21.04.1969
Efri deild: 76. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

3. mál, læknaskipunarlög

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar einvörðungu um breytingar á 4. gr. læknaskipunarl. frá 1965, en þessi 4. gr. er á þá leið, að takist ekki í eitt ár að fá héraðslækni skipaðan í eitthvert læknishérað samkv. 1. gr., þó að það hafi verið auglýst minnst þrisvar, sé heimilt að sameina héraðið því nágrannahéraði, sem bezt hentar, ef staðhættir annars leyfa slíka sameiningu, enda verði læknir skipaður til starfa í hinu sameinaða læknishéraði ásamt héraðslækni þeim, sem starfar þar fyrir. Enn fremur segir í þessari 4. gr. læknaskipunarl.: „Þar sem staðhættir leyfa, má sameina fleiri læknishéruð, þegar svo stendur á, sem um ræðir í 1. mgr., enda verði að jafnaði skipaður læknir til viðbótar fyrir hvert hérað, sem sameinað er.“Og að lokum segir í þessari 4. gr., að ráðh. setji með reglugerð nánari ákvæði um læknamiðstöðvar, sem upp kunni að rísa samkv. ákvæðum þessarar gr.

Þegar að því kom fljótlega eftir að þessi læknaskipunarlög voru sett 1965, eða þeim breytt, að fara að framkvæma þessa 4. gr., en landlæknir taldi nauðsynlegt að nota heimild hennar til þess að koma á fót læknamiðstöðvum, þá komu ýmsir annmarkar í ljós og reyndist þurfa að athuga það mál sérstaklega og til þess var skipuð sérstök n., sem átti að hafa það hlutverk að semja reglur um fyrirkomulag og rekstur læknamiðstöðva samkv. 4. gr. læknaskipunarlaganna og athuga sérstaklega afstöðu læknanna hvers til annars og verkaskiptingu þeirra. Þessi n. skilaði till. sínum í septembermánuði 1967 og lagði þar til, að sett yrði reglugerð á grundvelli 4. gr. um læknamiðstöðvar héraðslækna og gerði n. drög að slíkri reglugerð. En við nánari athugun á till. þessarar n. hjá rn. og landlækni kom í ljós, að þessi 4. gr. læknaskipunarlaga er ófullnægjandi undirstaða til raunhæfra framkvæmda um stofnun og starfrækslu læknamiðstöðva, og því fól rn. landlækni í samráði við þá, sem áttu sæti í þeirri n., er annaðist samningu læknaskipunarlagafrv., að gera till. að nýjum ákvæðum um stofnun og rekstur læknamiðstöðva, og þetta frv., sem hér liggur fyrir, er árangurinn að því starfi.

Þetta frv. var borið fram í Nd. Þar urðu í fyrstu mjög skiptar skoðanir um þetta mál, og komu fram margvíslegar aths., þó að ég hyggi, að allir hafi verið sammála um nauðsyn þess að gera þessa 4. gr. læknaskipunarl. betur úr garði en áður. En að lokum tókst þó samkomulag um hin mismunandi sjónarmið í hv. Nd., og voru þar gerðar ýmsar breytingar á greininni, sem menn voru að lyktum sammála um. Og þannig liggur frv. hér fyrir þessari hv. d. Meginbreytingarnar, sem Nd. gerði, eru þær annars vegar, að sett er inn ákvæði, sem segir, að þegar liðin séu 5 ár frá því, að læknamiðstöð samkv. 1. mgr. tók til starfa, verði svæðið, sem stöðin þjónar, eitt læknishérað, ef um fleiri en eitt hérað er að ræða, og ákveður ráðh. nafn hins nýja héraðs. Og þarna er sem sagt settur sérstakur aðlögunartími, sem ekki var í frv. í upphafi. Og enn fremur eru settar ítarlegri reglur um kostnað við byggingu og starfrækslu slíkrar læknamiðstöðvar, sem er ærið flókið mál. Þessu frv. var vísað til heilbr.- og félmn. Og hún fékk þar í hendur umsagnir með frv., sem höfðu borizt til Nd., þ. á m. frá Sambandi íslenzkra sveitarfélaga, sem leggur til, að frv. verði samþ., en gerir á því lítils háttar breytingu, sem tekin var til greina í Nd., og enn fremur frá Læknafélagi Íslands, sem mælir eindregið með samþ. frv. Það varð svo niðurstaðan í heilbr.- og félmn. Nd. að mæla með því, að frv. yrði samþ. eins og það liggur nú fyrir.