25.03.1969
Neðri deild: 69. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

3. mál, læknaskipunarlög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Í byrjun þessarar umr. flutti ég ásamt nokkrum fleiri þm. brtt. við þetta frv. á þskj. 189. Efni brtt. var það, að núv. læknishéruð í landinu yrðu ekki lögð niður, þótt stofnaðar yrðu læknamiðstöðvar, en við flm. erum mjög fylgjandi því, að slíkum læknamiðstöðvum verði komið upp. Hins vegar sáum við enga ástæðu til þess a.m.k. fyrst um sinn að leggja niður núv. læknishéruð. Þetta var aðalefni till., sem við fluttum. Þessari till. má segja, að hafi verið vel tekið. Hæstv. heilbrmrh. hlutaðist til um, að málið yrði athugað á ný rækilega og hv. heilbr.- og félmn. var sama sinnis um það að athuga málið og leita eftir því, hvort ekki næðist samkomulag um lausn á þessum ákvæðum frv. Og eins og hv. frsm. n. hefur nú greint frá, hefur n. gert þetta með þeim hætti að boða mig sem 1. flm. þessarar brtt. á sinn fund auk landlæknis og fulltrúa úr rn., og fjölluðum við landlæknir um þetta í félagi allrækilega. Og svo fór, sem menn sjá, að okkur tókst að ná algeru samkomulagi um breytingar á frv. í þessa átt. Þær breytingar hefur nú hv. n. fellt inn í sínar till., þannig að nú er aðeins ein brtt. á ferðinni hvað þetta snertir.

Ég er þakklátur öllum þessum aðilum, bæði hæstv. ráðh., hv. heilbr.- og félmn. og landlækni fyrir lipurð og skilning í þessu máli að koma þarna til móts við sjónarmið okkar og margra annarra úti á landinu, sem verða að búa við bágborið ástand í heilbrigðismálum. Breytingin er því sú, sem verður nú væntanlega á þessu frv. eftir till. hv. n. og okkar, sem fluttum um það brtt., að þá fyrst kemur til greina að sameina læknishéruð í eitt, þegar 5 ár eru liðin frá því, að læknamiðstöð hefur verið stofnuð. Fyrr kemur þetta ekki til greina. Reynslutíminn, sem við óskuðum sérstaklega eftir að fengist á þessari nýju skipan, er þar með ákveðinn 5 ár frá stofnun læknamiðstöðvar. Núverandi læknishéruð halda sér því öll áfram, a.m.k. þennan tíma, sem ég hef nú nefnt. Þetta var aðalatriðið, sem fyrir okkur vakti, enda ætti þá að vera auðveldara fyrir alla aðila, sem þá kunna um þetta að fjalla, að skapa sér skoðanir á því, hvaða skipulag sé bezt, þegar slík reynsla er fengin. Ég fagna þessari breytingu, eins og ég hef hér sagt.

Hitt vil ég benda á, að þó að læknamiðstöðvar komi upp, eru einstök læknishéruð læknislaus fyrir það, og ég lít svo á, að að sjálfsögðu verði leitað eftir læknum í þau héruð þrátt fyrir þessa skipan. Þessi breyting á lögunum breytir að mínum dómi engu um það, að þörf er á því að fá lækna í læknislaus héruð og til þess þarf að beita auglýsingum, eins og áður hefur verið gert. Það er eftir 5 ára tímabilið, sem kemur til kasta þáv. yfirvalda í heilbrigðismálum að ákveða, hvort læknishéruð skuli lögð niður eða ekki og hvort læknamiðstöð geti fullnægt þeim.

Samkv. þessu tökum við flm. þessarar brtt. á þskj. 189 hana aftur.