21.10.1968
Neðri deild: 4. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

9. mál, Landsbókasafn Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Á s.l. vori fól ég embættismönnum að endurskoða og samræma gildandi lög um íslenzk söfn, að Handritastofnuninni meðtalinni. Ástæðurnar voru nokkrar. Fyrst og fremst var ástæðan sú, að um eitt aðalsafn Íslendinga, Þjóðminjasafnið, eru í raun og veru engin lög til. Það eru aðeins til lög um verndun fornminja, en engin um Þjóðminjasafnið sjálft, hlutverk þess og starfsemi. Þjóðskjalasafnið starfar á grundvelli mjög einfaldra og fáorðra laga frá 1915. Reglugerð var sett 1916, og á grundvelli hennar hefur Þjóðskjalasafnið starfað allar götur síðan. Lagasetningin um hin söfnin er öll yngri og þá um leið miklu fullkomnari. Lagasetningin um Landsbókasafnið er frá 1949 og var mjög vel undirbúin á sínum tíma. Þau lög, sem nú eru í gildi um Landsbókasafn, voru samin af nefnd, sem í áttu sæti dr. Björn Sigfússon, dr. Finnur Sigmundsson, dr. Jakob Benediktsson, dr. Sigurður Nordal og dr. Þorkell Jóhannesson, og var í l. gert ráð fyrir því, að Landsbókasafnið sé þjóðbókasafn Íslands, þ.e.a.s. höfuðbókasafn þjóðarinnar. Á þessum l. var í raun og veru aðeins einn galli, og hann var sá, að í þeim var takmörkuð tala bókavarða við 6, en slík takmörkun er að sjálfsögðu fjötur á eðlilegum vexti safnsins. Hefur sá fjötur í raun og veru verið brotinn í reynd, þ.e. ekki starfa 6 bókaverðir við Landsbókasafn, heldur 7, þó að sá 7. hafi vegna þessara lagaákvæða ekki getað fengið formlega skipun í embætti sitt, eins og hinir 6 bókaverðirnir. Þess vegna er í þessu frv. gert ráð fyrir því, að tala bókavarða skuli fara eftir fjárlagaákvæðum. Með því móti væri hægt að ganga formlega frá skipun allra bókavarða Landsbókasafns, sem nú starfa, með sama hætti, og sá hemill, sem verið hefur í landsbókasafnslögunum sjálfum á vexti safnsins, er í burtu numinn.

Síðan gildandi lög um bókasöfn landsins voru sett, 1949, eða 9 árum síðar, samþykkti Alþ. þál. um það, að sameina skyldi tvö höfuðbókasöfn þjóðarinnar, Landsbókasafn og Háskólabókasafn, en Háskólabókasafn var þegar komið til, þegar l. um Landsbókasafn voru sett 1949. Því máli hefur síðan miðað tiltölulega hægt áfram, því skilyrði til þess að hægt sé að framkvæma þann vilja Alþ. að sameina söfnin, er að sjálfsögðu, að nýtt bókasafnshús verði reist, sem geti rúmað bæði söfnin. En skriður komst á það mál í tengslum við afmæli Landsbókasafnsins nú á þessu ári. Síðasta Alþ. stofnsetti byggingarsjóð Landsbókasafns með framlagi og hafa tvær fjárveitingar verið veittar í þann sjóð. Þær duga að vísu ekki til þess að hefja framkvæmdir, en undirbúningsframkvæmdir er þó hægt að hefja á grundvelli þessara tveggja fjárveitinga Alþ. Með hliðsjón af þeim var einnig gengizt í það, að endanlega yrði gengið frá ákvörðun borgaryfirvalda um byggingarlóð fyrir safnið og hefur það nú nýlega verið gert, var gert í sambandi við það afmæli safnsins, sem ég nefndi áðan, þannig að nú má segja, að skilyrði séu fyrir hendi til þess, að hafizt sé af alvöru handa um undirbúning bókasafnsbyggingarinnar. Það er kunnugt, að hugmyndir hafa komið fram um það, að reist skuli bókasafnshús yfir aðalbókasöfn þjóðarinnar í tilefni af ellefu hundruð ára afmæli Íslandsbyggðar. Ég persónulega er þeirri hugmynd mjög hlynntur, tel, að Íslendingar geti varla minnzt ellefu hundruð ára byggðar í landi sínu á annan verðugri og veglegri hátt en þann að byggja allsherjarbókhlöðu yfir bækur Íslendinga. En að sjálfsögðu verður það Alþ., sem á sínum tíma tekur lokaákvörðun í því máli.

En þess vildi ég líka geta í þessu sambandi, að undanfarið hafa farið fram umr. á milli menntmrn. og landsbókavarðar um ýmsar ráðstafanir til endurbóta á högum safnsins, þangað til sú fyrirætlun kemst í framkvæmd að sameina það Háskólabókasafni í nýrri Landsbókhlöðu. Sú nýskipun, sem nú er um rætt, er fyrst og fremst fólgin í því að bæta húsakost safnsins, bæði að rúmi og aðstöðu til, með því að flytja nokkurn hluta af bókum Landsbókasafns, þann hluta, sem mjög sjaldan er hreyfður, mjög sjaldan þarf að nota, í annað húsnæði utan Landsbókasafnsbyggingarinnar, til þess að bæta skilyrði, bæði til bókageymslu og til lestrar- og rannsóknarstarfa, í bókasafnshúsinu sjálfu. Í því sambandi má þess og geta, að á næsta hausti mun Árnagarður, þ.e.a.s. hús Handritastofnunar og Háskólans verða fullgert, þannig að Handritastofnunin, sem frá stofnun sinni hefur fengið inni í húsnæði Landsbókasafns og hefur þar mjög vandaða og góða aðstöðu á neðstu hæð hússins, mun flytja úr. Landsbókasafnshúsi í Árnagarð á hausti komanda. Við það mun Landsbókasafn fá aukið geymslurými og sérstaklega aukið vinnurými og mun hagur safnsins væntanlega vænkast mjög mikið við þá breytingu, auk þess sem Handritastofnunin fær mjög fullkomið geymslurými og vinnurými í hinni nýju byggingu, og mun óhætt að fullyrða, að húsnæði Handritastofnunar í Árnagarði sé eitt það bezta, sem nokkur hliðstæð stofnun hefur í nálægum löndum. Enda kannske ekki sérlega þakkarvert, þar sem þetta er nýjasta húsið, sem yfir slíka starfsemi hefur verið reist. Það er þó rétt að taka það fram til þess að fyrirbyggja allan hugsanlegan misskilning, að ekki er tilætlunin að flytja handrit Landsbókasafns í Árnagarð, þ.e.a.s. í Handritastofnunina. Þau eru eign Landsbókasafns og munu verða það áfram, munu áfram vera varðveitt og vera til rannsóknar í Landsbókasafni. Hins vegar er til þess ætlazt, að Handritastofnunin í Árnagarði taki við og fái til varðveizlu þau handrit úr Árnasafni og Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn, sem verða flutt til Íslands, þegar handritamálið verður formlega og endanlega til lykta leitt. En á því mun vonandi ekki verða löng bið úr þessu.

Í sambandi við þessar breytingar, sem sumpart eru að verða og sumpart munu verða næsta haust, á högum Landsbókasafns, þykir mér rétt að nefna eitt atriði, sem ég tel nú um sinn í raun og veru vera eitt brýnasta hagsmunamál íslenzkra bókasafna og þeirra manna, sem nota íslenzk bókasöfn, en það er, að komið verði á fót skráningarmiðstöð fyrir íslenzku aðalbókasöfnin tvö; en ekki aðeins fyrir þau, heldur einnig þann mikla fjölda og vaxandi fjölda sérbókasafna, sem smám saman hafa komizt á fót á undanförnum árum í ýmsum opinberum stofnunum. Á ég þar t.d. við rannsóknastöð Háskólans á Keldum, sem á mjög vandað vísindabókasafn í sínum greinum, Raforkumálaskrifstofuna, sem sömuleiðis á mjög vandað vísindabókasafn á sínu sviði, Raunvísindastofnun Háskólans og fleiri stofnanir. Í raun og veru hefur lengi verið ráð fyrir því gert, að slíkri skráningarmiðstöð yrði komið á fót og var meira að segja ákveðið á sínum tíma, að Landsbókasafn skyldi hafa forgöngu um það að koma henni á fót og annast skráninguna. En aðstæður í Landsbókasafnshúsinu og starfsmannafæð hefur valdið því, að Landsbókasafnið hefur hingað til vikizt undan að takast þessa skyldu á herðar. Ég leyfi mér að vona, að í kjölfar þeirra breytinga, sem nú er verið að hugleiða á aðstöðu Landsbókasafns, þ.e.a.s. í kjölfar flutnings nokkurs hluta bóka þess í annað húsnæði og þá ekki síður í kjölfar flutnings Handritastofnunar úr Landsbókasafnshúsi í Árnagarð, muni skapast aðstaða til þess í Landsbókasafninu að koma slíkri skráningarmiðstöð á fót. Hún gerði að vísu aukinn starfsmannafjölda safnsins nauðsynlegan, en sá lagahemill, sem verið hefur á fjölgun starfsmanna Landsbókasafns fram að þessu, yrði úr gildi numinn með samþykkt þessarar lagasetningar, og væri það í raun og veru meginþýðing samþykktar þessa frv. En það mundi opna leið til þeirra endurbóta á högum Landsbókasafns, sem ég tel brýna nauðsyn á.

Fleiri orð tel ég ekki nauðsynlegt að láta fylgja þessu frv. Það er sem sagt efnislega eins og núgildandi lög að því frátöldu, að fjárveitingavaldinu er fenginn sá réttur að ráða tölu bókavarða Landsbókasafns. Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, herra forseti, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.