28.10.1968
Efri deild: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

27. mál, eiturefni og hættuleg efni

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta til laga um eiturefni og hættuleg efni er mjög sérfræðilegs eðlis, og það er ekki á mínu valdi að skýra hv. deild í raun og veru meira frá einstökum þáttum þess heldur en fram kemur í grg. frv. Eins og fram kemur í aths., er þetta sniðið eftir fyrst og fremst danskri löggjöf og frv. undirbúið undir handleiðslu landlæknis, og fyrst og fremst er það Þorkell Jóhannesson læknir, sem haft hefur það starf með höndum að semja frv., og einnig, eins og vikið er að, hefur Erling Edwald, yfirlyfjafræðingur Lyfjaverzlunar ríkisins, aðstoðað við starfið. Ég býst við, að það sé venju samkvæmt, að n. sú, sem fær það til meðferðar, fái til viðræðna við sig til frekari upplýsinga og grg. um málið þá sérfræðinga, sem öðrum fremur hafa unnið að undirbúningi málsins.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og til hv. heilbr.- og félmn.