21.10.1968
Neðri deild: 4. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

9. mál, Landsbókasafn Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið rætt innan ríkisstj. Svo sem hv. alþm. er kunnugt, var á sínum tíma skipuð nefnd til þess að gera till. um það, hvernig Íslendingar skyldu minnast ellefu hundruð ára afmælis byggðar í landi sínu. Sú nefnd hefur skilað till., sem hafa verið ræddar oftar en einu sinni í ríkisstj., en endanleg afstaða hefur ekki verið tekin til málsins enn. Það er alveg rétt hjá hv. þm., að segja má, að sú skylda hvíli á ríkisstj. að hafa frumkvæði um tillögugerð til Alþingis í þessu máli, og ég vona, að til þess komi, að ríkisstj. geri ákveðnar till. í þessu máli, en að sjálfsögðu verður það að lokum Alþ. sjálft, sem tekur endanlegar ákvarðanir í málinu. Ég er hv. þm. sammála um, að það má ekki dragast úr hófi fram, að endanlegar ákvarðanir verði teknar, og ég er þess persónulega mjög fýsandi, að þær verði teknar sem fyrst.