10.03.1969
Neðri deild: 62. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

128. mál, fiskveiðar í landhelgi

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur verið afgr. með shlj. atkv. frá hv. Ed., og er nú hér til 1. umr. Frv. þessa efnis er ekki nýtt af nálinni, það var nánast samhljóða frv., sem samþ. var hér á þingi 13. maí 1966, en þau lög voru tímabundin og eru nú úr gildi fallin, eða þær heimildir til undanþágu, sem þær veittu. Efni þessa frv. hefur um alllangt skeið verið ákaflega viðkvæmt umræðuefni meðal okkar Íslendinga, en hefur nú tekið á sig breytta mynd og mönnum hrýs nú ekki lengur hugur við því og óttast það ekki, að erlendum skipum sé veitt heimild til þess að mega landa afla hér heima, og af því er þegar fengin nokkur reynsla. Þessi reynsla bendir ótvírætt í þá átt, sem hlutaðeigandi samtök í sjávarútvegi hafa bent á, að nauðsynlegt sé, að fyrir hendi sé slík heimild, og ekki hvað sízt þegar hliðsjón er af því höfð, að okkar skip hafa í vaxandi mæli landað erlendis, en við ekki getað boðið upp á jafnréttisaðstöðu hér. Framgangur þessa frv. mundi því tvímælalaust bæta hag okkar og aðstöðu, til þess að áframhaldandi landanir erlendis geti átt sér stað, en með stækkandi fiskveiðiflota hefur reynzt mögulegt að stunda fiskimið svo fjarri landinu, að vart hefur verið mögulegt að flytja aflann heim, að minnsta kosti án þess að hafa hann því betur ísvarinn.

Ég tel ekki nauðsyn á, herra forseti, að skýra frv. þetta öllu frekar, nema sérstakt tilefni gefist til, en legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.