25.03.1969
Neðri deild: 69. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

3. mál, læknaskipunarlög

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, hafði hlotið athugun í heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. og skilaði n. áliti, sem dags. er 12. desember s.l. N. flutti þá við frv. eina litla brtt. og mælti að öðru leyti með, að það yrði samþ. Þá koma einnig fram brtt. við frv. frá hv. 1. þm. Vestf. o.fl., og við umr. um málið, þegar það kom hér til umr. við 2. umr., eftir að hafa verið í n., komu fram ábendingar, aðallega frá hv. I. þm. Vestf., um aðallega þó eitt atriði, sem ekki kemur fram í brtt., en það var þess efnis, að talið var mjög óeðlilegt og ekki æskilegt, að heimild yrði gefin til þess, að læknishéruð yrðu lögð niður fyrirvaralaust. Þetta varð til þess, að hæstv. heilbrmrh. óskaði eftir því, að frv. yrði frekar athugað, ef það mætti verða til þess, að um það næðist samstaða, sem hann sagðist leggja mjög mikið upp úr, þar sem hér væri um nokkuð viðkvæmt mál að ræða og mikilsvert varðandi það atriði, sem það fjallar um.

Þetta varð til þess, að heilbr.- og félmn. tók málið aftur til umr. á fundi sínum, og hafði þá boðað á fundinn auk nm., landlækni, fulltrúa í heilbrmrn., Jón Thors, og hv. 1. þm. Vestf., Sigurvin Einarsson. Í framhaldi af þeim umr., sem í n. urðu, mun hafa orðið samkomulag á milli þeirra aðila, sem stóðu að flutningi brtt. á þskj. 189, annars vegar og landlæknis og heilbrmrn. hins vegar að gera nokkrar breytingar á frv. Þá kom einnig fram á fundi heilbr.- og félmn. ábending um, að eðlilegt væri og sjálfsagt, að lög um læknaskipun í landinu gerðu einnig ráð fyrir, að læknamiðstöðvar gætu einnig verið settar upp og komið á stofn í þéttbýli jafnframt, eins og í dreifbýli, eins og frv. gerir ráð fyrir. Það var réttilega á það bent á fundi heilbr.- og félmn., að aðstaða í ýmsum kaupstöðum og kauptúnum á landinu varðandi heilbrigðisþjónustu væri þess eðlis, að ekki væri síður mikilvægt, að sköpuð yrði betri aðstaða fyrir lækna til starfa á þeim stöðum eins og augljóslega liggur fyrir, að eðlilegt sé, að gert verði í dreifbýlinu.

Þessar ábendingar, sem fram komu, bæði hér í þessari hv. d. og í heilbr.- og félmn. urðu til þess, að frv. breyttist allverulega efnislega um þessi tvö atriði. Í fyrsta lagi í þá átt, sem fram kemur í 4. mgr. í brtt. n. á þskj. 392, þar sem segir: „Þegar liðin eru 5 ár frá því, að læknamiðstöð samkv. 1. mgr. tók til starfa, verður svæði það, sem stöðin þjónar, eitt læknishérað, ef um fleiri en eitt er að ræða, og ákveður ráðh. nafn hins nýja héraðs.“ Þetta merkir, að læknishérað verður ekki lagt niður fyrr en að 5 árum liðnum, eftir að læknamiðstöð hefur tekið þar til starfa. Að öðru leyti eru komin inn í frv. ákvæði um það, að hægt sé að setja á stofn læknamiðstöðvar í þéttbýli, kaupstöðum og kauptúnum, þó að sameining við önnur læknishéruð hafi ekki átt sér stað. Og fer þá að því leyti um þátttöku ríkissjóðs eftir ákvæðum sjúkrahúslaga um greiðsluhlutföll milli sveitarfélaga og ríkissjóðs. En ef um stofnun læknamiðstöðvar er að ræða í strjálbýli, þar sem sameining fleiri læknishéraða hefur átt sér stað, þá greiðir ríkissjóður samkv. brtt. enn allan stofnkostnað, eins og var í frv., eins og það upphaflega var lagt fyrir. Ég hygg, að þær breytingar, sem nú er lagt til, að gerðar verði á frv. og fram koma á þskj. 392, séu þess eðlis, að um málið ætti að geta orðið samkomulag og er það vissulega mikils virði, ef svo yrði. Þeir nm., sem á fundi heilbr.- og félmn. mættu, — það voru allir nm. nema tveir, sem munu hafa verið utanbæjar, annar þeirra a.m.k., — voru samþykkir þeim brtt., sem hérna eru bornar fram, en hv. 9. þm. Reykv., Hannibal Valdimarsson, hafði ekki aðstöðu til þess að mæta á fundinum. Sú brtt., sem n. flutti í nál. sínu frá 12. desember 1968, hefur efnislega verið tekin inn í þá brtt., sem hér liggur nú fyrir á þskj. 392, og vil ég af þeirri ástæðu draga hana til baka, þar sem hennar er ekki lengur þörf.

Ég sé svo á þessu stigi ekki ástæðu til þess að ræða málið frekar. En þetta er, eins og ég sagði áðan, mjög viðamikið og að sumu leyti mjög viðkvæmt mál. Vona ég, að þær breytingar, sem lagt er til, að gerðar verði á frv. frá því, að það var lagt fram, verði til þess, að samstaða náist um málið og það hljóti hér skjóta afgreiðslu.