10.03.1969
Neðri deild: 62. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (880)

128. mál, fiskveiðar í landhelgi

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mér sýnist, að sú grg., sem fylgir þessu frv., segi mjög lítið um það í sjálfu sér, hvað til stendur að gera í þeim efnum, sem þetta frv. fjallar um, annað en aðeins það, að ráðherra sé veitt heimild til þess að víkja frá þeim reglum, sem verið hafa í gildi hjá okkur um langan tíma, um það að banna erlendum veiðiskipum að landa afla sínum hér innanlands.

Ég hef þó tekið eftir því, að í grg. er aðeins minnzt á það, að nú í seinni tíð hafi það aukizt, að íslenzk fiskiskip sæki eftir að fá að landa afla sínum erlendis og við því megi búast, að það gæti orðið auðveldara að fá löndunarrétt handa þeim erlendis, ef við heimiluðum erlendum skipum löndunarrétt hér. Nú er það svo, að þetta hefur lengi verið mjög viðkvæmt mál hér á landi, og þó að enginn vafi sé á því, að hér séu orðnar á talsverðar breytingar frá því, sem áður var, þá er ég enn á þeirri skoðun, að það beri að fara mjög varlega í þessum efnum. Við skulum hafa það fyllilega í huga, að þetta bann hefur haldizt hér í gildi í langan tíma, alveg sérstaklega í þeim tilgangi, að við höfum hreinlega ætlað okkur að gera útlendingum heldur erfitt að stunda sínar veiðar hér á okkar miðum. Ég held t.d., að það kæmi ekki til mála, eins og ástatt er í þessum efnum, að við færum að taka upp þá reglu, að heimila erlendum togveiðiskipum, sem veiðar stunda hér við Ísland, rétt til þess að landa afla sínum hér, þótt enginn vafi sé á því, að það séu til margar fiskvinnslustöðvar í landinu, sem mundu gjarnan óska eftir því að fá afla þeirra til vinnslu. Það er enginn vafi á því, að ef slík regla yrði tekin upp, mundi það auka veiðar útlendinga með botnvörpu hér við land allverulega frá því sem nú er. En það tel ég síður en svo okkur til hagsbóta.

En í ýmsum tilvikum gæti þó vissulega komið til greina að heimila erlendum skipum að landa afla sínum hér, og af þeim sökum er ég ekki andvígur því, að ráðherra fái heimild í þessum efnum. En þá er líka eðlilegt, um leið og ráðherrann fær slíka heimild, ótakmarkaða heimild í sjálfu sér, að þá liggi það fyrir um leið, hvað vakir einkum fyrir mönnum að gera í þessum efnum. Hvað er það, sem stendur til að gera? Ég veitti því athygli, að um það var t.d. skrifað í norsk blöð nú á s.l. hausti, að það stæði til að gera hér breytingar í þessum efnum til að greiða hér fyrir löndunarrétti norskra skipa, og sendiráð Íslands í Noregi var borið fyrir fregninni; að nú væri unnið að því af íslenzkum stjórnarvöldum að greiða hér fyrir norskum skipum með löndunarrétt við Ísland, og þetta var sett í samband við óskir íslenzkra skipa um það að fá að landa sínum afla í Noregi. Nú vildi ég spyrja hæstv. sjútvmrh. um það í tilefni af þessu: Hafa einhverjar samningaviðræður átt sér stað á milli íslenzkra og t.d. norskra stjórnvalda um þannig gagnkvæman rétt til löndunar á fiskafla, eða hefur sjútvmrn. í huga einhverjar tilteknar tilslakanir frá þeim reglum, sem gilt hafa um þetta að undanförnu og hvað er það þá, sem menn hafa einkum í huga? Kæmi það t.d. til mála, að áliti ráðherra, að heimila erlendum botnvörpuskipum að landa afla sínum hér á landi, samkvæmt þessari heimild?

Það er sem sagt þetta atriði, sem ég vil leggja mikla áherzlu á, að menn gleymi því ekki, að þessi ákvæði okkar voru ekki í lögum eingöngu út frá því sjónarmiði, að við ættum erfitt með að selja þann afla, sem á land bærist hér af okkar flota. Þannig var ástatt í eina tíð, en þessi ákvæði hafa haldizt í lögum fyrst og fremst út frá því sjónarmiði, að við vildum ekki greiða götu erlendra. aðila til þess að stunda veiðar hér á okkar miðum. Það hefur verið eitt aðalatriðið og þegar upp hafa komið óskir um þetta, þá hefur venjulega farið svo, að íslenzkir skipstjórnarmenn hafa mótmælt því, að hinum erlendu aðilum yrðu heimiluð þessi réttindi, vegna þess að þeir hafa óttazt samkeppnina hér á miðunum. En þrátt fyrir þetta vil ég lýsa því sem minni skoðun, að ég tel, að það komi fyllilega til greina, að sjútvmrn. hafi heimildir í þessa átt, og veiti hér nokkra tilslökun frá þeim reglum, sem gilt hafa um þetta, en þær hafa verið mjög stífar. Ég held, að eigi að síður þurfi það að liggja fyrir, að menn ætli sér að fara áfram mjög varlega með þessar heimildir, og það liggi alveg ljóst fyrir, að minnsta kosti gagnvart erlendum togveiðiskipum, að það er ekkí ætlunin að fara að greiða götu þeirra til þess að fiska meira en þau gera hér við land, með því að taka af þeim aflann. Það er t.d. enginn vafi á því, að enskir togarar, sem mikið stunda fiskveiðar hér við landið, mundu sækja eftir því að losa sig við misheppnaða aflatúra, þegar svo stendur á veðri, og geta hafið veiðar á ný, ef þeir ættu þess kost að selja aflann hér.

Það er auðvitað eitt atriði, sem gerir þetta tiltölulega ólíklegt eins og nú standa sakir, að útlendingarnir sæki eftir þessum leyfum, en það er það fiskverð, sem er gildandi hér á landi. Það er svo óhagstætt, að flestir útlendingar mundu veigra sér við því að selja afla sinn hér, á því fiskverði sem hér gildir, eins og nú standa sakir, en auðvitað verðum við að reikna með því, að slíkt standi ekki um mjög langan tíma, heldur hljóti fiskverð að geta verið nokkuð svipað því, sem þekkist í nágrannalöndum okkar.

En ég vildi sem sagt vænta þess, að nú þegar við þessa 1. umr., þá hefði hæstv. sjútvmrh. séð sér fært að svara þessum spurningum mínum, sem ég hef hér sett fram, um það hvað fyrirhugað sé að gera í þessum efnum og hvað hafi þegar verið gert varðandi þetta mál.