12.12.1968
Efri deild: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

99. mál, breyting á lausaskuldum iðnaðarins í föst lán

Frsm. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. til l. um 99. mál Nd. um breyt. á l. um lausaskuldir iðnaðarins í föst lán, flutt af hæstv. iðnmrh., hefur verið sent frá Nd., þar sem það var samþ. shlj. Iðnn. þessarar hv. þd. hefur á þskj. 144 mælt eindregið með, að þetta frv. nái fram að ganga.

Með lagafrv. þessu er Iðnlánasjóði heimilt að gefa út sérstakan flokk vaxtabréfa án tímatakmarka, sem fyrri lög kváðu á um. En tímatakmark þeirra skulda var, að til skuldanna hafi verið stofnað fyrir árslok 1962. Síðar var þessu nú breytt þannig, að stofnað hefði verið til skuldarinnar fyrir árslok 1963.

Lög um lausaskuldir iðnaðarins voru fyrst sett 1964 en síðan breytt 1965. Lausaskuldir iðnaðarins, sem breytt hefur verið til þessa í föst lán samkv. þessum l., eru nú um 60 milljónir og 40 þús. kr. Af því eru um 35 millj. 12 ára lán, en 25 millj. 5 ára lán. Þessi lánaflokkur var að fullu upp genginn samkv. upplýsingum frá Iðnlánasjóði í dag. Nú er gengið út frá, að lánstíminn verði 6–7 ár, og er það gert í samráði við Seðlabankann. Reiknað er með, að reglugerð, dags 10. maí 1965, verði einnig látin gilda fyrir þessum lánaflokki nú. Eins og segir í grg. fyrir frv., er þessarar heimildar óskað samkv. mjög ákveðinni beiðni frá stjórn Iðnlánasjóðs vegna sérstakra þarfa iðnaðarins nú og ítrekaðra óska iðnaðarmanna og iðnfyrirtækja um að lengja lánstíma óumsamdra lána.

Eins og hæstv. iðnmrh. tók fram, þegar hann talaði fyrir þessu frv., skapar þessi heimild ekki nýtt fjármagn til handa iðnaðinum. En hins vegar getur það létt undir með þeim fyrirtækjum, sem breyta þannig skuldum sínum, svo fremi að lánastofnanir geti t.d. fengið Seðlabankann eða ákveðna sjóði til að kaupa bréfin. Á þann eina hátt gæti þetta orðið að auknu fjármagni til handa iðnaðinum.

Bréfin bera að sjálfsögðu hæstu, leyfilegu fasteignavexti, sem nú eru 10%, og mætti ætla, eins og nú háttar til með atvinnu, að t.d. Atvinnuleysistryggingarsjóður ætti að aðstoða með kaup á verulegum hluta af þessum bréfum.

Hæstv. iðnmrh. upplýsti einnig í framsögu, að nokkur vanskil væru nú þegar orðin á þeim lausaskuldalánum, sem þegar hafa verið gefin út. Nemur sú vanskilaupphæð nú yfir 8 milljónum króna, og má búast við, eins og högum iðnaðarins er háttað, að eitthvað af þeirri upphæð lendi á lðnlánasjóði að greiða til bráðabirgða af öðru ráðstöfunarfé sjóðsins. Þarf ekki að lýsa, hversu margar iðngreinar hafa átt í miklum erfiðleikum undanfarið og margar verið reknar með stórtapi, þannig að eðlilega hafa safnazt fyrir miklar, óumsamdar skuldir hjá slíkum aðilum. Rekstri slíkra fyrirtækja, þótt þau að öðru leyti séu vel stæð, verður ekki haldið áfram nema með margs konar ráðstöfunum, sem einmitt verður að gera nú sem allra skjótast, einmitt nú, þegar rétt gengi hefur verið skráð og hugsanlegt er, að þeir sömu aðilar geti aukið framleiðslu sína, m.a. með því að hefja nú loks útflutning á iðnaðarvarningi.

Í þessu sambandi er sérstök ástæða til að gleðjast yfir yfirlýsingu, sem hæstv. forsrh. gaf í umr. í Sþ. í gær, að nú væri nauðsynlegt, að iðnaðurinn fái fjármagn til reksturs síns, þannig að hann geti notað sér tækifæri þau, sem nú gefast. Þetta er sannarlega mál málanna í dag, og á þann eina veg verður bjargað við þeirri atvinnuleysisvofu, sem við blasir.

Þetta lagafrv. er aðeins byrjun á því, sem koma þarf. Það er staðreynd, að fjármagnsaukning til handa iðnaðinum verður nú að nálgast 500 milljónir á næstu tveimur mánuðum. Og áframhald verður að fást fljótlega á næsta ári, takist iðnaðinum að hasla sér völl á erlendum markaði og viðhalda fullri atvinnu í landinu. Ef hæstv. þm. blöskrar þessi upphæð, má snúa henni yfir í dollara, en hér er aðeins um 5–6 millj. dollara að ræða.

Ég vænti, að hv. þdm. geti verið sammála um að samþykkja þessa beiðni um útgáfu lausaskuldabréfa.