06.03.1969
Efri deild: 55. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

165. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Bjarni Guðbjörnsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, svo langt sem þau náðu. Það upplýsist hér með, að það hefur ekkert í þessum málum skeð enn þá.

Í umr. um þetta mál í hv. Nd., þegar frsm. meiri hl. sjútvn., formaður Landssambands ísl. útvegsmanna, Sverrir Júlíusson, flutti nál. eða mælti fyrir frv., lagði hann áherzlu á það, að þýðingarmesti liðurinn í framkvæmd þessara 1. væri einmitt þessi liður, sem ég var að spyrja um, stafliður a í 17. gr. í þessum lögum. Og það sýnir sig, að einn þýðingarmesti liðurinn í þessu máli, hann hefur ekki enn þá komið til framkvæmda. Ég verð að harma, að svo skuli hafa til tekizt og ekki skuli hafa verið lögð meiri áherzla á, að þetta veigamikla atriði, séð frá sjónarmiði þeirra, sem um það fjölluðu af hálfu stjórnarinnar í hv. Nd., skuli enn ekki hafa komið til framkvæmda. Það hefur heldur ekki verið upplýst, hve há upphæð væri þarna til skiptanna. Það hefur heyrzt talað um 150 millj., en sjálfsagt er það skiptingin á þeirri upphæð, sem ekki hefur orðið samkomulag um, eins og hæstv. ráðh. var að tala um. En ég vildi mega leggja áherzlu á það hér, áður en málið fer í n., að n. fengi þær upplýsingar í sambandi við þessi atriði við meðferð málsins, bæði hvað upphæðin yrði talin há, og hvernig þessu yrði ráðstafað meðal einstakra aðila, því það skiptir meginmáli í þessu efni.