10.04.1969
Neðri deild: 74. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

177. mál, breytingar á lausaskuldum bænda í föst lán

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Sunnl. talaði um það, að hann væri ekki eins bjartsýnn og ég. Ég vissi það nú löngu áður, og ég er mjög ánægður með það og þakklátur fyrir það að vera ekki eins svartsýnn eins og hv. 2. þm. Sunnl., því að ég held nú satt að segja, að þeir, sem skoða hlutina í jafn dökku ljósi eins og hann virðist gera, ef hann meinar sumt af því, sem hann bæði talar og skrifar, þá geti honum ekki liðið vel, því að því hugarfari, sem þessari svartsýni fylgir, hlýtur að fylgja mikill uggur og ótti, ekki aðeins um framtíðina, heldur einnig um líðandi stund. En vera má, að hv. þm. sé nú ekki eins svartsýnn og hann vill vera láta, og hann meini nú ekki alltaf það, sem hann skrifar og talar. Ég hef jafnvel ástæðu til þess að ætla, að svo sé, því að í sannleika sagt lítur hv. þm. alls ekki út fyrir það, að honum sé svo sérstaklega órótt, að honum finnist ekki, að tímarnir búi þolanlega að honum og því fólki, sem stendur honum næst, og okkur öllum, sem þetta samfélag myndum. En þetta er önnur saga. Það er annað að vera bjartsýnn eða vera raunsýnn. En að vera svartsýnn og sjá ekki annað en dökku hliðarnar getur ekki boðað neitt gott.

Hv. þm. harmaði það, að ríkisstj. skyldi ekki nota frv. framsóknarmanna, sem þeir höfðu flutt, heldur flytja nýtt frv., sem er nokkurn veginn eins, eins og hann orðaði það. En síðar í ræðunni kom það nú fram, að frv. ríkisstj. er ekki nokkurn veginn eins og frv. framsóknarmanna, því að hv. þm. sagði, að það mætti alveg eins ætla, að þetta frv. næði ekki þeim tilgangi, sem því er ætlað, og hv. þm. notaði hér sömu orð og hann sjálfur og flokksbræður hans notuðu í báðum þd. 1962, þegar þeir fullyrtu, að það frv., sem þá var flutt um sama efni, næði ekki tilgangi sínum, af því að það var ekki skylda í löggjöfinni til þess fyrir Seðlabankann að kaupa bankavaxtabréfin og viðskiptabankana og aðra, sem áttu skuldir hjá bændum, að gera þessi skipti. Löggjöfin 1962 byggðist á frjálsum samningum. Það reyndist vel, og þessi löggjöf verður sett með sama hætti. Og þá vona ég, að það reynist einnig vera að þessu sinni.

En ég minntist á það áðan, að bændur hefðu ekki notfært sér tækifærið 1962, eins og vera skyldi, og sáu margir eftir því. Og það kom fram, hver ástæðan var. Ástæðan var sú, að margir bændur höfðu trúað því, sem framsóknarmenn sögðu utan þings og innan, og því, sem þeir höfðu skrifað í sín blöð, að þessi löggjöf næði ekki tilgangi sínum. Og þeir, sem trúðu þessum fullyrðingum, sóttu ekki um lánið. Ég geri ráð fyrir því, að það verði færri nú, sem trúa framsóknarmönnum heldur en þá, enda er áróðurinn gegn þessu frv., enn sem komið er, miklu minni heldur en hann var 1962 gegn frv., sem þá var lagt fram. Og um þessa kaupaskyldu er það að segja, að það út af fyrir sig gæti verið einhver trygging. En er nú ekki hitt eðlilegra að nota frjálsu leiðina, þegar reynsla er fyrir því, að hún hefur gefizt vel, heldur en að setja í löggjöf það, sem ekki hefur áður reynzt vera nauðsynlegt. Og víst er það, að þessi löggjöf verður ekki framkvæmd nema með samkomulagi við bankana, við sparisjóðina og við aðra, sem eiga skuldir hjá bændum. Og vissulega er skemmtilegra og eðlilegra að fara að þessu með eðlilegum samningshætti heldur en þvingunum, og sízt af öllu ber að launa liðlegheitin 1962 með því nú að setja þvingunarlöggjöf á þessa aðila.

Ég get verið sammála hv. þm. um það, að það er eðlilegt, að þeir, sem þess óska, fái skýrsluna um athugun þá, sem gerð var á efnahag og aðstöðu bænda. Í Ed. fékk landbn. þessa skýrslu. Skýrslan hefur ekki verið prentuð, heldur voru tekin ljósrit af henni og nefndin fékk skýrsluna. Ég hafði hugsað mér, að sami háttur væri hafður á hér í Nd., að sú nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, fái skýrsluna, en það er sjálfsagt, að allir þeir þm., sem þess óska, fái hana senda.

Hv. þm. talaði um meðferðina á bændunum og tekjur þeirra, sem væru svo litlar, að meðaltali aðeins 123 þús. Meðaltalið verður svona lágt vegna þess, að í einstökum sýslum fara nettótekjurnar niður í 80 þús. Og vissulega er þetta vandamál. Hvernig má það verða, að það sé hægt að auka tekjur þeirra bænda, sem verst eru settir? Á að gera það með því að skrúfa afurðaverðið upp úr öllu valdi, t.d. að bóndi, sem hefur 100–150 ær og 2–3 kýr, hafi kannske 150–160 þús. kr. í nettótekjur eða á að reyna að gera það með því að ýta undir menn að stækka búin og bæta aðstöðuna til búrekstrarins? Ég held, að það sé ekki sanngjarnt að ætlast til þess, að þeir, sem hafa minnstu búin, fái það, sem maður getur kallað fullar tekjur. Það er ekki full vinna, sem þessir menn hafa. Það er ekki sanngjarnt, að verkamaður, sem ekki kannske vinnur nema 6–7 tíma, hafi fullt kaup. Og það er verið að tala um það, að margir séu lágt launaðir í þessu landi. Það er talað um menn, sem ekki hafa nema 9–10 þús. kr. Þá er miðað við 8 stunda vinnu. En þegar launþegarnir komast í 15–16 þús. kr. mánaðartekjur, þessir lægst launuðu, þá vinna þeir bæði eftirvinnu og næturvinnu. Þeir bændur, sem hafa stór bú og leggja mest að sér og þurfa kannske ekki að hafa mjög stór bú, en hafa góð bú, getum við sagt, og sæmilegar tekjur, þeir vinna vitanlega miklu meira en 8 stunda vinnudag. En smæstu búin þurfa ekki heils dags vinnu á hverjum degi, og þetta veit ég, að hv. 2. þm. Sunnl. er ljóst, að þeim mönnum verða ekki skaffaðar viðunandi tekjur og lífsviðurværi með því einu að hækka afurðirnar. Það verður þá að skammta þeim hærra verð fyrir hvert kg, sem þeir framleiða, og hvern mjólkurlítra, sem þeir framleiða, heldur en hinum, sem framleiða mest, og veit ég ekki, hvort það gæti heldur talizt réttlátt eða eðlilegt, því að enn sem komið er höfum við nú viljað lofa mönnum að njóta sín, sem sýna hagsýni og dugnað í framleiðslu og framkvæmdum.

Og varðandi það að skuldirnar, sem eru að meðaltali 262 þús., séu mjög miklar, þá segi ég nú það, að þegar ég las þessa skýrslu, var ég nú hræddur um það, að einhverjir mundu segja: Af hverju að vera með þetta frv., úr því að skuldirnar eru ekki meiri? Hversu margir launþegar, sem eru láglaunamenn, skulda 300–400 þús. í íbúðinni sinni og eiga ekkert annað. Við verðum að hafa þá hreinskilni að gera okkur grein fyrir því, að þetta þjóðfélag byggja fleiri stéttir heldur en bændur. Ég hef verið og er talsmaður bænda. Og ég hef verið á verði um það að láta þeirra hlut ekki vera fyrir borð borinn. En ég hef einnig gert mér grein fyrir þeirri skyldu, sem hvílir á mér sem ráðh. og alþm., að það á ekki að níðast á neinum í þessu þjóðfélagi, heldur hlutast til um það, að stéttirnar búi við það, sem við getum kallað jafnrétti. Það hefur ekki verið níðzt á bændum og allra sízt í seinni tíð.

Hv. 2. þm. Sunnl. sagði hér áðan, að skýrslan sýndi það, að bændur búa við óhæg lífskjör. Hv. þm. hefði átt að segja: skýrslan sýnir það, að það er æskilegt, að bændur geti búið við betri lífskjör. Undir það hefði ég viljað taka. Það er æskilegt, og það er æskilegt, að almenningur í þessu landi megi fá batnandi lífskjör. Að því stefnum við. En það hlýtur að koma niður á bændum eins og öllum öðrum þjóðfélagsþegnum, þegar þjóðarbúið missir á tveimur árum 1/3 hluta útflutningstekna sinna. Það hlýtur að verða minni skammtur, sem kemur til skiptanna handa bændum eins og öllum öðrum þjóðfélagsþegnum, þegar þannig stendur á, og það kemur líka við bændur, þegar hafísinn er fyrir landinu og vorin eru köld og kaupa verður meiri fóðurbæti og áburð heldur en í venjulegum árum til þess að fá gras og halda búpeningnum lifandi. Hv. 2. þm. Sunnl. kenndi ríkisstj. ekki um þetta, en minntist nú ekki mikið á það, að tíðarfarið hefði verið lakara í seinni tíð heldur en áður.

En það, sem skýrslan gefur til kynna, er það í fyrsta lagi, að 77.7% af bændum, að dómi þeirra, sem gerðu þessa athugun, eru vel settir og eru ekki í greiðsluerfiðleikum, 77.7%. Skýrslan segir enn fremur, að 12.8% séu sæmilega settir, enda þótt það geti komið sér vel fyrir þá að breyta lausaskuldum í föst lán og þeir búi við vaxtabyrði og sjálfsagt einhverja örðugleika. Þetta gerir samanlagt 90.5%, sem skýrslan telur, 90.5% af bændum er talið, að séu sæmilega settir, 77.7% ágætlega settir. Þá verður það 6.1% af bændum, sem hægt er að segja, að skuldi of mikið, búi við of mikla vaxtabyrði og eru sjálfsagt í talsverðum erfiðleikum, en munu með því að breyta lausaskuldum í föst lán bæta hag sinn mikið. En 3.4% eða 160 bændur eru mjög illa settir að dómi nefndarinnar, mjög illa settir, og ekki talið, að þeir geti haldið búskap áfram nema sérstök ráðstöfun komi til. Þetta segir skýrslan. Og ég er alveg viss um það, að hv. 2. þm. Sunnl. geti verið mér sammála um það, að frá því að við fórum að muna eftir okkur höfum við þekkt einn og einn bónda, sem hefur af ýmsum ástæðum verið illa settur efnalega, af ýmsum ástæðum, stundum vegna þess að jörðin hefur verið þannig, að hún gaf ekki lífsmöguleika, stundum vegna veikinda og óhappa, eins og alltaf getur skeð og stundum vegna þess, að maðurinn gat verið duglegur og vel til verka fallinn og betur kominn með því að vinna annað heldur en að landbúnaðarstörfum.

Hv. 2. þm. Sunnl. talaði um, að bændur byggju við gerðardóm. Ekki upplýsti nú hv. þm. hvenær það byrjaði. Hvenær ætli bændur hafi búið við það frelsi að mega ákveða verð á afurðum sínum sjálfir? Það er nú harla langt síðan. Mjólkurverðlagsnefnd höfum við og kjötverðlagsnefnd, og hvernig gafst það. Einu sinni var nú breytt til, þegar kjötið var hækkað um 100% og mjólkin tók stórt stökk á eftir, þá lagaðist nú mikið. En það gerðist nú ekki á meðan flokksmenn hv. 2. þm. Sunnl. voru í ráðherrastólunum, heldur eftir að þeir voru farnir. Það getur vel verið, að það væri bezt fyrir alla, að bændur hefðu frelsi til þess að ákveða verð á afurðunum. En sannleikurinn er sá, að ég er ekki viss um það, að verð á mjólk og kjöti væri hærra núna, þótt þeir hefðu þetta frelsi, því að um leið og menn fá frelsi, þá gera allir góðir menn sér grein fyrir þeirri ábyrgð, sem frelsinu fylgir. Það fylgir því mikil ábyrgð að hafa frjálsar hendur til ákvörðunar. Í gamla daga kunnu góðir drengir að meta það, þegar þeim var gefið sjálfdæmi og góðir drengir misnotuðu það ekki. Þess vegna held ég, að það væri engin hætta að gefa bændastéttinni þetta frelsi. En hún hefur búið við þessar hömlur í verðlagningunni í tugi ára, eins og aðrir þjóðfélagsþegnar. Ekki hafa launþegarnir frelsi til þess að ákveða sitt kaup sjálfir. Það er gert með samningum. Opinberir starfsmenn búa við kjaradóm. Sjómenn búa líka við kjaradóm. Fiskverðið er ákveðið þannig. Og launþegar geta ekki sagt og hafa aldrei sagt: Kaupið skal vera þetta á morgun, hvað sem atvinnurekandinn segir. Ég held, að það sé ekki þetta, sem við þurfum sérstaklega að hafa áhyggjur af, þótt verðlagningin sé með þessum hætti.

Kannske verður þessu breytt með því, að menn sannfærist um það, að það sé engin hætta á ferðum, að góðir menn misnoti ekki það frelsi, sem þeim er fengið í hendur. Og ég segi það, ég er ekkert viss um það, að verðlag búvöru væri a.m.k. miklu hærra í dag heldur en þótt það væri alveg frjálst af bændanna hálfu, því að það verður að reikna með því, hvernig kaupgetan er í landinu. Og bændur hafa nú í seinni tíð fengið það, sem þeir höfðu ekki á meðan flokksmenn hv. 2. þm. Sunnl. réðu ríkjum. Þeir hafa fengið útflutningsbætur, sem hafa í flestum tilfellum tryggt þeim fullt grundvallarverð. Það er rétt, það hefur komið fyrir, að það hafi vantað nokkuð á, vegna þess að framleiðslan hefur aukizt mun meira heldur en neyzlan, þótt neyzlan hafi farið vaxandi allt fram að þessu. En bændur hefðu vitanlega verið illa settir, ef núv. ríkisstj. hefði ekki breytt löggjöfinni og tryggt bændum miklar útflutningsuppbætur árlega. Og nú eru útflutningsuppbæturnar á þessu ári nærri 300 millj. kr., auk gengishagnaðarins, sem fer að mestu í útflutningsuppbætur.

Ég get tekið undir með hv. 2. þm. Sunnl., að það er bagalegt fyrir bændur að bíða lengi eftir greiðslu frá sláturfélaginu og frá mjólkurbúinu. En ég hef nú haldið, að mjólkurbúið gæti borgað örar út nú heldur en áður, vegna þess að nú liggja mjólkurbúin ekki með eins miklar birgðir í ostum, smjöri og mjólkurdufti eins og var á tímabili. Þess vegna hef ég ætlað það, að mjólkurbúin gætu greitt stærri hluta út og fyrr nú heldur en oft áður. Það má vel vera, að Mjólkurbú Flóamanna og önnur mjólkursamlög hafi aukið borgunina, ég vil vona það. Hv. 2. þm. Sunnl. veit um þetta, vegna þess að hann er í stjórn Mjólkurbúsins. Ég held, að það hljóti að vera mjög auðvelt fyrir mjólkurbúin að auka útborgunina núna vegna þess, að smjör-, osta- og mjólkurduftsbirgðir eru mun minni heldur en þær voru fyrir 1–2 árum. Og salan fer venjulega fram gegn staðgreiðslu eða með kannske mánaðargreiðslufresti til þeirra sem lánstraust hafa.

Hv. þm. minntist hér áðan á Sláturfélag Suðurlands, að það hefði verið að skila núna fjórðu greiðslunni að mér skilst frá árinu 1967 og fimmta greiðslan væri eftir. Þetta eru alveg nýjar fréttir fyrir mig. Og ég hef haldið það, að Sláturfélag Suðurlands hafi staðið við útborgun nú í seinni tíð ekkert verr heldur en áður. En ég man eftir því frá því að ég var að alast upp, að það var alltaf haldið eftir þriðja partinum af verðinu. Það var aldrei borgað út á haustin meira heldur en í mesta lagi 2/3 og svo gert upp að vorinu til, venjulega í júnímánuði, þegar aðalfundur var. En í seinni tíð hefur Sláturfélagið borgað meginhlutann af eftirstöðvunum í maí og stundum í apríl til þess að bændur gætu notað þessar eftirstöðvar til þess að láta fyrir áburðinn. Og ég veit ekki, hvernig á þessu stendur. Hv. 2. þm. Sunnl. hefur kannske skýringu á því og gæti verið, að hann segi sem svo: Sláturfélagið hefur ekki fengið nógu mikil lán. Mér kæmi það ekkert á óvart. Það hefur stundum verið talað um það, að félagssamtök bænda fengju lítil lán. Það hefur t.d. oft verið sagt, að rekstrarlán til landbúnaðarins hafi ekki verið hækkuð 1959. En hv. þm. Sunnl. sagði það ekki hér áðan. Mér er ekki kunnugt um það, hvernig fjármálum Sláturfélagsins er varið: En mér finnst þetta ekki góðar fréttir. Ég hefði þó haldið, að Sláturfélagið, sem hefur verið í aðalviðskiptum við Búnaðarbanka Íslands, hefði fengið þar góða fyrirgreiðslu, ég hefði haldið það. Og víst er það að Landsbankinn hefur sagt það, að rekstrarlánin hafi verið hækkuð, en í öðru formi heldur en var í byrjun; að sláturleyfishafarnir hafi fengið á vorin lán út á sláturfénaðinn að mestu leyti að vorinu eins og þá upphæð, sem ætlað var, að yrði borguð út að haustinu. Þetta hef ég heyrt bankastjóra Landsbankans segja, og þess vegna er ekki hægt að staðhæfa það, að rekstrarlánin hafi ekki verið hækkuð síðan 1959. Hitt er svo alltaf hægt að segja, að þessi eða hinn aðilinn fái ekki nógu mikil lán. Ég hef nú ekki heyrt kvartað, hvað snertir Sláturfélag Suðurlands, og víst er það, að það er ekkert nýtt, að bændur bíði eftir hluta af verðinu.

Það væri vitanlega mjög æskilegt, að sá frestur yrði styttur, og ég vil beina því til hv. 2. þm. Sunnl., að hann beiti sér fyrir því í Mjólkurbúi Flóamanna, að það verði borgaður aukinn hluti af mjólkurverðinu strax til bændanna, með tilliti til þess að birgðir Mjólkurbúsins hljóta nú að vera mun minni heldur en þær voru þegar þær voru mestar, og þá var einnig borgað út, kannske eins mikið og nú. Nú er mjólkurverðið í verðgrundvellinum Í 1 kr. 29 aurar og þess vegna hygg ég, að það megi hækka útborgunarverðið, ef það er rétt, sem mér var sagt, að það væri borgað út á fitueiningu aðeins 1.70 kr. Þannig að ef um 4% feita mjólk er að ræða, þá eru þetta ekki nema 6.80 kr. En það mun vera miðað við meðalfitu, en ekki hæstu fitu, þegar talað er um grundvallarverðið og meðalfitan mun vera 3.80%, þannig að það sjá allir, að þarna er miklu haldið eftir. Ég geri ekki ráð fyrir, að það sé öðru vísi hjá Mjólkurbúi Flóamanna eða lakara heldur en hjá öðrum mjólkursamsölum. En um leið og minnzt er á Sláturfélag Suðurlands í þessu efni, þá held ég að það sé alveg eðlilegt að við tölum samhliða um Mjólkurbúið. Ég veit ekki, hvort þetta er út af fyrir sig eðlilegt að vera að klaga upp á Sláturfélag Suðurlands á þessum vettvangi, sem hefur borgað út, að ég ætla, núna upp á síðkastið ekkert verr heldur en bara alla sína tíð, síðan það var stofnað.

Hv. þm. hefur nú fullyrt í ógáti, þegar hann sagði, að flestir bændur, sem hafa hætt búskap, hafi gengið slyppir frá jörðum sínum, gengið slyppir frá, ég skrifaði það orðrétt niðúr. Ég þekki enga bændur, sem hafa gengið slyppir frá jörðum sínum, þegar þeir hafa hætt búskap, og sem betur fer þá er ekkert framboð á jörðum núna. Það kemur fyrir, að við sjáum auglýsingar í dagblöðunum, þar sem óskað er eftir jörðum til kaups, jörðum sem eru sæmilega í sveit settar. En að menn vilji selja jarðir, það ber lítið á því, sem betur fer.

Hv. þm. talar um skattlagninguna á bændastéttina, stofnlánadeildargjaldið 1%, sem er lagt til Stofnlánadeildarinnar, að þetta sé nú m.a. að ríða bændum að fullu og þá helzt hinum fátækari. En skyldu þeir fátækari borga stærri hlutann til Stofnlánadeildarinnar. Þetta er algerlega öfugt, það eru oft þeir, sem framleiða mest, sem borga til Stofnlánadeildarinnar stærstan hlutann og gera það mögulegt að þeir fátæku, sem eiga eftir að byggja upp, geti fengið lán úr Stofnlánadeildinni. Það eru þeir ríku, það eru þeir sem framleiða mikið, sem borga stærstan hlutann til Stofnlánadeildarinnar. Þeir sem hafa litla framleiðslu, þeir borga þangað lítinn hluta.

Hótel Saga, eða bændahöllin, er gott fyrirtæki, og vissulega var það nauðsynlegt fyrir þjóðina, að þetta hótel var byggt. En ég hefði talið, að það væru aðrir aðilar, sem ættu að byggja þetta hótel. Það stæði nær Reykjavíkurborg og ríkinu, flugfélögunum, Eimskipafélaginu. En hótelið er komið, og það er þjóðþrifafyrirtæki. En bændur borga skatt í þetta hótel en ekki aðrir þegnar þjóðfélagsins. Hv. 2. þm. Sunnl. minntist ekkert á það. En hvort skyldi vera nauðsynlegra fyrir bændur, Stofnlánadeildin, sem gerir bændum mögulegt að fá lán til uppbyggingar í landbúnaðinum, eða hótelið? Hótelið er nauðsynlegt frá þjóðhagslegu sjónarmiði séð, en Stofnlánadeildin er nauðsynleg frá sjónarmiði bændanna, til þess að hægt sé að byggja upp landbúnaðinn.

Og þegar hv. 2. þm. Sunnl. talar um stofnlánagjaldið, þá er gott að skjalfesta það, sem við allir raunar vitum, að þegar hans flokkur kemst í ríkisstj., stjórnaraðstöðu, þá mun honum ekki detta í hug að afnema þetta gjald, ekki detta það í hug, vegna þess að hv. framsóknarmenn, þeir hafa alveg eins og við sjálfstæðismenn gert sér grein fyrir því, að það er nauðsyn fyrir landbúnaðinn að byggja upp sterkar lánastofnanir. Hv. 2. þm. Sunnl. veit þetta og skilur, og í hjarta sínu kann hann að meta það, að núverandi ríkisstj. hefur gert það, sem í hennar valdi hefur staðið, til þess að byggja þessa deild upp, með því að útvega henni innlend lán handa bændum. Útvega henni innlend lán handa bændum. Á meðan framsóknarmenn fóru með þessi mál, þá hafði Stofnlánadeildin ekki annað en erlend lán til þess að lána. Og það er þess vegna, sem Stofnlánadeildin hefur orðið fyrir gengistapi. Það eru lánin frá tíð vinstri stjórnarinnar og annarra stjórna, sem Framsóknarflokkurinn hefur setið í, sem voru lánuð út án gengistryggingar og deildin hefur nú beðið tap af. Í seinni tíð hefur verið útvegað innlent fjármagn til þess að lána bændum, en minnsti hlutinn, sem Stofnlánadeildin hefur fengið, hefur verið erlent fjármagn, og lánað út með gengisklásúlu til félagssamtaka, en ekki einstaklinga. Það má vitanlega segja, að gengistap hjá þeim sé tilfinnanlegt, en Stofnlánadeildin hefur ekki beðið tjón af því.

Hv. þm. talaði um það, að bændur búi við slæm lánakjör, vextirnir hafi verið hækkaðir. Þeir, sem hafa nú kynnt sér þessi mál rækilega, vita það, að lánakjör bænda hjá Stofnlánadeildinni eru þau beztu, sem veitt eru í þessu þjóðfélagi, til uppbyggingar á stofnlánum, með því að vextir til íbúðarbygginga eru 6%, vextir til lána á vélum og annarra framkvæmda 61/2%, og það er hvorki vísitala eða gengisskilyrði í þessum lánum. Þetta út af fyrir sig má segja, að sé ekki viðkomandi því frv., sem við erum að ræða um. En hv. 2. þm. Sunnl. gaf nú tilefni til þess, að ég svaraði þessu nokkrum orðum, því að eins og hann talaði, þá gat maður haldið, að hann væri ekki enn búinn að átta sig á, hvað væri rétt eða rangt, hvað væri hagstætt eða óhagstætt fyrir bændur, en jafnvel þótt hann með framkomu sinni láti líta svona út, þá ætla ég, að hann viti betur en hann vill vera láta.