28.03.1969
Efri deild: 66. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

177. mál, breytingar á lausaskuldum bænda í föst lán

Frsm. meiri hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Landbn. hv. Ed. hefur haft þetta mál til athugunar, og eins og fram kemur á þskj. nr. 402 og 413 náði nefndin ekki samstöðu um það og flytur minni hl. brtt. við frv. á þskj. 408. Nefndinni hafði borizt álit harðærisnefndar um efnahag bænda og gefur það allgott yfirlit yfir efnahagsstöðu þeirra í árslok 1967. Ég mun nú hér í stuttu máli gera grein fyrir afstöðu meiri hl. nefndarinnar.

Nefndin var í heild sammála um þá stefnu, að breyta bæri lausaskuldum bænda í föst lán og meiri hl. telur, að með frv. þessu, ef að lögum verður, verði þeim tilgangi náð. Hins vegar telur minni hl. þessar aðgerðir ekki fullnægjandi og ber fram brtt. við frv., og eru þessar helztar:

Í fyrsta lagi leggur minni hl. til, að lögin taki einnig til lausaskulda hjá fyrirtækjum bænda. Í öðru lagi, að vextir verði ekki hærri en 61/2%. Í þriðja lagi, að einnig verði tekið veð í vélum bænda. Í fjórða lagi, að heildarlán megi nema 80% af matsverði veðsins. Í fimmta lagi, að Seðlabankinn kaupi bankavaxtabréfin á nafnverði og í sjötta lagi, að sérstök fyrirgreiðsla verði veitt þeim bændum, sem verst eru settir. Meiri hl. nefndarinnar telur hins vegar varðandi fyrstu aths. minni hl., að ekki sé eðlilegt að fella lánamál fyrirtækja að þessu frv. fyrst og fremst fyrir þá sök, að ekki er vitanlegt, að nein könnun hafi farið fram á því, hversu stórt eða alvarlegt dæmi þar er um að ræða, svo og hitt, að eðlilegra mætti telja að leysa þann vanda, sem þar kynni að vera til staðar, með fjármögnun frá öðrum aðilum en hér er fjallað um.

Varðandi annað atriðið, sem fjallar um vaxtakjörin, telur meiri hl., að því megi. treysta, að landbúnaðinum verði í því efni ekki skorinn þrengri stakkur en öðrum þeim atvinnuvegum, sem hafa fengið svipaða fyrirgreiðslu þessari.

Þegar litið er á þriðja lið aths. minni hl., sem gerir ráð fyrir, að tekið verði veð í vélum bænda, þá telur meiri hl. það varla frambærilegt, þar sem lánin eru veitt til 20 ára, en fyrningartími vélanna er að okkar dómi miklum mun skemmri.

Um fjórðu aths. minni hl. er það að segja, að hún lítur nánast út sem yfirboð. Í sambærilegum lögum frá 1962 var ákveðið, að heildarlán mættu nema 70% af matsverði veðsins. Í því frv., sem hér er rætt um, er gert ráð fyrir, að heildarlán megi nema 75% veðsins og ætlar meiri hl., að það verði að teljast nægileg skuldabyrði, ef vel á að fara um rekstur búanna í framtíðinni.

Þá er í fimmta lagi um kaupskyldu Seðlabankans að ræða. Meiri hl. telur, að á meðan ekkert ákveðið liggur fyrir um það, hversu miklar fjárhæðir hér verður um að ræða, sé erfitt að ganga endanlega frá samningum við bankann um þetta efni, og með tilliti til fyrri reynslu og þeirra ummæla, sem hæstv. landbrh. viðhafði við 1. umr. um þetta frv. hér í hv. Ed., þar sem hann sagðist hafa rætt við bankana um þessa löggjöf og gera sér vonir um, að framkvæmd hennar lánaðist ekki síður en lögin frá 1962, þá vill meiri hl. telja, að þarna sé gengið nægilega langt til tryggingar þessum hlutum.

Sjötta aths. minni hl. er svo um sérstaka fyrirgreiðslu til handa þeim bændum, sem verst eru settir. Hvað þá aths. varðar vill meiri hl. enn skírskota til ummæla hæstv. landbrh. um þá 160 bændur, sem virtust hafa vonlitla aðstöðu eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja.

Herra forseti. Ég tel mig hafa gert hér nokkra grein fyrir afstöðu meiri hl. til þessa frv. og fyrir þeim rökum, sem til þess liggja, að ekki er hægt að fallast á brtt. minni hl. Sambærileg lagasetning frá 1962 hefur gefið góða raun að okkar dómi og orðið til þess að bæta hag þeirra bænda, sem hagnýttu sér þá fyrirgreiðslu. Það frv., sem hér er til umr., gengur eins og áður hefur verið rakið í tveimur atriðum lengra til móts við þarfir lánþeganna en eldri lög og hvergi skemmra. Meiri hl. nefndarinnar er þeirrar skoðunar, að þetta frv. nái þeim tilgangi sínum að létta lausaskuldum af bændum og á þann hátt bæta hag þeirra og mælir með því, að frv. verði samþ. óbreytt.