10.04.1969
Neðri deild: 74. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

177. mál, breytingar á lausaskuldum bænda í föst lán

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. um breyt. á lausaskuldum bænda í föst lán fékk skjóta afgreiðslu í hv. Ed. og kom þaðan til þessarar d. óbreytt frá því, sem það var flutt. Að vísu komu fram nokkrar brtt. frá minni hl. landbn., en þær náðu ekki fram að ganga. Ástæðan fyrir því, að þetta frv. var flutt, er sú, að rétt þykir að gefa bændum kost á því að breyta lausaskuldum sínum í föst lán nú, eins og 1962. Þetta frv. er í aðalatriðum eins og frv. var þá, eða lögin frá 1962, sem gerðu bændum mögulegt að breyta skuldum sínum í föst lán til 20 ára með 8% vöxtum. Það var strax ljóst, að þessi löggjöf kom sér sérstaklega vel og þeir, sem notuðu sér tækifærið, bættu hag sinn mikið frá því, sem var. En bændur notuðu ekki tækifærið nógu almennt 1962, vegna þess að þeir héldu, að þetta væri ekki nógu vel undirbúið til þess að það mætti að gagni verða. Það var þá ekki frekar heldur en nú nein lagaskylda, að Seðlabankinn eða viðskiptabankarnir eða aðrir, sem eiga útistandandi hjá bændum, skyldu breyta skuldum fyrir bændur í föst lán. Og það þykir ekki heldur ástæða til að lögfesta þetta nú, ekki sízt vegna þess, að þetta gafst vel áður með því að hafa þetta frjálst.

Það er vitað mál, að á undanförnum árum hafa bændur ráðizt í meiri framkvæmdir heldur en nokkru sinni. Bændur hafa almennt byggt upp húsakostinn í sveitunum, íbúðarhúsin, peningshúsin, áhaldageymslur, heygeymslur o.s.frv. Þeir hafa aldrei ræktað meira heldur en síðustu árin og þeir hafa aldrei keypt meira af vélum heldur en þessi ár, bæði heimilistækjum innanhúss og búvélum utanhúss. Þeir hafa og keypt í ríkara mæli á síðari árum innanstokksmuni til þess að gera heimilin þægilegri og fallegri. Þetta hefur allt kostað mikla fjármuni og talsvert af þessari fjárfestingu er þess eðlis, að stofnlán hafa ekki fengizt í þessa fjárfestingu. Þó hefur sú breyting orðið á nú allra síðustu árin, að Stofnlánadeildin hefur veitt lán til búvélakaupa, sem ekki var áður gert. Nú er að því fundið af sumum þeim mönnum, sem stóðu að því áður, að Stofnlánadeildin veitti ekki lán til vélakaupa, að þessi vélakaupalán séu ekki til nógu langs tíma. Það má vel vera, en lán til vélakaupa verða þó aldrei til lengri tíma heldur en þess, sem þykir hæfilegur fyrningartími vélanna. Þegar að því er gætt, hversu fjárfestingin hefur verið mikil og framkvæmdir á öllum sviðum örar hjá bændum að undanförnu, þá er eðlilegt, að nokkrar lausaskuldir hafi safnazt. Það væri óeðlilegt, ef það hefði ekki verið.

Á s.l. vori var ákveðið að láta fram fara könnun á efnahag bænda á harðindasvæðunum. Athuga hverjar eignir þessir bændur áttu, fasteignir, bústofn og svo einnig hvað þeir skulduðu mikið, athuga rekstraraðstöðu þeirra og afkomu og möguleika til áframhaldandi búreksturs með tilliti til erfiðs árferðis síðustu 3 árin. Að þessu var unnið. En þegar kom fram undir haust var sú ákvörðun tekin af ríkisstj. að láta þessa könnun fara fram yfir landið allt og kynna sér efnahag bændastéttarinnar og aðstöðu bænda í heild yfir landið. Þessi athugun hefur farið fram. Nú liggja fyrir skýrslur um það, hverjar eignir bænda eru í hverri sýslu fyrir sig, bænda í föst lán (stjfrv.). hverjar skuldirnar eru, hverjar nettó- og brúttótekjur eru og af því má ráða, hvernig aðstaðan er til búreksturs í hinum einstöku sýslum landsins.

Þetta heildaryfirlit er fróðlegt og gefur glögga mynd af afkomunni. Og ég verð að segja það, að eftir að ég las þessa skýrslu, létti mér mikið, vegna þess að skýrslan sýnir óumdeilanlega, að bændur hafa efnazt verulega á undanförnum árum og mikill meiri hluti bænda hefur, þrátt fyrir mikla fjárfestingu, þrátt fyrir erfitt árferði síðustu 3 árin, það, sem hægt er að kalla mjög sæmilega afkomu. Það er eðlilegt, eins og ég áðan sagði, að myndazt hafi nokkrar skuldir, þegar í miklar framkvæmdir er ráðizt. En það er með bændur eins og fyrirtæki, að það er ekki einhlítt að kveða upp dóm um það, hvernig aðstaða manna er, hvort þeir skulda meira eða minna. Þetta fer allt eftir aðstöðunni, eignunum og tekjunum, sem hægt er að afla. Þeir, sem skulda mikið, geta jafnvel verið miklu betur settir heldur en þeir, sem skulda lítið, ef til skuldanna hefur verið stofnað með því að koma á hagræðingu í búskapnum, koma á heppilegum húsakosti, sem sparar vinnukraft, nota fjárfestinguna til ræktunar, til þess að fá góða uppskeru af jörðinni o.s.frv. Það er þess vegna ekki einhlítt að meta afstöðuna eftir því, hversu skuldirnar eru miklar, heldur eftir hinu, hversu nettótekjurnat verða miklar af búrekstrinum. Og þeir, sem skulda lítið, geta verið mjög illa settir vegna þess, að þeir eiga flest ógert, eiga kannske eftir að byggja upp, eiga eftir að rækta og standa uppi með lítil bú, sem aldrei geta gefið verulegar tekjur. Og þrátt fyrir hinar miklu framkvæmdir á undanförnum árum, er það staðreynd, að enn eru allt of margir bændur með of lítil bú og frumstæð skilyrði til góðrar afkomu. Það er m.a. þess vegna, sem meðaltekjur bænda eru svo lágar, að það eru allt of margir, sem eru með of lítil bú.

Eins og kunnugt er, hafa 3 síðustu árin ekki verið hagstæð fyrir landbúnaðinn. Harðindin hafa verið óvenjulega mikil. Grasbrestur hefur verið og heyöflun víða um land með minna móti. Kostnaðurinn við framleiðsluna hefur því aukizt vegna fóðurbætis- og áburðarkaupa. Á árunum 1960–1965 fór hagur bænda batnandi. Á árinu 1965 munu bændur hafa fengið ekki lakari tekjur en aðrar stéttir og jafnvel betri heldur en sumar aðrar, þótt eftirvinna og atvinna yfirleitt væri óvenjumikil hjá launþegum á þeim tíma. Það var vegna batnandi afkomu bænda á þessu tímabili, að þeir réðust í hinar umsvifamiklu framkvæmdir,sem vissulega ber að fagna og þjóðin öll mun njóta góðs af í framtíðinni. Vegna harðindanna og aukinnar greiðslubyrði bænda þeirra vegna ákvað ríkisstj. á s.l. sumri að láta fram fara ítarlega athugun á efnahagslegri afkomu bænda. Og þessi athugun hefur farið fram. Henni er lokið og þar fást upplýsingar um efnahag og tekjur, sem teknar eru úr skattskýrslum hvers bónda fyrir árið 1967 og einnig forðagæzluskýrslum.

Nefndin, sem gerði þessa athugun, ákvað að fella burt frá frekari athugun þá, sem höfðu minna bú en 80 ærgildi og þá einnig, sem höfðu meiri tekjur af öðru en landbúnaði. Alls var unnið úr framtölum 6129 framteljenda, en af þeim voru af framangreindum ástæðum 1360 felldir úr. Athugun náði því til 4769 bænda. Ljóst er, að greiðslugeta bænda fer ekki síður eftir möguleikum þeirra til tekjuöflunar heldur en eftir eignum miðað við skuldir. Ákveðið var að flokka bændur í hverri sýslu eftir því, hvað þeir skulduðu mikið miðað við nettótekjur annars vegar og brúttótekjur hins vegar. Var bændum skipt í tvo meginhópa, annars vegar þá, sem skulda minna en tvöfaldar nettótekjur. 2747 bændur, eða 57.6% af þeim, sem athugunin nær til, skulda minna en sem svarar tvöföldum nettótekjum þeirra. Verður að álíta, að þessir bændur séu allir efnalega vel settir og séu ekki í neinum greiðsluerfiðleikum. 2022 bændur eða 42.4% skulda meira en tvöfaldar nettótekjur. Þessum hópi hefur verið skipt niður í 5 flokka eftir því, hve skuldirnar eru miklar. 609 bændur eða 12.8% af öllum bændum skulda meira en tvöfaldar, en minna en þrefaldar nettótekjur. Talið er, að þessir bændur séu einnig vel settir efnalega og séu ekki í greiðsluerfiðleikum. 369 bændur eða 7.7% skulda meira en þrefaldar, en minna en fjórfaldar nettótekjur. Talið er, að aðstaða þessara bænda sé ekki slæm, enda þótt vaxtabyrði sé nokkuð þung vegna skuldanna. 423 eða 8.8% bænda skulda meira en fjórfaldar, en minna en fimmfaldar nettótekjur. Fyrir þessa bændur kemur sér það áreiðanlega vel að breyta lausaskuldum í föst lán til þess að létta þannig árlega greiðslubyrði vegna skuldanna. Aðstaða þeirra ætti að vera sæmileg eftir að skuldunum hefur verið breytt. 209 bændur eða 4.7% skulda meira en sexfaldar, en minna en sjöfaldar nettótekjur. Enginn vafi er á því, að vaxtabyrðin hjá þessum bændum er þung og greiðsluerfiðleikar miklir. 412 bændur eða 8.6% skulda meira en sjöfaldar nettótekjur. Álitið er, að þeir, sem skulda meira en sexfaldar nettótekjur, séu yfirleitt í greiðsluerfiðleikum. Heildarskuldir allra bænda á landinu, sem athugunin nær til, eru 1250 millj. kr. Meðalskuld á bónda er 262 þús. kr. Þeir, sem skulda minna en tvöfaldar nettótekjur, skulda aðeins 109 þús. kr. að meðaltali. Heildarlausaskuldir bænda á öllu landinu, sem athugunin nær til, eru 491 millj. 416 þús. kr. Heildarlausaskuldir þeirra bænda, sem skulda meira en sexfaldar nettótekjur, eru 176 millj. 786 þús. kr. eða 36% af öllum lausaskuldum bænda. Meðallausaskuldir allra bænda eru 103 þús. kr., en þeirra, sem skulda minna en tvöfaldar nettótekjur, aðeins 36 þús. kr. Hins vegar nema þær 194 þús. kr. að meðaltali hjá öllum þeim, sem skulda meira en tvöfaldar nettótekjur, og fara stighækkandi í flokkum í 303 þús. kr. Í heild eru lausaskuldir 33.9% allra skulda þeirra bænda, sem athugunin nær til.

Meðalnettótekjur bænda eru 123 þús. kr. Munur eftir sýslum er mjög mikill. Í þeirri sýslu, sem nettótekjur eru hæstar, eru þær 177 þús. kr. á bónda, en lægstar 80 þús. kr. Vegið meðaltal brúttótekna allra bænda, 400 þús. kr., eru furðulega jafnt yfir landið, frá 300–500 þús. kr. Rúmlega 1000 bændur skulda meira en sem nemur brúttótekjum sínum og hafa þeir að sjálfsögðu allmikla vaxtabyrði og greiðsluerfiðleika sumir þeirra, en þó mjög misjafnlega eftir aðstæðum og tilkostnaði framleiðslunnar. Þessi fjöldi bænda er 22.3% af þeim fjölda, sem athugunin nær til. 77.7% af bændum eru hins vegar vel settir, þar sem skuldir þeirra eru ekki það miklar, að greiðslubyrði þeirra vegna sé óeðlilega þung. 3.4% af bændum skulda meira en tvöfaldat brúttótekjur eða 160 bændur, sem eru búsettir í öllum sýslum landsins.

Hrepparnir á öllu landinu eru nokkuð á þriðja hundrað, þannig að talsvert vantar á, að til jafnaðar sé einn bóndi í hverjum hrepp, sem býr við svo slæma aðstöðu. Samkv. áliti þeirra, sem að athuguninni stóðu, er talið, að þessir bændur hafi vonlitla aðstöðu til búreksturs nema sérstök aðstoð komi til.

Í skattframtölum í árslok 1967 eru fasteignir bænda metnar á gamla fasteignamatinu margfaldað með fjórum. Þetta er óraunhæft mat, og fékk nefndin því upplýsingar hjá yfirfasteignamatsnefnd um samræmdar tölur undir fasteignamatsnefnda. En enn hefur ekki verið ákveðið endanlegt mat á fasteignum eftir aðstöðu. Þar sem verðgildi fasteigna er mjög háð því, hvernig þær eru í sveit settar, áleit nefndin hinar samræmdu grundvallartölur héraðsfasteignamatsnefnda of háar í einstökum héruðum og sýslum. Lækkaði nefndin því matið frá grundvallartölum héraðsmatsnefndanna í ýmsum sýslum. Nefndin telur, að þetta mat sé í sjálfu sér ekki mjög nákvæmt, en telur, að eðlilegt sé að miða við það, þar sem ekki sé við annað að styðjast og úr þeim gögnum unnið eftir beztu sannfæringu. Meðalfasteignir bónda yfir landið eru 687 þús. kr. Er það misjafnt eftir sýslum. Hæsta meðalfasteign bónda í sýslu er 998 þús. kr., en lægst 417 þús. kr. Meðalbrúttóeign bænda, sem athugunin nær til, er 1 millj. 48 þús. kr. Mesta brúttóeign á bónda í sýslu er 1431 þús. kr., en minnsta meðalbrúttóeign á bónda 714 þús. kr. í sýslu. Meðalskuldlaus eign á bónda í landinu er 778 þús. kr. Hæsta skuldlaus eign á bónda er 1162 þús. kr., en minnsta meðaleign 510 þús. kr. á bónda.

Tölur þær, sem hér hafa verið nefndar, gefa allgott yfirlit yfir efnahag bænda og aðstöðu þeirra yfirleitt. Athyglisvert er, að 77.7% af bændum eru tiltölulega vel settir efnahagslega og eru væntanlega ekki í greiðsluerfiðleikum. 12.8% af bændum virðast eftir gögnum, sem fyrir liggja, vera allvel settir, þótt að sjálfsögðu komi sér vel fyrir þá að eiga þess kost að breyta lausaskuldum í föst lán. 6.1% virðast vera samkv. skýrslum með þunga vaxtabyrði og að sjálfsögðu allmikla greiðsluerfiðleika. Það vekur athygli, að ekki er talið að nema 3.4%, eða 160 bændur, séu með vonlitla aðstöðu. Má vera, að bezta aðstoðin við þá verði í því fólgin að hjálpa þeim til þess að hætta búskapnum og koma sér í önnur störf. Verður það vitanlega athugað nánar, þegar til framkvæmda kemur um breytingu á lausaskuldum í föst lán.

Athuganir þær, sem vitnað hefur verið til, sýna, að bændur hafa efnazt á síðustu árum og skuldir þeirra eru miklu minni en ástæða var til að ætla þrátt fyrir gífurlegar framkvæmdir í seinni tíð. Eigi að síður eru ýmsir bændur þannig settir, að æskilegt er að létta undir með þeim á þennan hátt, að gefa þeim kost á að breyta lausaskuldum í föst lán.

Frv. það, sem hér um ræðir um breytingu á lausaskuldum bænda, er í meginatriðum eins og lög um sama efni 1962, eins og áður var sagt. Þá var 68 millj. kr. af lausaskuldum bænda breytt í föst lán með því, að veðdeild Búnaðarbankans gaf út sérstakan flokk bankavaxtabréfa í þessu skyni. Samkv. 1. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir, að sami háttur verði á hafður, að veðdeild Búnaðarbankans fái heimild til að gefa út nýjan flokk bankavaxtabréfa. Bréf þessi skulu eingöngu notuð til þess að breyta í föst lán lausaskuldum bænda, sem hafa ekki fengið nægileg lán til hæfilegs tíma vegna fjárfestingar, sem þeir hafa ráðizt í á jörðum sínum á árunum 1961–1968.

Samkv. 2. gr. frv. er kveðið svo á, að lán samkv. lögum þessum skuli aðeins veitt gegn veði í fasteignum bænda ásamt mannvirkjum, sem á jörðinni eru. Lánstími skal vera allt að 20 ár, vaxtakjör skulu ákveðin af stjórn veðdeildarinnar að höfðu samráði við ráðh. samkv. 3. gr. og er gert ráð fyrir heimild til að leyfa ábúendum ríkisjarða að veðsetja ábúðarjarðir sínar til tryggingar lánum samkv. lögum þessum, enda séu eignir viðkomandi ábúenda í mannvirkjum á jörðum þeirra aldrei minni en sem nemur samanlögðum áhvílandi lánum á jörðinni. Samkv. 4. gr. mega lán samkv. lögum þessum að viðbættum veðskuldum þeim, sem hvíla á fyrri veðréttum, ekki nema hærri fjárhæð en 75% af matsverði veðsins. 5. gr. kveður svo á, að ákvæði 16. gr. 3. mgr. 1. nr. 115 7. nóvember 1941 taki ekki til bankavaxtabréfa, sem út eru gefin samkv. lögum þessum. Í 6. gr. er vitnað til laga um Búnaðarbanka Íslands nr. 115 7. nóvember 1941, um lánveitingar samkv. lögum þessum, og samkv. 7. gr. er gert ráð fyrir, að ráðh. setji reglugerð um nánari ákvæði um framkvæmd laganna.

Það má teljast öruggt, að verði þetta lögfest og fari vel úr hendi eins og vonir standa til, megi þessi lög verða þeim bændum, sem búa við allmiklar lausaskuldir, til mikillar hjálpar, eins og lögin frá 1962 óneitanlega urðu. Bændur munu nota það tækifæri, sem nú er gefið, og sækja um það til réttra aðila, að lausaskuldum þeirra verði breytt í föst lán. Sérstakt mat verður að fara fram á fasteignum til þess að fá raunhæft verðgildi þeirra. Það er vitað, að verðmat fasteigna hefur breytzt vegna gengisbreytinga og þær matsgerðir, sem fram fóru fyrir 1–2 árum, eru í mörgum tilfellum ekki raunhæfar auk þess sem millimatsgerðir vantar.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að svo stöddu að hafa fleiri orð um þetta frv., en legg til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.