17.03.1969
Efri deild: 59. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

177. mál, breytingar á lausaskuldum bænda í föst lán

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil í nokkrum orðum gera grein fyrir því, hver forsaga þessa máls er, því að mér fannst það ekki koma nægilega greinilega fram í ræðu hæstv. ráðh., enda þótt hann gerði því máli nokkur skil.

Það var á framhaldsaðalfundi Stéttarsambands bænda fyrir árið 1966, að fram kom till., þar sem stjórn Stéttarsambandsins var falið að láta athuga um skuldir bænda, sem þá þegar, fyrir rúmum tveimur árum, þóttu ískyggilega háar. Og á aðalfundi Stéttarsambandsins sumarið 1967 lágu fyrir nokkrar upplýsingar, sem unnið var úr samkv. landbúnaðarúrtaki Hagstofu Íslands og náði þetta til 467 bænda og reyndist meðalskuldin samkv. því úrtaki vera kr. 266 þús., en ef ég hef tekið rétt eftir því hjá hæstv. ráðh. áðan, gat hann þess, að meðalskuld á bónda samkv. því, sem harðærisnefnd hefur reiknað út, væri 262 þús. kr. Þarna er ekki um mjög ólíkar tölur að ræða, en sjálfsagt er mikið réttari sú tala, sem hæstv. ráðh. gat um, enda byggð á víðtækari rannsókn.

Stéttarsambandsfundarmönnum þótti, að fengnum þessum upplýsingum, nauðsynlegt að fela stjórn sambandsins að vinna að þessu máli og samþykkti eftirfarandi till., með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna þeirra erfiðleika, sem lausaskuldir valda mörgum bændum, vill aðalfundur Stéttarsambands bænda 1967 beina því til stjórnar sambandsins að vinna að því, að skuldum þessum verði breytt í föst lán með hagkvæmum kjörum.“

Þá vil ég líka minna á það, að við framsóknarmenn hér í þessari hv. d. fluttum fyrir ári síðan frv. um það að breyta lausaskuldum bænda í föst lán. Það frv. var aldrei afgreitt og fluttum við að nýju hliðstætt frv. í vetur og liggur það hér fyrir hv. þd. óafgreitt í d. og einnig óafgreitt frá landbn. Ég vil geta þess, að það hefði alveg eins verið hægt fyrir hæstv. landbrh. að gera á því frv. breytingar. En til þess að þurfa þess ekki, flytur hæstv. ráðh. þetta frv., sem nú er til umr., og ef að vanda lætur, verður það afgreitt óbreytt eins og önnur frv., sem viðreisnarstjórnin ber fram, hvernig sem þau eru annars í pottinn búin. Grg. frv. þessa er mjög fátækleg. Það er engu líkara en flutt sé mál, sem engin rök séu til fyrir. Hæstv. landbrh. upplýsti hér í ræðu sinni, að nefnd hefði unnið að máli þessu og hún hefði skilað ítarlegu áliti. En hvernig stendur á því, að alþm. gefst ekki kostur á því að fá að kynna sér nál. harðærisnefndar og kynna sér þau gögn, sem liggja máli þessi til stuðnings? Eða á þetta kannske að vera einkaplagg eða leyniplagg hæstv. landbrh.? Ég vil geta þess, að hér er hafður á allt annar háttur en varðandi önnur mál, þar sem hefur farið fram opinber rannsókn. Ráðh. gat þess í ræðu sinni, að harðærisnefnd hefði verið falið af ríkisstj. að fjalla um þessi mál, og kynna sér efnahag bænda til hlítar. Þar af leiðir, að þessi nefnd er opinber og starfar á vegum þess opinbera, og ég held, að það sé afar hæpið að ætla sér að leyna einu eða neinu, sem nefndin hefur fjallað um, og því lægi það beinast við, að nál. eða grg. harðærisnefndarinnar hefði verið birt með því frv., sem hér liggur fyrir, og þingheimi gefinn kostur á að kynna sér allt það, sem þar stendur. Og vildi ég spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort hann hugsi sér ekki að láta prenta grg. nefndarinnar og leggja þá grg. hér fyrir hv. Alþingi, því að mér finnst annað ekki við eiga í þessum efnum, enda mun það yfirleitt vera venja, þegar um slík mál er að ræða sem þessi.

Það er getið um það í þeirri stuttu grg., sem fylgir þessu frv., að iðnfyrirtækjum og fyrirtækjum, sem stunda útgerð fiskiskipa og fiskvinnslu, hafi verið gefinn kostur þess að breyta lausaskuldum sínum í föst lán. Þetta gefur það til kynna, að atvinnuvegirnir eiga í miklum erfiðleikum, samhliða því að atvinnuleysi á þessum vetri hefur ógnað fjölda manns. Stefna viðreisnarinnar hefur leitt til hruns í efnahagsmálum þjóðarinnar. Í annað sinn á 7 árum verður hæstv. landbrh. að viðurkenna með lagasetningu, hversu fráleit og óraunhæf viðreisnarstefnan hefur reynzt íslenzkum landbúnaði. Til þess hefur ekki komið áður, að grípa hafi þurft til lagasetningar um að breyta lausaskuldum bænda í föst lán með svo stuttu millibili, sem raun ber nú vitni. Orsakanna er að sjálfsögðu allvíða að leita, og vil ég nefna það, sem ég tel, að séu höfuðþættirnir, og er þess getið í grg. þess frv., sem við framsóknarmenn fluttum í vetur og er 58. mál hv. Alþ. En þar eru upp talin helztu atriðin, og vil ég telja þau upp hér:

1. Framkvæmdir allar og vélvæðing krefjast mikils fjármagns, enda hefur dýrtíðin farið ört vaxandi hin síðari ár.

2. Stofnlán landbúnaðarins hafa ekki hækkað í hlutfalli við stofnkostnaðinn.

3. Lánstími stofnlána er allt of stuttur, enda styttri nú en áður nema á lánum til íbúðarhúsabygginga. Lán eru nú til 15 ára út á járnvarðar timburbyggingar, t.d. hlöður, fjárhús og fjós, en til 20 ára út á steyptar byggingar óg ræktun, en aðeins til 5 ára, þegar um vélvæðingu er að ræða.

4. Vaxtakjör Stofnlánadeildar landbúnaðarins eru miklu lakari nú en áður eða 6% til íbúðarhúsa, en voru áður 31/2%. Til allra annarra lána deildarinnar eru 61/2% í vexti, en voru áður 4%. Eða m.ö.o., vaxtahækkun hefur orðið á þessum lánum milli 60 og 70%.

5. Lagður hefur verið sérskattur á bændur og rýrir það til muna tekjur þeirra, en tryggir þeim ekki lán sem skyldi, eins og þeim var heitið, þegar skatturinn var á þá lagður.

6. Ungt fólk eða byrjendur í búskap fá hvergi lán til bústofns- eða vélakaupa.

7. Þótt óðaverðbólga hafi ríkt síðan 1959, hafa rekstrarlán landbúnaðarins ekki hækkað neitt.

8, Veðdeild Búnaðarbankans hefur allt of lítið fjármagn til umráða og vextir hennar ekki hagstæðir, þar sem þeir eru 8%.

9. Verðlag búvara er allt of lágt og þar með komið úr samhengi við annað verðlag í landinu og þarfir landbúnaðarins.

10. Ræktaða landið er of lítið til þess að veita nægilegan heyforða fyrir það búfé, sem fyrir er í landinu.

11. Grasbrestur veldur því, að fóðurbætisnotkun

hefur orðið talsvert meiri heldur en hún var þá árin á undan.

Hæstv. ráðh. gat þess hér í ræðu sinni áðan, og mér skildist það á honum, að lausaskuldirnar stöfuðu einkum af því, að heimilin hefðu veitt sér meira en áður, þau hefðu veitt sér bifreiðar og alls konar heimilistæki og tæki aftan í aflvélar og annað því um líkt og frá því stöfuðu aðallausaskuldirnar. Og því skal ég ekki neita, að að sjálfsögðu hefur það sínar orsakir í lausaskuldasöfnuninni, þó að ég telji, að margt annað hafi ráðið þar meira um heldur en þau þægindi, sem nokkrir bændur í landinu, en alls ekki allir, hafa getað veitt sér á undanförnum árum. Enda hefur nú hæstv. ríkisstj. séð fyrir því nú, að það er vart nokkur maður, sem getur keypt sér neitt tæki, hvorki bifreið eða annað. Því að svo hátt verð er á þessum hlutum, að fæstir munu geta það sér veitt, eins og ástatt er nú. Landbúnaðurinn og afkoma hans eru að sjálfsögðu mikið háð kaupgetu fólksins í landinu. En eins og nú er komið, verða flestir að spara allt, sem þeir geta, sakir þess að sumir hafa enga atvinnu og aðrir lítið fyrir vinnu sína. Lifnaðarhættir fólksins hafa því breytzt mikið, en í heimi frjálsra viðskipta er sultarólin eini réttláti skömmtunarstjórinn að dómi þeirra manna, sem tileinka sér að nafni til frjáls viðskipti í landinu. Og það kann að skapa eilífðarfjárhagsvandræði nema rétt fjórða hvert ár, þegar stjórnarliðarnir sjá sér ekki annað fært en framfylgja stjórnarskránni og láta ganga til kosninga. En þá hefur í það minnsta að undanförnu hjá þeim, sem nú ráða ríkjum hér á landi, verið breitt yfir örðugleikana í bili með erlendum lántökum og myndaðir gjaldeyrissjóðir, sem gufa upp skömmu eftir kosningar. Síðan verður að framfylgja formúlu viðreisnarinnar, fella gengi krónunnar, hækka skattana og taka ný, erlend lán. Þetta hefur verið gangur málanna undanfarandi ár hjá þeirri hæstv: ríkisstj., sem hér ræður ríkjum.

Varðandi erlendu lánin og landbúnaðinn vil ég minna á tvennt. Það er Stofnlánadeild landbúnaðarins og Áburðarsala ríkisins. En áður en ég kem að því, vil ég aðeins minna á umsagnir tveggja hæstv. ráðh., sem þeir létu frá sér fara, þegar verið var að breyta lögum Búnaðarbankans eða stofna til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Þá sagði þáv. bankastjóri Búnaðarbankans, núv. hæstv. fjmrh., með leyfi forseta:

„Með því frv., sem hér liggur fyrir, er leyst til frambúðar lánsfjárvandamál landbúnaðarins til stofnlána. Ég vil ákveðið halda því fram, að með þessu frv. hafi verið efnt það fyrirheit að tryggja öryggi stofnlánasjóðanna, fullkomlega efnt það fyrirheit.“

Þetta sagði hæstv. fjmrh. En hæstv. landbrh. sagði við sömu umr.:

„Sannleikurinn er sá, að yfirleitt eru heimildir til að lána til allra þeirra hluta, sem líklegt er, að þurfi að lána til á næstu árum í landbúnaði. Hin stóra breyting er hins vegar sú, að með þessu frv. er lagður grundvöllur að því, að þessar heimildir geti orðið að veruleika.“

Hvernig stendur þá á því, að þessar heimildir hafa ekki orðið að veruleika? Þessi stóra breyting, sem ráðh. talar um, hefur ekki orðið að veruleika. Ekki er þar því um að kenna, að aðrir hafi komið að stjórn landsins en þeir, sem undirbjuggu þessa löggjöf. Þar er ekki öðrum um að kenna. Þessir sömu hæstv. ráðh., sem þetta sögðu og undirbjuggu löggjöfina, hafa haft sinn tíma til að sýna, hvað í löggjöfinni fólst og sömuleiðis hvað þeir gátu.

Hin stóra breyting hefur ekki orðið að veruleika. Þar er að sjálfsögðu margt, sem kemur til greina, en ekki sízt sú óðaverðbólga, sem ráðið hefur og ríkt hefur í landinu undir stjórn viðreisnarinnar. Ég gat þess, að erlendar lántökur þjökuðu þjóðina. Stofnlánadeild

landbúnaðarins hefur sína sögu að segja í þessum efnum, þar sem erlend lán deildarinnar voru við síðustu áramót 359 millj. kr., og hækkuðu þessar skuldir allmikið við gengisfellingarnar 1967 og ekki síður 1968. Og gengistap deildarinnar árið 1968 nam 127 millj. kr., en þar af færast 50 millj. kr. á lántakendur, sem hafa gengistryggð lán. Það eru þeir, sem hafa verið að byggja sláturhús, koma upp mjólkurbúum og kaupa vélar til ræktunar o.fl. Reksturshagnaður Stofnlánadeildarinnar var 1968 37 millj. kr.,svo að ekki brúar reksturshagnaðurinn þetta bil. Það vantar því tæpar 40 millj. kr., sem takast af varasjóði deildarinnar, enda minnkaði hann úr 124 millj. kr. niður í 85 millj. kr., sem hann er í við síðustu áramót, þannig að með sama framhaldi og undir sömu stjórn verður þessi deild, sem ráðh. trúðu á fyrir nokkrum árum síðan, gjaldþrota með öllu. Þannig var uppbyggingin á þessu sviði og þannig hefur farið um uppbyggingu í landinu á fjölmörgum öðrum sviðum.

Á sama tíma og gengisfellingarnar láta varasjóðina fara í sjálfa sig hjá stofnlánadeildinni, taka gengisfellingarnar líka til sín allan arð, sem annars kynni að verða hjá þeim fyrirtækjum, sem hafa orðið að taka erlendu lánin. Þessi mál voru rædd á búnaðarþingi, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa ályktanir þingsins, sem samþ. voru þar með shlj. atkv.:

„Búnaðarþing telur algerlega óviðunandi þá þróun, sem orðið hefur hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins, þar sem sífelld gengistöp hafa rýrt hag deildarinnar það mikið, að fyrirsjáanlegt er, að hún getur ekki sinnt hlutverki sínu nú eða í náinni framtíð nema til komi sérstök fyrirgreiðsla. Fyrir því beinir þingið þeirri eindregnu áskorun til landbrh. að hlutast til um, að gerðar verði eftirfarandi ráðstafanir:

1. Ríkissjóður greiði gengistöp Stofnlánadeildar landbúnaðarins vegna gengislækkananna 1967 og 1968.

2. Ríkisstj. útvegi Stofnlánadeild landbúnaðarins innlent fjármagn til þess, að deildin geti sinnt hlutverki sínu nú og framvegis á viðunandi hátt. Takist ekki að útvega nægjanlegt innlent fjármagn, svo að deildin neyðist til að taka erlent lán, taki ríkissjóður á sig alla gengisáhættu, sem slíkum lánum fylgir.

3. Stofnlánadeild lengi lánstíma á lánum þeim, sem vinnslustöðvum landbúnaðarins, ræktunarsamböndum o.fl. hafa verið veitt með gengisáhættu, sem nemi því, að árlegar afborganir af lánum þeirra verði ekki hærri en ákveðið var, þegar lánin voru veitt.

4. Hafi Stofnlánadeild landbúnaðarins ekki nægjanlegt innlent lánsfé til þess að mæta eftirspurn, verði árlega gerð áætlun um, til hverra framkvæmda lánsfénu skuli varið. Við gerð á þeirri áætlun sé haft fullt samráð við Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands og þær framkvæmdir gangi fyrir með lánsfé, sem mesta þýðingu hafa fyrir landbúnaðinn.“

Þetta voru ályktanir búnaðarþings og þær voru samþ. þar með atkv. allra þeirra, sem þingið sátu. Þar komust engin sérsjónarmið að. Þar voru bændurnir allir einhuga í sínum ályktunum.

Þá vil ég einnig minna á annað mál í sambandi við erlendar lántökur, en það er hjá Áburðarsölu ríkisins, erlent rekstrarlán, sem tekið var s.l. vor og var ekki borgað fyrr en eftir gengisfellingu í nóvembermánuði s.l. En sem kunnugt er, er áburðarsalan ríkisfyrirtæki. Það er líka kunnugt, að það er óheimilt að hækka í verði vörur, sem til eru og tollafgreiddar, áður en gengi krónunnar er breytt. Því er ráðstöfun sú, sem ríkisstj. lætur Seðlabankann gera varðandi lán til Áburðarsölu ríkisins, ekki á rökum reist. En Áburðarsala ríkisins mun hafa tekið 44 millj. kr. lán með 91/2% vöxtum til 5 ára og sá böggull fylgir skammrifi þessu, að bændurnir eiga að borga þetta lán upp með áburðarverðinu á næstu 5 árum, þ.e.a.s. á árinu 1969 til og með árinu 1973. Mér finnst, að hér gildi aðrar viðskiptareglur en almennt í landinu, þar sem óheimilt er að hækka í verði vöru, sem komin er til landsins og tollafgreidd, áður en gengi krónunnar er breytt, því að hér eiga bændur samkv. þessu einir að taka á sig stjórnleysi ríkisstj. á þessu sviði, samhliða því sem talið er, að áburðarverð hækki um 40% á næsta vori. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa hér ályktun búnaðarþings í þessum efnum, því að ég tel, að það sé gott, að Alþ. viti, hvaða skoðun bændur landsins hafa á þessum málum:

„1. Búnaðarþing ályktar, að ríkissjóði beri skylda til að greiða Áburðarsölu ríkisins að fullu það tjón, sem hún varð fyrir vegna gengistaps í nóvember 1968 á erlendum rekstrarlánum.

2. Búnaðarþing beinir þeim tilmælum til landbrh. að vinna að því við ríkisstj. og Alþingi, að ríkissjóður greiði niður alla verðhækkun, sem verða kann á þessu ári á tilbúnum áburði.“

Það var að sönnu satt, sem formaður Búnaðarfélags Íslands, Þorsteinn Sigurðsson, sagði, þegar hann setti búnaðarþing í vetur: „Bændum er skákað á erlendan lánamarkað með gengisföll yfir höfði.“ Því að svo sannarlega hefur bændastétt landsins nú meira en nokkru sinni áður orðið að þreifa á hvers konar baggi er á hana lagður, þegar um erlendar lántökur er að ræða. En ég vil geta þess, að Ísland mun vera eina landið í Vestur-Evrópu, þar sem áburðarverð hefur hækkað svo nokkru nemi síðasta áratuginn og jafnvel síðustu tvo áratugina. Því að flestar ríkisstj. sjá sóma sinn í því að halda niðri verðlagi á aðalrekstrarvörum eins og t.d. á áburði til landbúnaðarins. En hér er þessu öðru vísi farið, eins og alkunnugt er.

Ég gat um það áðan, að orsakir lausaskuldanna væru margar, þótt dýrtíðin og stjórnleysið í þjóðmálum valdi þar mestu um. Þaulkunnugir menn í sölumálum og verðlagsmálum landbúnaðarins telja, að það verði á yfirstandandi verðlagsári að flytja út allt að því helming af kjötframleiðslunni, vegna þess að innanlandsneyzlan hafi dregizt svo mikið saman, en það merkir, að kaupgeta fólksins hafi minnkað svo mikið. Höfuðatriðið er fyrir landbúnaðinn í landinu, að kaupgetan haldist nokkurn veginn uppi, svo að fólkið geti veitt sér til hnífs og skeiðar, það sem nauðsynlegt er. Útflutningur landbúnaðarvara hefur ekki reynzt bændum hagstæður fram yfir það, sem útflutningsuppbætur hafa náð að verðbæta hverju sinni. En eins og nú horfir, kemur bændur til með að vanta upp á grundvallarverð síðustu ára um 120 millj. kr. En þetta er hærri upphæð en svo, að bændur þoli að missa hana úr aski sínum bótalaust, samhliða því að stórhækkanir eru fram undan á öllum sviðum.

Eftirtektarverður kafli er í Handbók bænda, þar sem forstöðumaður Búreikningaskrifstofu landbúnaðarins gerir grein fyrir búreikningum frá rúmlega 60 bændum fyrir árið 1967. Þar kemst hann að þeirri niðurstöðu að bændur og búalið hafi haft 27.40 kr. fyrir unna stund í landbúnaði. Ég vil nú spyrja hæstv. ráðh., hvort honum sé kunnugt um það, að nokkur maður í landinu eða nokkur atvinnustétt í landinu búi við lægra kaupgjald heldur en landbúnaðurinn eða nokkur, sem komi þar í námunda við. Og þessir búreikningar sýna það enn fremur, að nettó árstekjur þessara bænda hafa verið 123 þús. 903 kr. yfir árið. Og meðalbústærð þar sem búreikningarnir ná til eru 436.39 ærgildi og er það nokkru meira heldur en bústærð almennt er í landinu á sama tíma. Niðurstöður búreikninganna eru líka mjög svipaðar og niðurstöður úrtaks frá Hagstofu Íslands, sem verðlagsgrundvöllurinn hefur verið jafnan byggður á. En samkv. því úrtaki höfðu bændur í laun árið 1967 93.425 kr. eða 105 þús. kr. minna en þeim bar að hafa samkv. þeim verðlagsgrundvelli, sem á þá var dæmdur. Og er það allra manna mál, að þar hafi verið mjög illa á málum bænda haldið, þegar sá verðgrundvöllur var á þá dæmdur. En þó er útkoman sú, að þeir ná ekki helmingi þeirra launa, sem þeim bar að hafa samkv. þeim verðlagsgrundvelli. Það sýndi sig líka, að kaup þeirra viðmiðunarstétta, sem kaupgjald bænda var miðað við, reyndist 228 þús. kr. eða 130 þús. kr. hærra en bændur fengu út úr verðlagsgrundvellinum. Það gefur anga leið, að hér er ekki allt með felldu. Og þess vegna þarf að endurskoða þá löggjöf, sem bændur búa við, og tryggja þeim lífskjör á við aðra þegna þjóðfélagsins, vegna þess að bilið hefur breikkað með hverju ári, sem hefur liðið, í þessum efnum undir stjórn viðreisnarinnar.

Ég hef, herra forseti, gert hér að umræðuefni veigamikil atriði, sem valda ásamt ýmsu fleira þeirri lausaskuldasöfnun bænda, sem hér er verið að ræða um. Ég vil að lokum minna á þá þætti í frv. okkar framsóknarmanna um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán, þar sem það frv. gengur lengra og nær til fleiri aðila en frv. það, sem hér um ræðir frá hæstv. ríkisstj. En það er í fimm atriðum, sem okkar frv. gengur lengra og kemur betur til móts við bændastéttina en það frv., sem hér liggur fyrir.

1. Að lögin nái einnig til lausaskulda hjá fyrirtækjum bænda og taki yfir allt tímabilið frá 1960 og til ársloka '68.

2. Að vextir verði ekki hærri en 61/2%, en mig minnir, að vaxtakjör síðast þegar lausaskuldum var breytt í föst lán, hafi verið 8%. Það er að vísu ekki tekið fram í því frv., sem hér liggur fyrir vegna þess, að þar hygg ég, að ráðh. eigi að segja sitt um. Og ef að vanda lætur, verða vextir varla undir 8%.

3. Einnig verði tekið veð í vélum bænda og vinnslustöðvum landbúnaðarins.

4. Heildarlán megi vera 80% af matsverði því, sem dómkvaddir menn meta hlutaðeigandi eignir lántakenda á; en í frv. því, sem hér liggur fyrir, mun það vera 75%, sem skuldirnar mega nema að mati dómkvaddra manna á fasteignum, og ég hygg, að það sé 5% hærra heldur en það var samkv. frv. eða lögum frá 1962.

5. Síðast en ekki sízt. Að Seðlabankinn kaupi bankavaxtabréfin á nafnverði. Ég tel það vera höfuðatriði, að sparisjóðum, útibúum banka og verzlunum, sem taka bankavaxtabréfin, verði með lögum tryggt að losna við þau. En í frv. þessu er ekki gert ráð fyrir, að svo verði og tel ég það vera algerlega fráleitt, ekki sízt þegar það er haft í huga, að skuldirnar eru miklu hærri nú en 1962 og í öðru lagi allar horfur á, að sparifjáraukning verði ekki mikil á næstu árum og útilokað, held ég, að hún geti orðið jafnmikil og hún varð fyrst á eftir árinu 1962 og fram til 1967. Það er því lágmarkskrafa, að þeim stofnunum, sem taka bréfin upp í skuldir, verði gert kleift að losna við þau, bæði upp í bindifé til Seðlabanka og upp í vexti og afborganir lána til Stofnlánadeildar Búnaðarbankans og auk þess verði Seðlabankanum gert að skyldu að kaupa bréf þar sem á þarf að halda. Það má hafa það með ýmsum hætti á vissu árabili eða á lengri eða skemmri tíma, eftir því sem henta þykir í þeim efnum. En ég tel þetta frv. ekki fullkomið, fyrr en frá þeim málum verði gengið, að fyrir þeim stofnunum, sem verða að taka bréfin, verði greitt með einhverjum hætti að losna við þau að nýju.

Þá minntist hæstv. landbrh. á það í ræðu sinni, að hjá 8.6% af bændum landsins, eða 412 bændum væri skuld þeirra meira en áttfaldar nettótekjur, ef ég hef tekið rétt eftir. (Gripið fram í: Sjöfaldar.) Sjöfaldar? Jæja. Það væri 8.6%, eða 412 bændur. Þetta er allstór hópur. En það stendur ekkert um það, hvorki í grg. né annars staðar, hvernig eigi með þessa bændur að fara. Ég játa það, að við höfum ekki heldur í okkar frv., framsóknarmenn, sagt neitt um það, hvernig með þessa bændur skuli farið, en hins vegar kemur það glögglega fram í frv. okkar, að við teljum, að þegar fyrir liggi, hvernig efnahagur bænda sé, verði að gera sérstakar ráðstafanir fyrir þá bændur, sem verst eru settir í landinu. Og mér fannst það nú liggja í orðunum hjá hæstv. ráðh., þó að hann segði það ekki, að hann hugsaði sér, að einhverjar sérstakar ráðstafanir yrðu gerðar til þess að greiða úr fyrir þessum bændum, þegar sýnt væri, hver margir gætu fallið undir lausaskuldalánin, sem að sjálfsögðu verða margir bændur, en því miður ekki allir, og kemur þar margt til, bæði það, að þessir aðilar hafa ekki miklar eignir, og því er það, að þeir geta ekki fallið undir lausaskuldalánin, þar sem heildarlán mega ekki vera nema 9% á móti fasteign, sem hlutaðeigandi aðili annaðhvort á eða hefur til umráða. Það væri því gott að vita, hvað hæstv. ráðh., hugsar sér að gera við þessa bændur, hverjar ráðstafanir hann hyggst gera. Ég tel ekki fráleitt, að fram fari almenn skuldaskil hjá þeim, sem verst eru settir, því að slíkt mun eiga sér stað bæði hjá þeim, sem hafa iðnfyrirtæki, og sömuleiðis í sjávarútvegi. Og þessir þættir verða að athugast allir vel, svo að þær ráðstafanir, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, komi að tilsettum notum.

Það er óþarfi að taka það fram, að við framsóknarmenn fylgjum frv. þessu, en munum að sjálfsögðu bera fram brtt. og freista þess, að frv. verði fullkomnara og betur úr garði gert en það nú liggur fyrir, svo að hægt verði að koma fyrir á raunsæjan hátt þeim skuldabagga, sem bændur landsins búa við nú í dag og myndazt hefur á allra síðustu árum, enda þótt lengst af þeim tíma hafi verið góðæri og velmegun í landinu. Ég tel það ekki nóg, að lausaskuldum bænda sé breytt í föst lán, án þess að um leið sé reynt að tryggja það, að það komi ekki til jafnmikillar skuldasöfnunar á jafnskömmum tíma á næstu árum, eins og verið hefur undanfarin ár. Því er það, að í kjölfar breytinga lausaskulda í föst lán þarf að gera ýmsar aðrar ráðstafanir, sem eiga að tryggja bændum betri lífskjör og viðunandi lífskjör í framtíðinni, og þar á ég við, að það þarf að tryggja þeim það, að þeir fái betra verð fyrir sínar afurðir, að þeir beri meira úr býtum fyrir búskapinn en þeir hafa gert á undanförnum árum. Og það þarf líka að greiða á margvíslegan hátt fyrir fyrirtækjum bænda og það þarf að gerbreyta því lánakerfi, sem nú ríkir hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins, og koma því í það horf, sem hæstv. ráðh. vildi vera láta, þegar hann var að koma Stofnlánadeildinni á. Ég tel, að hann sé búinn að fá þá reynslu nú, að honum eigi að vera í lófa lagið að finna veilurnar í löggjöfinni og þess vegna geta lagfært hana áður en mörg ár líða, svo að bændur þurfi ekki að bíða tjón af þeim sökum.

Þá tel ég enn fremur, að ríkisframlag til jarðræktar og sömuleiðis framlög ríkisins til rannsókna og leiðbeiningaþjónustu í landinu verði verulega aukin, svo að bændur landsins geti búið á raunhæfari hátt eða haft búskapinn meira í samræmi við það, sem þeim er kennt, heldur en þeir hafa átt kost á til þessa. Og á þann hátt tel ég, að bændastétt og bú landsins geti orðið verulega styrkur stólpi þjóðarheildinni.