18.03.1969
Efri deild: 60. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

180. mál, stofnun og slit hjúskapar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þetta frv. er af svipuðum toga og það, sem ég áðan talaði um. Eins og menn rekur minni til, þá var í fyrra 21 árs aldursmarkið í sambandi við hjónavígsluskilyrði fært niður í 20 ár. Nú hefur komið í ljós, að það virðist eðlilegt að færa önnur aldursmörk þarna niður, sem þá var ekki breytt. Því er nú lagt til, að í 2. málsgr. 4. gr. 1. komi 20 ára í stað 21 árs aldurs. En það er ákvæði þess eðlis, að karlmanni verði eigi gert að greiða skaðabætur samkvæmt 3. gr. l., ef festarkona verður þunguð af völdum festarmanns og festarnar slitna af ástæðum, sem hann á aðallega sök á, nema hann hafi verið 21 árs, þegar konan varð þunguð, og er lagt til að þetta verði fært niður í 20 ára aldur í staðinn fyrir 21 árs, til samræmis við annað.

Ég vildi leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að þessu máli verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.