25.03.1969
Neðri deild: 69. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

3. mál, læknaskipunarlög

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð. Ég vil í engu verða til að tefja framgang þessa frv., sem ég tel til bóta, þó að það nái aðeins yfir eitt afmarkað svið þess vandamáls, sem hér er við að etja. Ég var einn af þeim, sem lögðu nokkru áherzlu á, að breytt yrði ákvæði frv. þannig, að læknishéruð yrðu ekki lögð niður jafnskjótt og læknamiðstöðvar yrðu stofnaðar. Og það hefur nú verið orðið við þessum óskum okkar, og ákvæðum frv. breytt þannig, að þetta gerist ekki fyrr en eftir 5 ár. Ég tel þetta mjög mikilsvert, því að enda þótt fjölmargir bindi miklar vonir við læknamiðstöðvarnar, er þó það fyrirkomulag óreynt og reynslan ein sker úr um það, hvernig það blessast. Vera kann og, að það reynist vel í einum stað, þótt það reynist það ekki alls staðar. Þess vegna var það, að við lögðum áherzlu á það, að læknishéruðin yrðu ekki lögð niður, jafnskjótt og læknamiðstöðvar yrðu stofnaðar, og af því leiðir það, að við hljótum auðvitað að leggja áherzlu á það, að haldið verði áfram eins og áður að vinna að því að útvega lækna í læknishéruðin svo lengi, sem þau hafa ekki verið lögð niður, að þau verði auglýst eins og áður o.s.frv. Og ég lít svo á, að þannig hljóti framkvæmd laganna að verða.

Eins og ég sagði áðan, tel ég þetta frv. til mikilla bóta, og ég bind miklar vonir við læknamiðstöðvafyrirkomulagið. Það er þó auðvitað öllum hv. dm. ljóst, að varðandi læknavandamál dreifbýlisins eru hér mörg fleiri viðfangsefni. Þetta var nokkuð rætt við 1. umr. þessa máls, og hæstv. ráðh. kom inn á ýmis þessi atriði. Ég tel, að það geti haft mjög mikil áhrif að breyta tilhögun kennslu í læknadeild og að enn þurfi að athuga ýmsa þætti í sambandi við aðbúnað héraðslækna til hliðar við þetta mál, og raunar fleira. Og ég vil einnig taka undir það, sem stundum hefur verið hreyft, ég hygg einnig hér í hv. d., að það geti vel komið til athugunar, að Landsspítalinn taki eins konar forystu í sjúkrahúsmálunum, að tengd verði Landsspítalanum fyrst og fremst hin smærri sjúkrahús víðs vegar um landið. Það hefur í vetur verið sá háttur á hafður varðandi sjúkrahúsið í Neskaupstað, — þar varð læknislaust í haust, og hefur ekki enn tekizt að ráða þangað fastan mann — að Landsspítalinn hefur tekið að sér að sjá þar fyrir þjónustu á þann hátt, að læknar hafa farið austur og verið þar ákveðinn tíma. Við þetta fyrirkomulag má segja að vanti nauðsynlega og eðlilega festu í starfsemi sjúkrahússins, því að allt er þetta nokkuð laust í reipum. Menn vita ekki gjörla hversu lengi þetta gengur og eins hitt, að tíminn er mjög stuttur, sem hver læknir er. En ég hef orðið var við það, að menn á hinn bóginn meta það mjög, að þarna hafa komið austur til starfa hinir færustu læknar í ýmsum greinum og menn sjá við það ýmsa kosti, þó að á hinn bóginn vanti vissa festu í starfsemi sjúkrahússins, sem varla getur skapazt með þessum hætti. En þessi mál öll eru svo yfirgripsmikil, að það er erfitt fyrir einstaka þm. að leggja fram ákveðnar till. um mörg þessara atriða. Og það er kannske m.a. þess vegna, að ekki hafa komið hér fram till. frá einstökum þm. um fleiri atriði heldur en fjallað er um í þessu frv. Ég vil nú leyfa mér að vænta þess, að heilbrigðisyfirvöld og læknasamtök láti ekki hér staðar numið, heldur vinni ötullega að frekari úrbótum í þessum efnum, bæði á grundvelli þeirra laga, sem væntanlega verða afgreidd hér frá þinginu nú varðandi læknamiðstöðvarnar, og einnig á öðrum sviðum þessara mála.