22.10.1968
Neðri deild: 5. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (752)

3. mál, læknaskipunarlög

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hlýt sem fulltrúi fyrir landshluta, sem í mörg undanfarin ár hefur átt við læknisleysi og ófullnægjandi læknisþjónustu að stríða, að láta í ljós ánægju mína yfir því, að stjórnarvöldin skuli leiða hugann að ástandi læknisþjónustunnar í dreifbýlinu. Ég vil þó nú við 1. umr. málsins minnast á nokkur atriði í þessu frv., sem mér virðist að vera mættu á annan veg, og geri ég það til athugunar fyrir þá hv. n., sem væntanlega fær málið til meðferðar.

Ég heyrði það á framsöguræðu hæstv. ráðh. hér áðan, að hann er fús til þess að ræða breytingar á þessu frv. og yfirleitt stuðla að samkomulagi í þessu mjög svo vandasama máli.

Frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 3, er um umorðun á 4. gr. læknaskipunarlaganna frá 1965 eða nánar tiltekið um læknamiðstöðvar og um sameiningu læknishéraða, hversu með skuli fara. Læknamiðstöðva er getið lauslega í þessum lögum, þannig að það er gert ráð fyrir því, að þær kunni að verða stofnaðar, en að öðru leyti ekki nánari ákvæði um þær, en gert ráð fyrir, að sett kunni að verða reglugerð um það efni.

Ég minnist þess, að það hefur lengi verið talið svo, að sá þekkti bezt skókreppuna, sem skórinn kreppir að. En mér hefur virzt, að það hafi því miður stundum viljað við brenna, þegar stjórnarvöldin eða það, sem kalla mætti ríkisbáknið hér í Reykjavík, fer að gera tilraunir til þess að kynna sér vanda strjálbýlisins og leysa hann, þá sé það stundum annar orðskviður forn, sem þar er efst á baugi eða kemur manni fremur í hug: „Sá segir mest af Ólafi kóngi, sem hvorki hefur heyrt hann né séð.“

Ég minnist þess, að nú fyrir nokkrum árum vaknaði mikill áhugi hjá stjórnarvöldum og kannske hér á Alþ. fyrir því að koma til aðstoðar minnstu sveitarfélögunum í landinu. Og mönnum sýndist, að úrræðið til að hjálpa þeim í þeirra vanda væri það að sameina þau, steypa litlu hreppunum, fámennu hreppunum, saman mörgum í stærri hreppa. Að vísu lá það ekki fyrir, að þessi litlu sveitarfélög hefðu kvartað um nein sérstök vandræði, sem því fylgdu að vera sjálfstætt sveitarfélag. Eigi að síður má vera, að sá vandi hafi verið fyrir hendi. Það var sett á laggirnar 7 manna n., að ég ætla, til þess að vinna að þessu vandamáli litlu sveitarfélaganna, og því var svo vísdómslega ráðstafað í þann tíð, að í þessari 7 manna n. var enginn fulltrúi frá fámennu sveitarfélagi, enginn fulltrúi frá sveitarfélagi, sem líklegt var að nyti góðs af sameiningu, ef af henni stæði gott. Fulltrúarnir í n. voru valdir héðan úr Reykjavíkurborg og nokkrum hinum fjölmennustu sveitarfélögum eða bæjarfélögum landsins. Þ. á m. minnist ég þess, að það voru tveir úr einum kaupstað hér suðvestanlands í þessari 7 manna n., en enginn úr fámennu sveitarfélögunum, sem n. átti sérstaklega að vinna fyrir. Ég býst við því, að þetta hafi þótt undarlegt, og ég varð nokkuð var við það, og ég hugsa, að það hafi ekki greitt fyrir því að auka áhuga manna á þessu úrræði, því að mönnum sýndist í þessu tilfelli, eins og mönnum hefur alltaf sýnzt og ég nefndi áðan, að sá þekki skókreppuna bezt, sem skórinn kreppir að, og að í þessu máli hefði átt að kveðja til fulltrúa frá þeim, sem ætlað var að hefðu þarna þröngan skó.

Nú er ekki verið að ræða um þetta mál hér, sameiningu sveitarfélaga, en það er ýmislegt í sambandi við undirbúning þessa frv. og þó sérstaklega í sambandi við ákvæði, sem í því eru, sem minnir mig á þetta forna máltæki um Ólaf kóng. Ég kem nánar að því síðar.

Í nýju læknaskipunarlögunum frá 1965 kom fram mikil viðleitni til þess að ráða bót á miklu vandamáli. Viðleitni er því miður ekki alltaf sama og árangur. En í þessum l. og nýmælum þeirra var einkum leitað þriggja úrræða. Fyrsta úrræðið var að bæta kjör héraðslækna í þeim héruðum, þar sem erfiðast hefur gengið að fá menn til starfa, og hæstv. ráðh. vék að því hér áðan, en l. gera ráð fyrir, að það verði gert á ýmsan hátt, og ég hygg, að um þær kjarabætur eða bætur á aðstöðu, sérstaklega kjarabætur, sem þar er um að ræða, orki það ekki tvímælis, að þær voru töluverðar, enda vil ég taka undir það, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að ég hygg, að ástæðan fyrir læknaskortinum í dreifbýlinu sé ekki sú, að læknar þar hafi ástæðu til að telja sig hafa það lágar tekjur, að engan veginn sé við það unandi miðað við aðra. Það eru aðrar ástæður, sem hér er um að ræða og þessu valda, og að því var einnig nokkuð vikið í ræðu hæstv. ráðh. En þetta var sem sé fyrsta úrræðið, sem leitað var og ég man eftir. Annað úrræðið var það, sem felst í 9. gr. l. Þar var gert ráð fyrir, að heimilt væri að greiða 2/3 af launum til hjúkrunarkvenna, sem ráðnar væru til starfa í læknishéruðum. Mér er ekki fullkunnugt um það, hver árangur hefur af því orðið, en mun kannske víkja að því síðar. Þriðja úrræðið voru svo þessar læknamiðstöðvar, sem aðeins lauslega er vikið að í l. og nú eru hér til frekari umr. Ég held, að þetta hafi verið aðalúrræðin, sem í l. fólust. Það voru að vísu margs konar ráðstafanir, sem þarna komu til greina, en ég hygg, að þær megi flokka undir þessi úrræði, sem ég nú hef nefnt.

Eins og hæstv. ráðh. vék að í framsögu sinni, var í byrjun septembermánaðar hér í Reykjavík haldin læknaráðstefna eða heilbrigðismálaráðstefna, sem tengd var 50 ára afmæli Læknafélags Íslands, að ég ætla. É,g hef gert mér nokkurt far um það að kynna mér það, sem fram fór á þessari ráðstefnu, þó að ég væri þar ekki, og ég hef m.a. lesið með athygli þau merkilegu erindi, sem þeir fluttu þar, Örn Bjarnason héraðslæknir í Vestmannaeyjum um læknamiðstöðvar í þéttbýli og Gísli Auðunsson héraðslæknir á Húsavík um læknamiðstöðvar í strjálbýli. Það, sem þessir læknar hafa lagt til mála á undanförnum árum, sérstaklega annar þeirra, er mjög athyglisvert og ástæða til þess að fylgjast með því, sem þeir leggja til máls, þegar það kemur fram. Þetta eru ungir menn, útskrifaðir úr læknadeildinni fyrir fáum árum, og hafa ekki, að ég held, farið utan til framhaldsnáms, en í stað þess farið í héruð og gegnt héraðslæknisstörfum nú um skeið, aflað sér þar reynslu, og það sýnir sig, að þetta eru miklir áhugamenn. Þeir hafa að vísu ekki — ég held hvorugur þeirra — starfað í neinu þeirra héraða, sem við mesta erfiðleika eiga að stríða í sambandi við læknaskortinn, en þeirra orð eru merk eigi að síður.

Þetta úrræði, læknamiðstöðvar, hefur verið á dagskrá hér á landi í nokkur ár. Og það hefur verið gerð tilraun til að koma upp slíkum miðstöðvum líklega á einum tveim eða þrem stöðum í landinu. Ég tel sem leikmaður, að þessi hugmynd um læknamiðstöðvar sé mjög merkileg og hana beri að styðja og veita athygli till., sem fram koma frá hinum ungu læknum um þetta mál, og meira en það. En ég vil leyfa mér að vekja athygli á því, að læknamiðstöðvar, sem fyrst og fremst hafa verið reyndar erlendis, eru þar reyndar sem þéttbýlisúrræði. Þar, sem ég þekki til þessara mála erlendis, og það er nú reyndar ekki víða, þá hafa slíkar læknamiðstöðvar verið settar á stofn í stórborgum og yfirleitt nokkuð víða í þéttbýli, og starfsemi þeirra þar er byggð á þeim skilyrðum, sem þéttbýlið veitir og stórborgirnar. Ég kynntist t.d. ofurlítið slíkum miðstöðvum í Nýja-Englandi í Bandaríkjunum, og þar virtist mér það vera þannig, að læknamiðstöðvarnar væru í borgum og í sambandi við spítalana, og þar er gangur málanna þannig í sambandi við læknaþjónustuna, að þegar einhver verður snögglega veikur eða eitthvað er að, hvort sem þar er um að ræða slys eða snögg veikindi, sem enginn veit, af hverju stafa, þá er ekki almennt sá háttur hafður á, sem við þekkjum bezt hér, að það sé símað til læknisins og hann beðinn að koma eða læknirinn sóttur, sem við köllum, heldur er farið með sjúklinginn í læknamiðstöðina. Læknarnir segja: Þetta er það, sem veitir sjúklingnum skjótasta hjálp, og þetta er það sem veitir sjúklingnum árangursríkasta hjálp. Og þetta sparar líka vinnutíma læknanna. En þar sem þetta fyrirkomulag tíðkast, svona læknamiðstöðvar í borgunum, þá er nú töluvert öðruvísi umhorfs en hér. Bæði er veðurfarið öðruvísi, og þar eru alls staðar malbikaðir vegir, ekki einungis götur borganna, heldur eru allir þjóðvegir malbikaðir og færir alla daga og nætur árið um kring, þannig að það er í raun og veru ekki örðugt, jafnvel þótt sjúklingur hafi orðið fyrir slysi eða sé mikið veikur, að koma honum til læknisins og til hinnar fullkomnustu meðferðar á hverjum stað. Þetta er auðvitað allt annað en tíðkast hér á landi. Ég held, að það eina, sem sé öruggt í sambandi við þetta hér, sé það, að svona læknamiðstöð gæti komið að miklu gagni t.d. hér í höfuðborginni, í Reykjavík, og í hinum fjölmennari kaupstöðum landsins, eins og t.d. í Vestmannaeyjum, og Örn Bjarnason lýsir því skilmerkilega í sínu ágæta erindi á heilbrigðismálaráðstefnunni, hvernig læknamiðstöðin, sem þar er að taka til starfa, hagi sínum daglegu störfum. Hins vegar verðum við að hafa það í huga, þegar um læknamiðstöðvar er talað sem úrræði gegn læknaskortinum og hinni ófullkomnu heilbrigðisþjónustu í dreifbýlinu, að þar er allt á tilraunastigi. Þetta fyrirkomulag hefur lítið og yfirleitt ekki verið reynt í strjálbýli erlendis, svo að ég viti, og hér á landi erum við að prófa okkur áfram með þetta.

Hitt er svo það, að þó að þetta, læknamiðstöðvar í dreifbýlinu, séu hér á algeru tilraunastigi og á þær verði að líta sem tilraun, þá er auðvitað ekki þar með sagt, að þetta kunni ekki að geta leyst að meira eða minna leyti vandann í dreifbýlinu. Við vitum það ekki enn þá. Það getur verið. Við skulum vona, að þær geti gert það. En við megum ekki ganga út frá því, að þetta sé úrræði, sem við getum lagt fram og boðið upp á til þess að leysa þennan átakanlega vanda.

Gísli Auðunsson, sem ég nefndi áðan, héráðslæknir á Húsavík, er sá maður, sem einna mest hefur rætt læknamiðstöðvarnar út frá þessu sjónarmiði, þ.e.a.s. út frá sjónarmiði dreifbýlisins. Hann ritaði um þetta, að ég ætla, ýtarlegar greinar, sem birtust í öllum dagblöðunum hér í Reykjavík — eða flestum — fyrir tveimur eða þremur árum, og nú hefur hann flutt þessa ræðu, sem einnig hefur verið birt í blöðum eða a.m.k. einu dagblaði hér, Tímanum, þar sem ég las ræðuna. Gísli Auðunsson læknir er, eins og ég sagði, mikill áhugamaður um þessi efni, og hæstv. ráðh. las hér áðan kafla úr ræðu hans á læknaráðstefnunni, þar sem hann fjallar um ástæðurnar til þess m.a., að ungir læknar séu ófúsir til þess að verða héraðslæknar í dreifbýlinu, og hvernig þar mætti úr bæta, hvernig e.t.v. mætti gera þá fúsari til þess að starfa sem héraðslækna. Ég vil ekki leggja neinn dóm á skoðanir hans um það efni, en mér þykir líklegt, þar sem hann hefur mjög hugsað það mál, að þá felist í þeim sitt af hverju, sem ekki verði andmælt með rökum. En Gísli Auðunsson hefur gert meira en að skrifa um þetta. Hann hefur gert tilraun til þess sjálfur að horfast í augu við vandann, og eftir því sem mér skilst, hefur hann lagt í það vinnu að gera beinlínis till. um skiptingu landsins í héruð, og till. hans er sú, að í stað 55 eða 57 læknishéraða, sem nú eru í landinu samkv. l., ættu að koma 27–30. Hann gerir ráð fyrir því, að í þessum læknishéruðum verði læknamiðstöðvar og við hverja miðstöð verði fæstir tveir læknar og þar sem fjölmennara er þrír o.fl. En samkv. læknishéraðatill. hans er gert ráð fyrir, að héruð með tveim læknum verði 6–9, en þrír eða fleiri læknar í hinum flestum. En þó að Gísli Auðunsson hafi mikla trú á læknamiðstöðvum og það sjálfsagt með réttu, þá hefur hann samt við að horfast sjálfur í augu við vandann og gera sjálfur till. um skiptingu landsins í læknishéruð komizt að þeirri niðurstöðu, að læknamiðstöðvarnar leysi ekki allan vandann. Og að það sé ekki framkvæmanlegt að leggja niður öll núverandi læknishéruð. Í einhverjum héruðum verði að gera ráð fyrir, að verði einn læknir starfandi. Hann gerir ráð fyrir því, að ekki verði komizt hjá því að halda 5–7 læknishéruðum sem einmenningshéruðum. Þegar á þetta er litið, er það ljóst, að till. eins og sú, sem hér liggur fyrir um læknamiðstöðvar, leysir að líkindum ekki vanda héraðanna, sem verst eru sett, héraðanna, sem minnstar líkur eru til þess að fái lækni, héraðanna, sem eftir sem áður verða að vera einmenningslæknishéruð. Sú staðreynd, sem Gísli Auðunsson hefur leitt í ljós með því að horfast sjálfur í augu við vandann um skiptingu læknishéraðanna, stendur hér, og við verðum að horfast í augu við hana, enda þótt það kunni að koma í ljós, að læknamiðstöðvarnar geti orðið almennt úrræði víða á landinu til úrbóta í þessum efnum.

Ef við lítum yfir land okkar, hvernig það er lagað, og ef við rifjum upp okkar eigin reynslu, sem höfum átt heima í þessum byggðum og eigum, þá gerum við okkur það auðvitað ljóst, hvernig á því stendur, að svo miklir erfiðleikar eru á því að láta læknamiðstöðvar þjóna öllu landinu, og. áhugamaður eins og Gísli Auðunsson læknir hlýtur að gera sér það ljóst. Það eru heiðarnar, það eru fjöllin, sem skilja að byggðarlög þessa lands, og það er veðráttan, það er vetrarveðráttan, og það er hið þriðja, sem kann að vera á mannanna valdi, og það eru samgöngurnar í landinu. Nú eru í ýmsum hlutum landsins samgöngur þannig á landi, að þar eru vegir, sem, þótt þeir séu allvel færir og sýnist kannske góðir á sumrin, verða ófærir meira og minna um vetrartímann vegna snjóalaga. Það kann að vera hægt að ráða bót á þessu. Það kann að vera hægt að gera vegi, sem eru að mestu leyti færir allan veturinn, um ýmsa af þessum fjallvegum, sem nú teppast af snjó og um ýmsar sveitir, þar sem vegirnir einnig teppast af snjó. Það eru ekki eingöngu millibyggðavegirnir, sem teppast, heldur eru það því miður æðivíða einnig vegirnir um byggðirnar sjálfar. Það eru vegir, sem hafa verið lagðir af vanefnum, ruddir vegir, sem eru jafnháir yfirborði jarðar eða jafnvel lægri og þó að þeir geti verið góðir á sumrin, fyllast af snjó, undireins og um verulegar úrkomur er að ræða að vetrinum. En kannske gætum við leyft okkur að fara að líta á það sem heilbrigðismál að gera sæmilega fullkomna vegi í dreifbýlinu, milli byggðanna og um byggðirnar, þar sem þá vantar. Og ef við værum búin að koma okkur saman um að gera slíka vegi og sæjum ráð til þess að gera þá, þá gætum við kannske farið að nota miklu meira úrræðin, sem um er talað í þessum efnum, ef við vildum fara að líta á þessa vegagerð öðrum þræði sem heilbrigðismál og lausn á þessum mikla læknavanda.

Hæstv. ráðh. gat þess, að hann hefði haldið fund í stjórnarráðinu, m.a. að áeggjan þm. af Austurlandi, sem hefðu borið fram kvartanir sinna umbjóðenda um ástand heilbrigðismálanna. Og hann gat þess, að hann vildi gjarnan leysa þeirra vanda og annarra og að það hefði verið leitað ýmissa nýrra úrræða. T.d. hefði verið rætt við læknana á Landsspítalanum, að þeir skiptust á um það að gegna þjónustu úti í héruðum, en ættu auðvitað jafnharðan afturkvæmt að sínu starfi á spítalanum. Hann lét þess getið, að það kæmi til mála að bæta aðstöðu Landsspítalans að þessu leyti, og skildi ég hann svo, að hann ætti þá við það að fjölga þar læknum, þannig að fleiri yrðu til starfa en þar hafa verið og þeir mættu fremur sjá af mönnum til þessarar þjónustu. Þetta finnst mér athyglisvert úrræði í sambandi við Landsspítalann, og kynni einnig að vera það í sambandi við fjórðungssjúkrahúsin og e.t.v. fleiri sjúkrahús, að styðja sjúkrahúsin til þess að hafa fleiri lækna gegn því, að læknarnir sinni að einhverju leyti þjónustu í læknislausum héruðum. Og ég held, ef við vinnum að þessu máli, vinnum stöðugt að þessu máli, að það kunni að koma í ljós ýmiss konar úrræði. Ég hef trú á því, ýmiss konar úrræði, sum kannske nokkuð dýr, önnur kannske ekkert sérstaklega dýr. Hér hefur verið minnzt á þyrlur, að hafa þyrlur á verði. Það er náttúrlega ágætt, en sjálfsagt nokkuð dýrt. En gallinn er sá náttúrlega, að það er ekki ævinlega fært fyrir þyrlu, sjálfsagt oft, en ekki ævinlega fært fyrir þyrlu. Það getur verið þannig veður á okkar landi, að jafnvel þyrlu sé ekki fært, þar sem veðrin eru hörðust um landið á vetrum, alveg eins og þegar slík veður koma á sjónum, að ekki er neinni fleytu fært. En allt er þetta góðra gjalda vert, að að þessu sé hugað.

Ég vil einnig leyfa mér að minna á eitt af þeim úrræðum, sem ég nefndi áðan og ákvæði eru um í læknaskipunarlögunum frá 1965, en það er, að í héruðum séu fengnar til starfa héraðshjúkrunarkonur, sem í neyðartilfellum gætu komið í stað héraðslæknis, þegar hann er með öllu ófáanlegur. Ég veitti því athygli í haust, að á áðurnefndri læknaráðstefnu hafði hjúkrunarkona flutt erindi. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðh. segir, að þær hafi verið tvær, en ég hafði ekki veitt athygli öðru en þessari ræðu tiltekinnar hjúkrunarkonu. Það er héraðshjúkrunarkona, sem hefur starfað á Flateyri í Vestur-Ísafjarðarsýslu í 15 mánuði, að sagt er, hún heitir Auður Angantýsdóttir, og flutti erindi um starf sitt. Þar segir svo, að á Flateyri hafi enginn læknir verið og engin ljósmóðir og engar samgöngur við staðinn á landi frá því í desember og fram í apríl, telur það nokkuð venjulegt. Á Flateyri er þó sjúkraskýli, sæmilega búið tækjum, og starfaði Auður í því. Héraðslæknirinn á Þingeyri hafði umsjón með störfum Auðar, og hringdi hún í hann og spurði ráða, eftir að hún hafði skoðað sjúklinga. Gaf hann síðan fyrirmæli um lyf og meðferð. Vinnudeginum sagðist hún skipta þannig, að á morgnana fór hún í heimavitjanir, annaðist hjúkrun og ungbarnaeftirlit. Um miðjan daginn hafði hún síðan opið apótek, en hún lét sjúklinga hafa lyf eftir fyrirsögn læknis, og einnig tók hún á móti fólki á sama tíma. Síðari hluta dagsins annaðist hún ljósböð og slíka meðferð. Hún annaðist t.d. að sauma saman sár og taka röntgenmyndir. Þá kom það nokkrum sinnum fyrir, að hún varð að gipsa og spelka til bráðabirgða, í sambandi við beinbrot sjálfsagt, en á tímabilinu þurfti einnig nokkrum sinnum á aðstoð varðskips að halda til þess að flytja sjúklinga á sjúkrahús á Ísafirði. Svo segir hún, að héraðslæknirinn, sem sat á Þingeyri, hafi komið einu sinni í viku, ýmist með varðskipi eða þá gangandi yfir heiði. Hjúkrunarkonan segir:

„Ég tel, að héraðshjúkrunarkonur með staðgóða undirbúningsmenntun geti starfað í dreifbýlinu, þar sem langt er til lækna, geti þar innt af hendi þýðingarmikla þjónustu með því að halda uppi reglubundnu eftirliti með sjúklingum, leyst úr minni háttar vandamálum í samráði við lækni símleiðis, gert honum grein fyrir erfiðari tilfellum, þannig að hann eigi auðveldara með að ákveða, hvenær nauðsynlegt er fyrir hann að takast á hendur langa ferð. Þessi þjónusta gæti því aukið öryggi þeirra staða, þar sem læknar eru ekki til starfa.“

Ég hefði gjarnan viljað heyra hæstv. ráðh. segja frá því, hvað frekar hefur gerzt í þessu máli í sambandi við héraðshjúkrunarkonurnar og hvert álit hans er á því úrræði eða þeirra, sem hann hefur spurt um þá hluti. En þarna er mjög sennilega eitt af þeim úrræðum, sem verður að nota meira en er gert til þess að bæta úr neyðarástandi. Og vera má, að ríkið ætti jafnvel að leggja meira fram en í l. er gert ráð fyrir, til þess að þetta ráð gæti komið að gagni, ef þess þyrfti með og á því strandaði. En það er sjálfsagt ekki dýrara en ýmislegt annað, sem verið er að reyna.

Ég nefni þetta til þess að benda á það, að þegar menn leggja heilann í bleyti, sem kallað er, og bera ráð sín saman, þá kunna að finnast ýmis ráð, og það er sennilega ekkert eitt ráð, eins og t.d. læknamiðstöðvar, sem dugir til þess að leysa vanda allra íslenzkra byggða í þessum efnum. Menn hafa öðru hverju leyft sér nokkra bjartsýni í þessum efnum, t.d. í sambandi við það, að nú á þessu hausti hafa innritazt í læknadeildina miklu fleiri stúdentar en nokkru sinni áður, ég held tvisvar eða þrisvar sinnum fleiri. En auðvitað er það, að þó að þetta fólk sé að byrja nám í læknisfræði, líða mörg ár, þangað til það hefur lokið því, og auðvitað höfum við enga tryggingu fyrir því, að tímarnir breytist að því leyti, að læknarnir, þótt miklu fleiri yrðu, verði frekar þess sinnis að starfa í einmenningslæknishéruðum, sem svo hafa verið kölluð. En þó er skynsamlegt að álykta sem svo, að þeir, sem það vilja, verði hlutfallslega því fleiri, sem fjöldi útskrifaðra lækna verður meiri.

Ég vil svo með nokkrum orðum víkja að frv., sem hér liggur fyrir, nánar en ég þegar hef gert, og í framhaldi af þeim ummælum, sen ég hafði í byrjun ræðu minnar almenns efnis um það tillitsleysi, sem stundum kemur fram í garð hlutaðeigandi, þegar stjórnarvöld eru að reyna með góðum hug að leysa þeirra vanda.

Þessi frvgr., sem hér er um að ræða, 1. gr. frv., fjallar jafnframt læknamiðstöðvum um sameiningu læknishéraða. Í gildandi I. eru ákvæði um þetta, í 4. gr. og víðar, ákvæði um sameiningu læknishéraða, þ.e.a.s. um vissa heimild ráðh. til slíkrar sameiningar. En þar er þessi heimild ráðh. til sameiningar læknishéraðanna ákaflega takmörkuð, og afstaða þm. til þess efnis var sú, þegar þessi lög voru til meðferðar, að menn voru mjög tregir til þess að ganga langt í því að heimila ráðh. sameininguna, vildu binda það vissum skilyrðum, sem þýddu það, að þetta væri ekki gert nema þar, sem telja mætti, að það væri svo að segja óhjákvæmilegt. Íbúar þeirra læknishéraða, sem búa við læknisleysi eða hafa ekki lækni nema öðru hverju, telja sig eiga þó nokkurt öryggi í því, að héraðið sé læknishérað, héraðið sé að lögum læknishérað. Á meðan læknishérað er í lögum, segja menn sem svo, að það sé alltaf von um, að þangað komi læknir, en ef héraðið sé lagt niður, þá sé engin von. Og við skulum gera okkur grein fyrir því hér í þessum sal, að hluti af því stríði, sem fólk í strjálbýlinu heyr nú vegna læknisleysisins, er fólginn í öryggisleysistilfinningunni, sem margir verða haldnir af, þegar læknir er ekki til staðar. Þó að við vitum öll, að möguleikar læknis til að hjálpa geta verið takmarkaðir og stundum engir, þá finnst fólki samt alltaf öryggi í því, að læknirinn sé nærri, að það sé unnt að ná til hans. Það veitir mönnum þrek, t.d. þeim, sem við heilsubrest eiga að stríða. Nú er í þessu frv. ráðh. veitt ákaflega mikið vald, og mér dettur ekki í hug að gera ráð fyrir því að hæstv. núv. heilbrmrh. hugsi sér að misnota það vald á neinn hátt. Ég hygg, að hann sé ekki þess sinnis. En það er gert ráð fyrir, að þannig verði þessi lög. Greinin hljóðar svo eða upphaf hennar:

„Ráðh. er heimilt eftir till. landlæknis að breyta skipan læknishéraða samkv. 1. gr. þessara l. og sameina í eitt læknishérað tvö eða fleiri nágrannahéruð eða hluta úr héraði (héruðum), svo fremi að staðhættir og aðrar aðstæður leyfi. Skal hið nýja læknishérað hljóta nafn þess héraðs, þar sem læknamiðstöð verður sett á stofn.“ Síðan segir: „Áður en slík sameining er framkvæmd, skal leita álits stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, Tryggingastofnunar ríkisins, stjórnar Læknafélags Íslands, svo og hlutaðeigandi héraðslækna, ef héruð þau, sem sameina á, eitt eða fleiri, eru skipuð héraðslæknum,“ — annars náttúrlega ekki.

Ég kann ekki við þetta ákvæði. Mér finnst, að heilbrigðisstjórninni sé hér í l. veitt allt of mikið vald og það vald sé allt of litlum skilyrðum bundið, og mér geðjast ekki að því, að fólkið, sem við læknavandann á að stríða, fái þær fréttir helztar í þessu máli, að heilbrigðisstjórninni, ráðh. og landlækni, þótt ágætur maður sé, þeim hafi verið veitt vald til þess að sameina læknishéruð, leggja niður læknishéruð, sem nú eru starfandi, hvar sem er á landinu, aðeins með því skilyrði, að þeir hafi áður leitað álits nokkurra stofnana hér í Reykjavík, Sambands ísl. sveitarfélaga, sem hefur aðsetur hér í Reykjavík, stjórnar Læknafélagsins og Tryggingastofnunarinnar. Ráðh. og landlækni er aðeins lögð sú skylda á herðar að leita þessara álita, en þeir þurfa ekki að fara eftir þeim, jafnvel þótt þau væru öll andvíg slíkri sameiningu og niðurlagningu læknishéraða„ sem raunar þarf nú varla að gera ráð fyrir, að þessar stofnanir, sem hér eru nefndar, færu að setja sig á móti því, sem yfirstjórn heilbrigðismála hefði hugsað sér í þessu máli. Það er héraðslæknirinn einn, ef hann er þá til, sein má segja að hafi staðarlega reynslu í sambandi við slíka ákvörðun, og þá er þó þess að gæta, að hann væri væntanlega staðsettur í því héraðinu, þar sem læknamiðstöðin yrði sett.

Í framhaldi af því, sem ég sagði hér í upphafi um undirbúning, veit ég það að vísu, að í þeirri n., sem heilbrmrh. skipaði árið 1967, voru mætir menn. Einn þeirra mun nú vera látinn. En enginn þessara manna var samt læknir, að ég held, sem starfað hefur í einhverju þeirra héraða, sem í mestu stríði hafa átt vegna læknaskortsins. Ég hefði álitið, að það hefði verið mjög tilhlýðilegt að fá í þessa n., ef þar áttu einkum að vera læknar og fræðimenn, slíka lækna, lækna, sem hafa einmitt starfað í héruðum, sem nú stríða við vandann og hafa strítt í mörg ár. Það má kannske segja, að það sé ekki hægt að taka slíka menn frá sínu starfi. En þá má minna á það, að slíkir menn fyrirfinnast nú hér í Reykjavík, læknar, sem hafa gegnt þjónustu og henni sumir lengi í þeim héruðum, sem hér eiga hlut að máli. Ég minnist þess, að hér í Reykjavík er t.d. maður, sem í eina þrjá eða fjóra áratugi var héraðslæknir í héraði, sem öðru hverju hefur verið læknislaust undanfarið, og ég man eftir öðrum, sem um 10 ára skeið gegndi slíku héraðslæknisstarfi og þurfti oftar en einu sinni að þjóna ekki einungis sínu héraði, heldur tveimur og jafnvel þremur læknishéruðum samtímis. Slíkur maður fyrirfinnst hér á höfuðborgarsvæðinu, og hefði ekki þurft að taka neinn mjög vant við látinn héraðslækni úr starfi til þess að hafa samráð við um þessa hluti. Og af læknum eru það náttúrlega slíkir menn, sem mesta persónulega reynslu hafa í þessum efnum og líklegastir eru til að geta sagt heilbrigðisstjórninni frá því, hvernig læknisstarfið er í slíkum byggðarlögum, hefur verið og er, og hvernig því var sinnt á þeim áratugum, sem þeir leystu það af hendi.

Ég er leikmaður á þessu sviði. En mér finnst, að þeir, sem fyrst og fremst á að spyrja um það, hvað þeir leggi til, að fyrir þá sé gert, og kannske, hvað þeir vilja með engu móti, að fyrir þá sé gert, sé fólkið sjálft í læknishéruðunum, sem ekki hafa haft lækna. Og mér finnst það misráðið að ætla sér að sameina læknishéruð og leggja niður læknishéruð án þess að leita um það álits þessa fólks, eða fyrirsvarsmanna þeirra. Mér finnst, að það ætti jafnvel að gera meira, að það ætti að taka fullt tillit til álits þessa fólks, eins og það virðist koma fram, t.d. meiri hl. sveitarstjórna eða slíkra. Mér finnst, að það ætti að gera. Það getur verið, að ég eigi eftir að skipta um skoðun á því, en á þessu stigi finnst mér, að það eigi að gera og að það eigi ekki að sameina læknishéruð og fella niður læknishéruð aðeins að nokkrum ríkisstofnunum hér í Reykjavík spurðum, án þess að hafa svo mikið sem spurt fólkið, sem hér á hlut að máli og menn sjálfsagt af góðum hug ætla sér að hjálpa.

Við eigum ekki að hugsa okkur það, finnst mér, að framkvæma þessar hjálparráðstafanir í trássi við fólkið, sem á að njóta þeirra. Það er ekkert unnið við það að gera lögin þannig úr garði, að fyrirsjáanlegt sé, að þau kunni að verða framkvæmd í trássi við þá, sem eiga að njóta hjálparinnar, heldur auðvitað í samstarfi. Ég hef enga trú á því, að það fólk sé svo skyni skroppið, sem í þessum landshlutum á heima, sem nú eru í vanda staddir, að það geti ekki verið til viðtals, að það þýði ekki að tala við það um ráðstafanir, sem góðir menn álíta að séu til hjálpar, — að það þýði ekki að tala við það. Ég held, að það þýði mjög mikið að tala við það, og ég held, að það mundi aldrei vera nema til góðs, að það sé gert, og eigi að gera það. Það eigi sem sé að leita tillagna, t.d. sveitarstjórna í hinu væntanlega sameinaða læknishéraði, og það eigi eftir einhverjum reglum að fara eftir þeim till., sem þaðan koma, jafnvel þótt þær kunni að vera aðrar en heilbrigðisstjórnin hér hefur í huga, því að það er þó þetta fólk, sem í hlut á. Það veit, hvar skórinn kreppir, og það vill áreiðanlega losna við þá skókreppu.

Þetta vil ég nú segja til athugunar fyrir hv. n. og hæstv. ráðh., sem ég geri ráð fyrir, eftir því sem hann sagði, að sé fús til viðræðu um þessi efni. Það kynni að vera fleira, sem ég teldi ástæðu til að minnast á í sambandi við orðalag frv. Ég sé t.d., að í síðustu mgr. 1. gr. er talað um þau tilfelli, þegar óhjákvæmilegt sé, að haldið sé uppi föstum viðtalstíma læknis í „þéttbýliskjarna“ utan læknamiðstöðvar, og skal þá landlæknir að fengnu áliti viðkomandi héraðslækna gera till. til ráðh. um tíðni slíkra viðtalstíma á hverjum stað. Ég hnaut um þetta orð þarna: „þéttbýliskjarni“. Ég veit nú ekki almennilega, hvað þéttbýliskjarni er, en mér skilst, að það sé einhver kjarni í þéttbýli, einhver kjarni innan þéttbýlis. Annað hugtak skylt höfum við notað nú um sinn, sem er orðið „byggðakjarni“. Það er litið á það svo, að byggðakjarni sé þéttbýlisstaður, sem mörg byggðarlög liggja að. Ég mundi nú heldur kjósa að nota það orð. — Ég er alveg að verða búinn, herra forseti, — það er nú það út af fyrir sig, hvaða orð maður vill nota. En ég tel þetta svolítið vafasamt og vil benda n. á, að slíkur staður, þar sem læknir hefur viðtöl við fólk, þurfi endilega að vera í þorpi eða litlum bæ. Hann getur alveg eins verið á einhverjum sveitabæ, skulum við segja, eða í samkomuhúsi í dreifbýli. Við vitum dæmi þess, að sums staðar eru héraðslæknar enn staðsettir á sveitabæjum, sem liggja vel við samgöngum, og ég sé ekki, að það sé ástæða til þess að binda þessi viðtöl eingöngu við þorp eða bæi. En þetta er ekkert stórmál. Ég vil aðeins leyfa mér að benda á þetta til athugunar fyrir n. og skal nú láta máli mínu lokið.