voru talin mundu vera mikil hlunnindi fyrir lækna í dreifbýlinu og hinum minni héruðum, vegna þess að meðal margs, sem um var kvartað, var sú einangrun, sem þar skapaðist, og hæpin aðstaða þeirra, og var nærri útilokað fyrir þá að fylgjast með í sinni flóknu vísindagrein, ef þeir ættu ekki kost á því að takast á hendur námsferðir, sem þeir tæpast gætu gert með þeim kjörum, sem þeim væru boðin þar, nema slík ákvæði eins og hér um ræðir kæmu til. Síðan var sú meginregla ákveðin í l., að við veitingu héraðslæknaembætta skyldi sá umsækjandi, sem hefur lengstan starfsaldur sem héraðslæknir, að öðru jöfnu sitja fyrir öðrum umsækjendum um stöðuna, en jafnframt ákveðið, að embættis- eða starfsaldur hérlendis í þeim afskekktu héruðum, sem ég vék að áðan, í þessum 17 minni héruðum, skyldi teljast 5 ár fyrir hver 3 ár, sem hann hefur gegnt hlutaðeigandi héraði. Allt miðaði þetta að því sama marki, að bæta verulega aðstöðu þeirra, sem í þessum héruðum störfuðu, og laða nýja lækna til þeirra.

Þá var einnig heimilt í þessum lögum, eftir því sem nánar yrði ákveðið í reglugerð, að veita læknastúdentum ríkislán til náms gegn skuldbindingu um læknisþjónustu í héraði að loknu námi, og reglugerð um þetta var sett skömmu eftir að lögin voru afgreidd, og nú standa sakir þannig, að 15 lán af þessu tagi, svo kölluð námslán til læknanema gegn skuldbindingu um læknisþjónustu í héraði, hafa verið veitt og fjögur oftar en einu sinni. En skuldbindingin er sú, að fyrir hvert lán, sem árlega er veitt, skuldbindi viðkomandi sig til þess að gegna a.m.k. eins árs þjónustu í héraði. Það eru 15 lán, sem hafa verið veitt, og fjögur oftar en einu sinni, og ég held eitt lán þrisvar sinnum eða einum lántakanda þrisvar sinnum. Nú hafa sjö lokið námi af þeim, sem þessi lán hafa sótt um og fengið, og 5 hafa byrjað sína þjónustu, að leysa af höndum þá skuldbindingu, sem fylgir því að hafa fengið þetta lán.

Þá var einnig ákveðið, að stofnaður skyldi bifreiðalánasjóður, og um það var sett reglugerð. Hlutverk hans var að lána héraðslæknum, sem eru að hefja héraðslæknastörf, fé til bifreiðakaupa, og úr þessum lánasjóði hafa verið veitt, eins og nú standa sakir, 9 lán, en lánin hafa verið veitt þannig, að þau hafa verið veitt til tveggja ára með fjórum jöfnum afborgunum höfuðstóls og vaxta og 100 þús. kr. hvert.

Ég held þess vegna, að það séu nokkuð óskiptar skoðanir manna um það, að yfirleitt séu kjör héraðslækna ekki því til hindrunar, að læknar sæki um héruðin, þó að þetta sé nokkuð misjafnt og e.t.v. megi sums staðar kvarta undan þeim, en sums staðar eru þau mjög góð og reyndar annarra lækna en héraðslækna afar góð úti á landsbyggðinni, eins og spítalalækna, þar sem spítalar eru starfandi, en samt sem áður fæst enginn læknir.

Nú skal ég ekki fara neitt nánar út í að ræða það, hvað þessi laun eru mikil og hvað vitað er um, að kjörin séu góð á hinum og þessum stað. Það er viðkunnanlegra, að sú þn., sem fær þetta mál til meðferðar, kynni sér það til frekari staðfestingar á þeim hugmyndum, sem ég hef haft um það. En þá er náttúrlega, eins og öllum er ljóst, og oft hefur verið tekið fram, úr vöndu að ráða, þegar menn setja í sjálfu sér ekki kjörin fyrir sig, heldur aðstöðuna. Menn skirrast við að hverfa út á landsbyggðina, þó að kjörin séu góð, og spurningin er þá, hvað þessu veldur. Það var gerð mjög ýtarleg grein fyrir ýmsum atriðum, sem hér koma til álita, í grg. frv. um læknaskipunarl. frá 1965 um orsakir læknaskortsins í dreifbýlinu, og skal ég ekki tefja tímann með því að fara að rekja það upp, en þar var m.a. talað um hina starfslegu einangrun og hina miklu starfsábyrgð, sem á einn mann legðist og væri mönnum fjötur um fót, það væri fagleg einangrun og læknaskorturinn væri m.a. afleiðing hennar, það væri hin þunga vaktaskylda, vinnutíminn og vinnuskilyrði, sem fjöldi þm. þekkir vel af eigin raun. Það var talað um vanmat á almennum læknisstörfum, sem hér hefði áhrif til þess að draga úr því, að menn sæktu um héruðin, og einnig var vikið að því, að nám og námsuppeldi læknastúdenta mundi vera ábótavant í þeim efnum að örva menn til héraðslæknastarfa, og yfirleitt væri mjög mikil ásókn ungra lækna í sérfræðinám, eins og reyndar er alkunnugt, og slíkt nám er náttúrlega ekki til þess fallið að takast á hendur almenna læknisþjónustu, þegar því er lokið eftir mjög langan tíma. Og loks var vikið að því, að læknar hefðu mikla atvinnumöguleika erlendis og það seiddi þá til annarra landa, og í því efni er það kunnugast, að mjög mikill hluti íslenzkra lækna, ég hef nú ekki nákvæmlega prósenttölu þeirra, sem erlendis starfa, eru starfandi í Svíþjóð. Og þeir telja sig að vísu fá þar viðunandi kosti og kjör og vilja vera þar, en þó staðhæfi ég, að margir sitja þar í afskekktum héruðum og við lélegan aðbúnað við miklu lægri laun og verri kjör en þeim stæðu til boða hér heima á Íslandi. Og þessum orðum er hægt að finna stað og upplýsingar liggja fyrir um það í rn., sem n., sem málið fær til meðferðar, mundu að sjálfsögðu látnar í té.

En í sambandi við þessi félagslegu sjónarmið og persónulegu og faglegu, sem réttilega var vikið að í grg. frv., sem samin var af nefnd sérfræðinga, sem undirbjó málið, þá samdi þessi n., en dr. Sigurður Sigurðsson landlæknir var formaður hennar, ályktunartillögur, sem hún lét fylgja frv. til rn., og þær snerta vissa þætti þessara mála, og mig langar til þess að minna á þær, því að því miður voru þær ekki látnar fylgja sem fskj. með málinu, og þó að gerð væri grein fyrir þeim þá, er nú farið að fyrnast yfir það. En fyrsta ályktunartill. var um breytingu á læknakennslu, og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin telur, að læknakandídötum sé tilfinnanlega vant þjálfunar í almennum læknisstörfum utan sjúkrahúsa. Er því lagt til, að rn. fari fram á það við menntmrn., að læknadeild Háskólans verði falið að gera till. um slíkt nám og tilhögun þess.“

Og í öðru lagi var ályktun um sérfræðiréttindi heimilislækna og embættislækna:

N. álítur mikilsvert að auka veg almennrar læknisþjónustu og embættislæknastarfa með því að gera heimilislækningar og embættislækningar að sérgreinum. Leggur n. til, að læknadeild Háskólans verði falið að semja reglur um nám í þessum sérgreinum.“

Þessar ályktunartill. n. sendi dómsmrn. að sjálfsögðu til menntmrn., sem framsendi þær til Háskólans, og síðan hefur rn. tvisvar eða þrisvar rekið á eftir þessum málum, og ég tel, að það hafi gengið of seint að vinna að framgangi þeirra á því sviði, þar sem það á að gerast, en þó mun vera nú kominn skriður á þessi mál. En það er sennilegt, að það sé réttilega metið, að læknakennslan eigi því miður nokkuð ríkan þátt í lítilli löngun þeirra, sem útskrifast frá Háskólanum, til þess að taka að sér læknisstörf í héraði. Kannske vík ég að því nánar, en annars er það ekki á mínu sviði að vera dómari um þau efni. En í aðalatriðum er það svo, eins og hv. þm. mörgum hverjum er kannske kunnugt um eða flestum, að við læknakennsluna læra stúdentarnir í hópum hér og við það að ganga á sjúkrahús, á spítalana, og þeim er algerlega framandi að eiga að koma einir og taka á sig ábyrgð sem heimilislæknar úti í afskekktum byggðum, eftir að náminu er lokið.

Þá kem ég að þeim þætti, sem þetta frv. fjallar alveg sérstaklega um og er breyting á læknaskipunarlögum, heimild 4. gr. til að setja upp læknamiðstöðvar. En ég geri ráð fyrir því, að menn hafi tekið eftir því, að ungir læknar hafa látið til sín heyra nú á undanförnum árum og eftir að þessi læknaskipunarlög frá 1965 gengu í gildi um það, að þeir teldu, að það gæti verið mikil meinabót í þessu mikla vandamáli að stuðla að skilyrðum fyrir hópstarfsemi lækna, að þeir þyrftu ekki að starfa nema í alveg ýtrustu neyð — hvað eigum við að segja? — í einmenningslæknishéruðum, þar sem þeir væru hver einn síns liðs, en stuðlað að því að skapa þeim skilyrði til þess að vera a.m.k. tveir eða fleiri saman á svokölluðum læknamiðstöðvum. Þegar heimildarákvæðið var sett í læknaskipunarlögin frá 1965, var gerð ýtarleg grein fyrir þessari hugmynd um læknamiðstöðvar og flokkaðir ýmsir staðir, sem eðlilegir töldust að dómi þeirra sérfræðinga, sem undirbjuggu málið, til að koma þar upp læknamiðstöðvum. Síðan voru aftur í öðrum flokki þeir staðir, sem þetta mundi tæpast eiga við, og við skulum segja, að ekki væri þörf þess, og einnig þeir staðir, þar sem slíkar læknamiðstöðvar væru ekki framkvæmanlegar, og það held ég, að líka sé sameiginlegt álit flestra eða allra þeirra, sem ég hef heyrt tjá sig um þessi mál, að hvað sem gert yrði nú með læknamiðstöðvar og sameiningu læknishéraða, verði ekki komizt hjá því, a.m.k. í nánustu framtíð, að einhver einmenningslæknishéruð verði við lýði í okkar strjálbýla landi.

Hún var óljós, heimildin í læknaskipunarlögunum frá 1965 um læknamiðstöðvarnar, hvernig þær áttu að vera, hver átti að kosta þær, hvernig átti að reka þær o.s.frv. Þess vegna var unnið að því innan rn. og í samvinnu fyrst og fremst við landlækni að kanna möguleikana á því, hvernig slíkar læknamiðstöðvar gætu verið, og í sept. 1967, eftir allmikla athugun á því máli, fól ég n. þriggja manna, sem í áttu sæti Þór Vilhjálmsson prófessor, formaður, Ólafur heitinn Björnsson læknir og Helgi Valdimarsson læknir, að semja reglur um fyrirkomulag og rekstur læknamiðstöðva samkv. 4. gr. læknaskipunarlaganna, nr. 43 12. maí 1965, og sérstaklega um afstöðu læknanna hvers til annars og verkaskiptingu þeirra. Þessi n. skilaði svo áliti 23. sept. 1967, hafði verið skipuð 10. marz sama ár, en í september sem sagt 1967 skilaði hún till. að reglugerð um læknamiðstöðvar héraðslækna, eins og hún orðaði það. Og fengnar voru umsagnir um till. n. frá Læknafélagi Íslands og Sambandi ísl. sveitarfélaga, sem voru jákvæðar um þetta frv., og einnig leitað til Tryggingastofnunarinnar, sem ég held að hafi ekki tjáð sig um þetta reglugerðarfrv.

Eftir að þessar till. að reglugerð voru nánar athugaðar í rn. og í samráði við landlækni, varð það uppi á teningnum, að okkur sýndist, að það væri óhjákvæmilegt að breyta ákvæðum l. sjálfra, 4. gr. l., og gera þau ýtarlegri um læknamiðstöðvar, og niðurstöðuna af þeim athugunum, hvernig þau lagaákvæði skyldu vera, er að finna í 1. gr. þessa frv. En þar er meginefni málsins, að ráðh. er heimilt, ef þetta verður að lögum, eftir till. landlæknis að breyta skipan læknishéraða samkv. 1. gr. l. þessara og sameina í eitt læknishérað tvö eða fleiri nágrannahéruð eða hluta úr héruðum, svo fremi sem staðhættir og aðrar aðstæður leyfi. Þarna er beinlínis veitt heimild án löggjafar, að ráðh. sé heimilt að breyta skipan læknishéraðanna. En áður en slík breyting eigi sér stað af hálfu ráðh., á að leita álits stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, Tryggingastofnunar ríkisins, stjórnar Læknafélags Íslands, svo og hlutaðeigandi héraðslækna, ef héruð þau, sem sameina á, eitt eða fleiri, eru skipuð héraðslæknum. Hins vegar er rétt, að það sé mönnum ljóst, að álit og till. hinna tilgreindu aðila binda ekki hendur ráðh.

Hér er um veigamikið atriði að ræða, og kann að vera, að mönnum sýnist sitt hverjum um það. En það er fjarri því, að það sé í hugum þeirra, sem að þessu standa, og í mínum huga sem ráðh. nokkur minnsta löngun til þess að seilast hér til meira valds en áður til þess að geta breytt skipun læknishéraðanna, en sá eini tilgangur með þessu er sá, að þetta sé sennilegasta og líklegasta leið í bili til þess að geta aukið svo að um muni læknisþjónustuna úti á landinu, því að í framhaldi af þessu, ef slík breyting á sér stað af hálfu ráðh., skal setja á stofn læknamiðstöð í þessu nýja læknishéraði.

Svo er nánar til tekið, að til læknamiðstöðvanna teljist íbúðir héraðslækna og húsakynni fyrir starfsemi þá, sem fram fer í stöðinni, og ráðh. ákveður svo með ráði landlæknis og að fengnu áliti þeirra aðila, sem upp eru taldir í 1. mgr., sem ég nefndi áðan, hve margir héraðslæknar skuli vera í læknishéraði, sem stofnað hefur verið samkv. 1. mgr., en þeir mega þó aldrei vera Færri en tveir.

Síðan koma ákvæði um það, að kostnaður við byggingar vegna stofnunar læknamiðstöðvar skuli greiddur úr ríkissjóði. Sjálfur kostnaðurinn við byggingu læknamiðstöðvarinnar og þá læknisbústaðar, ef þarf að byggja læknisbústað í þessu héraði í tengslum við læknamiðstöðina, skuli allur greiddur úr ríkissjóði, en eins og kunnugt er, eru hlutaskipti milli ríkissjóðs og sveitarsjóðanna um byggingu læknisbústaða fram til þessa og einnig sjúkrahúsa samkv. sjúkrahúsalögum. En þarna er tekið, má segja, nokkuð róttækt skref, en að mínu áliti nauðsynlegt til þess að hrinda þessu máli í framkvæmd. En aftur á móti hafi svo sveitarfélögin, sem hlut eiga að máli, rekstrar- og viðhaldskostnað læknamiðstöðvanna, hlutaðeigandi sveitarfélög í hlutfalli við íbúafjölda.

Nú geta menn spurt: Bætir þetta nokkuð úr skák, þessi ákvæði um læknamiðstöðvar? Ég hef áður vitnað til viðhorfs ungra lækna, sem er mjög ríkt í þessum efnum, á þann veg, að þeir telja, og það hefur beinlínis komið fram í álitsgerðum frá þeim, að kandídatar eða stúdentar, réttara sagt, við nám, sem spurðir hafa verið um það, hvort þeir hefðu hug á því að gerast héraðslæknar að námi loknu, hafa allir svarað því neitandi, nema þeir fengju aðstöðu til þess að starfa við læknamiðstöðvar, þá hafa ýmsir tjáð sig vera reiðubúna eða mundu hafa hug á því að taka upp læknisþjónustu við slík skilyrði. Af þessu mætti ætla, að nokkuð gott gæti af þessu leitt. Frá einstökum aðilum hafa borizt óskir um það og áskoranir til rn. að stuðla að því að koma upp læknamiðstöðvum úti á landi. Frá bæjarstjórn Ísafjarðar var skorað mjög ákveðið á landlækni, ríkisstj. og Alþ. að nota heimild í 1. til þess að stofna og starfrækja læknamiðstöð á Ísafirði, er a.m.k. taki yfir Ísafjarðar- og Súðavíkurlæknishérað. Og Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi hefur einnig hreyft svipuðum sjónarmiðum í álitsgerðum, sem sambandið hefur gert, að athugaðir verði möguleikar á því að koma á fót læknamiðstöðvum. Og vísir hefur skapazt að læknamiðstöð fyrir samstarfsvilja ungra lækna á Húsavík. Má segja, að vísir hafi skapazt til þess á Patreksfirði, og það er vitað um, að dálítið er unnið að þessu líka í þéttbýlinu, því að þetta tekur ekki í augum læknanna aðeins til dreifbýlisins, heldur vilja þeir einnig, að heimilislæknar í þéttbýlinu, án þess að þetta frv. taki til þess, að þeir vinni saman á læknamiðstöðvum í viðkomandi þéttbýli, og skal ég víkja að því síðar. En það eru margir agnúar á þessu, og það er ekki læknamiðstöð eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. og því reglugerðaruppkasti, sem fylgir sem fskj., en menn hafa þarna verið að þreifa sig áfram.

Læknafélag Íslands efndi til heilbrigðisráðstefnu nú á þessu hausti, sem er önnur í röðinni, aðra ráðstefnu hélt Læknafélag Íslands haustið 1967, en dagskráin á ráðstefnunni núna snerist fyrst og fremst um læknisþjónustu í dreifbýli og þéttbýli. Og þar komu einmitt alveg sérstaklega við sögu möguleikarnir til þess í báðum tilfellum að koma upp læknamiðstöðvum. Á þessari ráðstefnu, þar sem ég var viðstaddur við setningu hennar, fluttu tveir læknar ræður um rekstur læknamiðstöðva í þéttbýli: Örn Bjarnason héraðslæknir í Vestmannaeyjum, það er sem sagt í kaupstað, og Gísli Auðunsson héraðslæknir á Húsavík um læknisþjónustu í strjálbýli. Og það eru mjög athyglisverðar hugmyndir eða hugleiðingar, sem fram koma hjá þessum læknum, og getur að mínum dómi verið til mikillar styrktar fyrir þingnefnd að hafa aðgang að plöggum ráðstefnu Læknafélags Íslands, bæði framsöguræðum læknanna og fskj., sem þeim fylgdu, og umræðum, sem um þessi mál fóru fram. Læknafélag Íslands hefur að mínum dómi með þessum tveimur ráðstefnum sínum lagt mikinn skerf til bóta í sambandi við heilbrigðisstarfsemina í landinu.

Fyrri ráðstefnan, 1967, fjallaði m.a. um yfirstjórn heilbrigðismála, og voru mörg merk erindi flutt þar. Ráðuneytið hafði þá til meðferðar endurskoðun á yfirstjórn heilbrigðismála, en það snertir ekki þetta mál. Ég vil aðeins geta þess, að það hafa unnið 4 menn að því á vegum rn. nú s.l. ár og skilað frumhugmyndum eða grg. um málið í sambandi við endurskoðun á yfirstjórn heilbrigðismála, og læknaráðstefnan lagði góðan skerf til þeirra mála að mínum dómi. En ég skal ekki lengja mál mitt með því að víkja að því hér, þar sem það snertir ekki frv., sem hér er til umræðu.

Mig langar aðeins til að víkja að nokkrum atriðum í framsöguræðum þessara lækna á ráðstefnu Læknafélags Íslands nú í haust um læknamiðstöðvar í þéttbýli og strjálbýli, því að ég held, að sumt af því, sem þeir segja, geri skýrara fyrir mönnum, hvað við er átt með þessum læknamiðstöðvum.

Örn Bjarnason héraðslæknir í Vestmannaeyjum dregur upp þessa mynd af læknamiðstöð í þéttbýli: „Hópstarf almennra lækna merkir, að heimilislækningar eru stundaðar af almennum læknum, sem starfa mjög náið saman, leita ráða hver hjá öðrum um rannsóknir og meðferð og hafa sameiginlega spjaldskrá með öllum upplýsingum um sjúklingahópinn, en sjúklingi er heimilt að leita til þess læknis, sem hann óskar. Hópurinn hefur nokkra starfsskiptingu, þannig að læknarnir kynna sér sérstaklega eina eða fleiri greinar læknavísindanna. Hópurinn hefur sameiginlegt húsnæði fyrir starfsemina í læknamiðstöð og stjórnar þeirri stofnun sjálfur. Slíkur hópur nýtur aðstoðar sérþjálfaðra aðila:

1. Einkaritari sér um að vélrita öll bréf, vottorð og skýrslur, svo að spjaldskrá sé í röð og reglu, og ritarinn er tengiliður á milli aðstoðarfólks og læknanna innbyrðis og sér um skipulagningu hins daglega starfs.

2. Sé vinnuálag ekki mikið, getur ritarinn annazt móttöku sjúklinga og símavörzlu, ella verður að ráða til þeirra starfa.

3. Hjúkrunarkonur aðstoða læknana við störf þeirra, svo sem við slys og smærri aðgerðir og við skoðanir, sem ekki verða framkvæmdar án hjálpar eða nærveru hjúkrunarkonu. Annars vinnur hún sjálfstætt, skiptir á sárum, gefur flestar sprautur, sér um alla sótthreinsun, og sér um ýmsar einfaldari rannsóknir.

4. Læknamiðstöðvar, sem liggja fjarri stórum rannsóknarstofum, þurfa að geta annazt slíka þjónustu, og hafa því á að skipa sérþjálfuðum aðila í þessum efnum (laborant) og tækjabúnaði við hæfi.

Í stuttu máli má segja, að þannig eru heimilislæknum búin lík vinnuskilyrði og sjúkrahúslæknar hafa.“

Þetta segir héraðslæknirinn í Vestmannaeyjum og það liggur fyrir, að læknar þar eru í undirbúningi með það að koma á slíku samstarfi hjá sér. Og örlað hefur á því, eins og ég segi, af sjálfsdáðum frá lækna hálfu hér í bænum. Sannleikurinn er sá, að læknaþjónustan er ekki aðeins orðin vandamál í dreifbýlinu, heldur einnig í þéttbýlinu og tilfinnanlega hér í Reykjavík. Og ég vil aðeins minna á, að það hefur verið starfandi undanfarandi tvö ár sérstök nefnd á vegum borgarstjórnar Reykjavíkur til þess að vinna að endurskipulagningu heimilislæknisþjónustunnar í borginni, og hún skilaði ýtarlegu áliti í vor, og er þar um að ræða ýmiss konar merkar nýjungar á því sviði, sem ég vík ekki frekar að hér.

Í lokaorðum héraðslæknisins í Vestmannaeyjum segir:

„Læknaskorturinn utan Reykjavíkur er þegar orðinn alvarlegt vandamál og fjöldi héraða er ósetinn og mörg aðeins til bráðabirgða. Þar við bætist, að á næstu árum munu allmargir héraðslæknar hætta störfum fyrir aldurs sakir.

Það verður því að bregða skjótt við af opinberri hálfu að koma til móts við þá, sem vilja taka að sér að skipuleggja læknamiðstöðvar og starfa í þeim. Það er ekki nóg að reisa miðstöðvarnar. Vísir að starfshóp verður að vera kominn, áður en stöðin rís. (Hann er að tala um þéttbýlisstöðvarnar.) Læknarnir, sem ætla að ganga til starfs, verða að gera sér grein fyrir, hversu mikið húsnæði þeir þurfa, hvernig þeir geta bezt nýtt það, hvað þeir þurfa af aðstoðarfólki og hver tækjabúnaður þarf að vera fyrir hendi.

Hlutverk opinberra aðila er að stuðla að því, að fjármagn sé fyrir hendi til þessara framkvæmda og síðan að líta eftir því, að stöðvarnar verði reknar í samræmi við þau fyrirheit, sem gefin eru.“

Gísli Auðunsson héraðslæknir á Húsavík varpar fram þessari spurningu í sínú erindi, með leyfi hæstv. forseta. hvaða leiðir eru til úrbóta:

„Hér framar hefur verið drepið á helztu orsakir læknaskortsins. Það, sem ber að gera, er að reyna með öllum ráðum að uppræta þær. Í fyrsta lagi þarf að taka upp skipulega kennslu í heimilislækningum, bæði innan og utan Háskólans, og með því móti að vekja áhuga læknastúdenta á þessum þætti heilbrigðisþjónustunnar. Þá þarf að gera mun strangari kröfur um framhaldsmenntun heimilislækna en nú er, og heimilislæknar verða að hafa möguleika á slendurteknum námskeiðum. Í því sambandi er vert að vekja athygli á námskeiðum þeim, sem Læknafélag Íslands gengst fyrir árlega, og eru þau félaginu til hins mesta sóma.

Í öðru lagi verður að ráðast gegn fámennu héruðunum með oddi og egg, leggja sem allra flest þeirra niður, sameina þau nágrannahéruðum og mynda síðan læknamiðstöðvar, þar sem helzt þrír læknar starfi saman.“

Svo vitnar hann í fskj., sem fylgdu ræðu hans, um ýmsar hugsanlegar breytingar í þessu sambandi, en ég hef aðeins vitnað í þetta til þess, að hér komi fram viðhorf þessara lækna sjálfra.

Síðan dregur hann upp eina mynd af hugsanlegri læknamiðstöð í strjálbýli á svipaðan hátt og héraðslæknirinn í Vestmannaeyjum gerði, og þá hugsar hann sér læknamiðstöð á Húsavík og reiknar með, að hún nái yfir núverandi Húsavíkur- og Breiðumýrarhéruð, að viðbættum Kelduneshreppi í Norður-Þingeyjarsýslu.

„Íbúar þessa svæðis,“ segir læknirinn, „eru um 4200, svo að gera yrði ráð fyrir 4 læknum og einni héraðshjúkrunarkonu að minnsta kosti og sæti hún í Laugaskóla í Reykjadal. Lengstu vegalengdir á svæðinu eru 94 km fram að Svartárkoti í Bárðardal. Ég tel þó frekar ólíklegt, að aðalvandamálið yrði að þjóna Bárðdælingum, þar sem sveitin er fámenn. Hins vegar yrði mun meira vandamál að þjóna jafnfjölmennri byggð sem Mývatnssveitinni, en þar eru íbúar orðnir yfir 500. Vegalengdin að fyrstu bæjum í Mývatnssveit eftir hinum nýja „kísilgúrvegi“ er rétt rúmir 50 km og lengsta vegalengdin á bæ 72 km. Sömuleiðis er nokkuð langt í Kelduhverfið, en það eru 44 km að fyrsta bænum og 68 km að þeim fjærsta. Í Kelduhverfinu búa um 300 manns. Á Húsavík verður bráðlega tekið í notkun myndarlegt héraðssjúkrahús fyrir allt að 60 legusjúklinga. Það er þó jafnvel ánægjulegra, að það hefur verið gætt þeirrar framsýni að reikna með að flytja alla almenna læknisþjónustu inn á sjúkrahúsið og verður þar mjög góð aðstaða fyrir tvo lækna að sinna sjúklingamóttöku samtímis og nokkuð góð fyrir þrjá lækna samtímis. Það er því greinilegt, að húsnæði fyrir þessa starfsemi er þegar að verða fyrir hendi á Húsavík. Hin daglegu störf með skiptingu á vöktum o.s.frv. yrðu mjög lík því, sem Örn Bjarnason hefur lýst í Vestmannaeyjum, en að auki þyrftu læknarnir á Húsavík að ætla sér mun rýmri tíma til vitjana og eins þyrftu þeir að hafa aðstöðu á þrem stöðum í héraðinu utan Húsavíkur til sjúklingamóttöku. Þessir staðir yrðu Breiðamýri eða Laugaskóli, Reykjahlíðarþorp í Mývatnssveit og Skúlagarður í Kelduhverfi. ósagt skal látið, hvað þétt þyrfti að fara á þessa staði, en örugglega er nóg að heimsækja hvern þeirra einu sinni í viku. Þessar ferðir munu að sjálfsögðu skiptast jafnt niður á læknana.“

Ég hef vitnað til þessa til að fá fram raunhæfar myndir, eftir því sem þeir gera sér grein fyrir, þeir læknar, sem um þessi mál m.a. hafa fjallað.

Það er líka mjög athyglisverður síðasti kaflinn í ræðu héraðslæknisins Gísla Auðunssonar, en þar víkur hann að bók; sem nýlega er komin út í Bretlandi: „Um almenna læknisþjónustu“, eins og hún heitir, og er skrifuð af Platt lávarði, og hann vitnar til hennar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Að síðustu, þessi bók flytur mér þá óþægilegu tilfinningu,“ segir Platt lávarður, „að allt, sem hún lýsir, hefði verið hægt að gera áður. Það er auðvelt að benda á heilbrigðisstjórnina og gera hana að sökudólgnum, en það væri í alla staði rangt, því að hefði læknastéttin barizt af heilum hug fyrir breytingum í þessa átt, hefði aðstaðan verið geysisterk og málið auðsótt. En ég ásaka ekki aðeins afturhaldssemi stéttarinnar. Ég óttast, að efst á listann verðum við hiklaust að setja kennara læknastéttarinnar, sem hafa verið svo helteknir af að nota vísindalegar rannsóknaraðferðir við leit „organiskra“ sjúkdóma, að þeir hafa vanmetið, hversu mikilvæg grein heimilislækningarnar eru, og hafa engan áhuga vakið hjá stúdentum sínum fyrir þeim. Hluti þessarar bókar fjallar um, hversu geysimikilvægur undirbúningur undir heimilislækningar er, en jafnvel það nægir ekki, ef ógæfan hefur þegar skeð með algerri vanrækslu þeirra í læknaskólunum. Ef háskólarnir taka ekki breytingum til batnaðar, verða framfarirnar vissulega hægar.“ Og hér lýkur tilvitnuninni í ummæli Platts lávarðar.

En sjálfur segir Gísli Auðunsson:

„Þetta sagði læknirinn Platt lávarður. Ég vil gera orð hans að mínum og fullyrði, að verði læknastéttin einhuga í þessu máli, muni ekki standa á heilbrigðisstjórninni. Ungir læknar eru einhuga. Ábyrgðin er því hjá eldri starfsbræðrunum og þá fyrst og fremst þeim, sem eftir eru úti um landsbyggðina. Hafni þeir hugmyndum okkar og snúist gegn þeim af einhverjum sökum, á læknaskortur strjálbýlisins eftir að verða enn alvarlegra vandamál en nú er orðið, og þykir þó flestum nóg um.“

Og lýkur þá þessu erindi læknisins. Menn sjá, að það kennir nokkuð margra grasa, og það eru eflaust margar orsakir þess mikla vanda, sem við eigum við að stríða, og það eiga sannarlega fleiri við að stríða sams konar vanda, sbr. tilvitnunina í þessa brezku bók, og sama hefur verið upp á teningnum hjá nágrönnum okkar, Norðmönnum, í fjarlægum héruðum þar — og eflaust Svíum, sem hafa bjargað sér á því að leita liðstyrks hjá Íslendingum.

Hér eru úrbætur á læknaskortinum úti í strjálbýlinu svo aðkallandi, að spurt mun verða, hvort ekki væri fleira til ráða en að stuðla að því að koma upp þessum læknamiðstöðvum og breyta læknakennslunni o.s.frv., eins og ég hef vikið að. Það er ýmislegt fleira, sem reynt hefur verið, og m.a. hugleitt að fá erlenda lækna hingað. En það getur orðið erfitt mál. M.a. þyrfti þá að breyta löggjöf. Lækningaleyfi hafa aðeins íslenzkir ríkisborgarar hér á landi. Á fundi nú í gær með stjórn Læknafélags Íslands var það rætt við hana, hvert hún teldi viðhorf íslenzkra lækna til þess, og var ekki á henni að heyra, að hún teldi það neitt óeðlilegt, að það verði fengnir erlendir læknar hér í bili til að bæta úr neyðarástandi og þeir fengju réttindi til þess. En þessi fundur með stjórn Læknafélagsins í gær í rn. var framhald af fundi, sem haldinn var s.l. föstudag í rn. með þm. Austfjarðakjördæmis, en þeir höfðu óskað eftir viðræðufundi vegna hins alvarlega ástands á Austfjörðum nú vegna læknaskorts. Og það er hörmulegt ástand, sem þar blasir við. Þm. voru ljós hin margvíslegu vandkvæði, en eins og þeir sögðu, þetta er neyðarkall frá okkur sem umboðsmönnum fólksins þarna fyrir austan, því að við sjáum ekki, hvernig þetta má verða, þegar svo fer, sem nú fram vindur, að það eru mörg læknishéruðin þegar læknislaus og önnur eru að verða læknislaus. Og það var sameiginlegt mál þeirra og okkar, að hvað sem öllu öðru liði og framtíðaraðgerðum í þessu máli, yrði að reyna að gera þarna mjög skjótar bráðabirgðaráðstafanir til þess að forða frá neyð. Landlæknir hafði þá rætt við Landsspítalann, yfirlækna hans, um þann möguleika, að þeir gætu hlaupið undir bagga með því að sinna læknisþjónustu í neyðartilfellum einhvern tíma, og þá var talað sérstaklega um Norðfjörð í því sambandi, þar sem er sjúkrahús, og yrði þar læknir frá handlæknisdeildinni, meðan ekki réðist fram úr þessu. Og ég vil, að það komi fram hér, að þó að þeir telji sig ekki hafa miklum mannafla og of litlum þar á að skipa, þá tóku landsspítalalæknarnir þessu mjög vel. Þeir voru á fundi á laugardaginn, eftir að við höfðum þennan fund á föstudag, og þeir voru þá ákveðnir í því, að ef á þyrfti að halda, mundu þeir taka að sér að skiptast á um að sinna læknisþjónustu í neyðartilfellum úti á landsbyggðinni, þarna eða annars staðar eftir atvikum.

Ég get búizt við því, að sú reynsla, sem fékkst af læknisþjónustunni á síldarmiðunum í sumar, hafi nokkuð ýtt undir, að slíkt er gerlegra nú en áður, og það gæti í sjálfu sér verið þess virði, að þannig væri reynt að búa að deildum eins og handlæknisdeildinni í Landsspítalanum, að þeir ættu greiðara með að víkja frá tiltekinn tíma og skiptast þá á um að sinna störfum, meðan neyðin er sem mest og meðan við höfum ekki ráðið fram úr vandanum betur en nú er orðið.

Einnig hefur þeirri hugmynd skotið upp, að kæmust upp læknamiðstöðvar, þegar út í það væri komið, mundu þær kannske einnig vera betur aflögufærar en með því kerfi, sem nú er, til þess að einn af þremur eða fleiri læknum gæti skotizt til staðar, þar sem um virkilegt neyðarástand væri að ræða.

Það hafði verið hlutazt til um það af hálfu rn. í samvinnu við landhelgisgæzluna vegna þess neyðarástands, sem er nú á Austfjörðum, að þyrlan færi austur og athugaðir væru möguleikar, á hvaða stöðum hún gæti fengið skýli, ef reynt yrði að staðsetja hana fyrir austan til þess að fá þá fáu lækna, sem þar eru, og þá, sem þurfa alveg nauðsynlega að koma í viðbót, til þess að vera hreyfanlegri og geta betur sinnt læknisþjónustunni. En þá var jafnframt hugsað um það, að Ægir, hið nýja varðskip, sem er með skýli fyrir þyrluna, mundi vera staðsett fyrir austan, þannig að hún gæti átt athvarf í skipinu eða á hinum ýmsu höfnum, sem kom í ljós að höfðu tómar mjölskemmur og annað slíkt, því miður kannske, liggur mér við að segja, en það snertir annað mál, þannig að þess vegna væri hægt að hýsa hana. Þá fæst líka af þessu reynsla og mundi þá leiða til þess, að byggð yrðu síðar sérstök skýli fyrir litlar þyrlur eða kannske stærri en þessi er, en þau eru alveg óhjákvæmileg til þess að skjóta skjólshúsi yfir þessar litlu flugvélar, þegar allra veðra er von, þegar þær eiga að staðsetjast um einhvern tíma á viðkomandi stað. En hér getur náttúrlega varðskipið bætt úr með þyrluskýli sínu og einnig til flutninga, eins og landhelgisgæzlan hefur alltaf verið reiðubúin til að veita aðstoð til sjúkraflutninga og aðra aðstoð í hinum dreifðu byggðum og er tiltekið verkefni hennar samkv. hinum nýju landhelgisgæzlulögum, sem nýlega voru samþ., og einnig almannavarnalögunum, sem tengja að þessu leyti landhelgisgæzluna og almannavarnir nokkuð saman. Og ég get að vísu látið þess getið í þessu sambandi, að forstöðumaður Almannavarna, Jóhann Jakobsson, sem gegnt hefur því starfi undanfarin 2 ár, sagði því starfi lausu frá 1. okt., og eins og nú standa sakir, hef ég sett Pétur Sigurðsson, forstjóra Landhelgisgæzlunnar, til þess að gegna jafnframt sínu starfi sem forstjóri Landhelgisgæzlunnar forstöðumannsstarfi Almannavarna, og kemur þá í ljós, hvernig sú skipan mála reynist, áður en endanlegar ákvarðanir yrðu teknar um nýja skipun þeirra.

Nú hef ég dvalið við Austfirðina. Það er því miður ekki vegna þess, að það séu ekki líka erfiðleikar annars staðar á landinu, og það verður áreiðanlega á næstunni og komandi vetri erfitt að greiða fram úr því. En að ég hef vikið að þessu, er m.a. vegna þess, að ég vil á engan hátt draga úr því, hvað við höfum skammt komizt með þó, eins og við héldum, að mundu verða miklar úrbætur með læknaskipunarl. frá 1965, og hversu nauðsynlegt það er af hálfu Alþ. að grípa sterklega í taumana, m.a. með því að ljá nú gott fylgi þessu frv. hér, með þeim breytingum þá, sem þm. telja að kynnu að vera til bóta, með fjárframlögum, ef þess er þörf í sérstökum tilfellum, sem vel getur orðið, áður en afgreiðsla fjárl. fer fram, og á annan hátt.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en ég ber einlæga von í brjósti um það, að við getum sameinazt í aðgerðum í þessum mikla vanda, sem hér ber að höndum. Ég er ekki að segja, að hér sé allur vandinn leystur, nema síður sé, og vissulega er ég sjálfur og ráðuneyti mitt reiðubúin til sérhvers samstarfs við hv. þm. til úrlausnar í því mikla vandamáli, sem ég hef nú gert að umræðuefni. Enda þótt okkur sýnist nokkuð kannske sitt hvað um einstök atriði í þessu, sumt er viðkvæmnismál, eins og kunnugt er, þá skulum við ekki láta það verða okkur að ágreiningsefni til þess að taka skjótlega alvarlegar ákvarðanir til úrlausnar þessum mikla vanda, að bæta læknisþjónustuna í hinum dreifðu byggðum landsins, og jafnhliða er svo, eins og ég hef vikið að, unnið að því, að hin almenna læknisþjónusta geti batnað á öðrum stöðum í landinu.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.