21.04.1969
Neðri deild: 79. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

177. mál, breytingar á lausaskuldum bænda í föst lán

Frsm. minni hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Það leyndi sér nú ekki, þegar hv. 11. landsk. var að flytja hér sína ræðu áðan, að honum leið mjög illa út af því að standa ekki með minni hl. í sambandi við þær breytingar, sem hér liggja frammi, og mér þótti mjög ánægjulegt að heyra þennan tón í hv. þm. Og það sannar það í sjálfu sér, að sumir af þessum mönnum geta ekki staðið að málunum eins og hugur þeirra stendur til hverju sinni.

Frv. þetta um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán er stjórnarfrv., 177. mál, og hefur verið samþ. í Ed. óbreytt. Í Ed. klofnaði landbn. um málið og lagði minni hl. þar fram brtt. í fimm liðum til þess að freista þess að reyna að koma frv. í það horf, að líklegt yrði, að það næði þeim tilgangi að leysa þau miklu hraðvaxandi vandamál bænda vegna mikilla lausaskulda og greiðsluvandræða. En þessar tillögur fundu ekki náð fyrir augum hv. stjórnarliða í Ed., enda líklega ekki þess að vænta miðað við þann málflutning, sem hæstv. landbrh. viðhafði við umr. um málið, en að því kem ég betur síðar.

Landbn. Nd. tók málið fyrir á aðeins einum fundi. Klofnaði nefndin um málið. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt. Einn nm. var ekki viðstaddur afgreiðslu málsins í nefnd, hv. 2. landsk. þm. Eðvarð Sigurðsson og er því ekki vitað um afstöðu hans til málsins. Minni hl. skipar auk mín hv. 5. þm. Austf., Vilhjálmur Hjálmarsson. Stöndum við að þeim brtt., sem ég mun nú lýsa.

1. gr. þessa stjfrv. er þannig með leyfi forseta: „Veðdeild Búnaðarbanka Íslands er heimilt að gefa út nýjan flokk bankavaxtabréfa. Bankavaxtabréf þessi skulu eingöngu notuð til þess að breyta í föst lán lausaskuldum bænda, sem hafa ekki fengið nægileg lán til hæfilegs tíma vegna fjárfestinga, sem þeir höfðu ráðizt í á jörðum sínum á árunum 1961–1968 að báðum árum meðtöldum.“

Eftir þessari gr. er ekki hægt að sjá annað heldur en það sé eingöngu vegna fjárfestinga, annað eigi ekki að taka inn, ef þessi gr. verður samþ. óbreytt. Við, sem stöndum að brtt. minni hl., teljum, að þetta nái alls ekki þeim tilgangi, sem við álítum, að þurfi í þessu efni. Menn hafa safnað skuldum af ýmsum öðrum ástæðum. Menn hafa byrjað búskap á þessum tíma, þeir hafa safnað skuldum vegna harðæris og ýmissa óhappa, og það verður ákaflega erfitt að greina á milli, þannig að við teljum, að á þennan hátt eigi gr. og megi ekki vera. Við leggjum til, að þessi gr. orðist svo með leyfi forseta:

„Bankavaxtabréf þessi skulu eingöngu notuð til að breyta í föst lán lausaskuldum bænda, sem ekki hafa fengið nægileg lán til hæfilegs tíma til framkvæmda, sem þeir hafa ráðizt í á bújörðum sínum 1960–1968, svo og lausaskuldum vegna véla og fóðurkaupa á sama tíma, að báðum árum meðtöldum, og enn fremur til lánveitinga handa fyrirtækjum, er á fyrrnefndu tímabili hafa komið upp vinnslustöðvum fyrir landbúnaðarafurðir, en ekki fengið nægilegt fjármagn til langs tíma til þeirra framkvæmda.“

Við sem sagt leggjum einnig til, að vinnslustöðvar landbúnaðarins njóti þarna einnig fyrirgreiðslu í sambandi við þessa breytingu á skuldunum. 2. gr. hljóðar þannig í frv. með leyfi forseta:

„Lán samkv. lögum þessum skulu aðeins veitt gegn veði í fasteignum bænda ásamt mannvirkjum, sem á jörðinni eru. Lánstími skal vera allt að 20 ár. Vaxtakjör skulu ákveðin af stjórn veðdeildarinnar að höfðu samráði við ráðh.“

Eins og ég mun sýna fram á síðar, eru ýmsir með það erfiðar ástæður, að það er alls ekki mögulegt fyrir þá að borga neitt niður af þessum lánum, og ef þau yrðu með þeim vöxtum, sem manni er sagt, að sé hugmyndin, að á þessum lánum verði 81/2–9% vextir, þá sjáum við það, að þeirra vandræði, sem nú eru mikil, verða enn meiri. Við teljum því, að það þurfi að breyta þessu og leggjum til, að 2. gr. orðist þannig:

„Lán samkv. lögum þessum skulu veitt gegn veði í bújörðum bænda ásamt mannvirkjum, sem á jörðinni eru, vélum og vinnslustöðvum landbúnaðarins. Lánstími skal vera allt að 30 ár. Vaxtakjör skulu ákveðin af stjórn veðdeildarinnar að höfðu samráði við ráðh., en þó séu vextirnir ekki hærri en 61/2%.“

En við gerum ekki till. um breytingu á 3. gr., en 4. gr. í frv. er þannig með leyfi forseta:

„Lán samkv. lögum þessum, að viðbættum veðskuldum þeim, sem hvíla á fyrri veðréttum, skal ekki nema hærri upphæð en 75% af matsverði veðsins.“

Og 6. gr. er þannig:

„Að því leyti, sem ekki brýtur í bága við ákvæði laga þessara, gildir ákvæði III. kafla laga nr. 115 frá 7. nóvember 1941 um lánveitingar samkv. lögum þessum.“

En 22. gr. nefndra laga, þ.e.a.s. III. kafla laga um Búnaðarbanka Íslands, er þannig með leyfi forseta: „Eignir þær, sem veðdeildin tekur að veði, skal á kostnað lánþega virða á þann hátt, sem nánar verður tiltekið í reglugerð. Má þar m.a. ákveða, að stjórn Búnaðarbankans megi tilnefna virðingarmenn. Þar má og heimila, að gildandi fasteignamat komi í stað virðingar á veðinu eftir tilteknum reglum og ákvörðun bankastjórnar.“

Við viljum og leggjum til, að það séu í lögunum alveg ákveðnar reglur um þessa virðingu, en ekki annaðhvort að fasteignamatið gildi eða þær séu virtar, og þess vegna leggjum við til, að 4. gr. orðist svo með leyfi forseta:

„Lán samkv. lögum þessum, að viðbættum veðskuldum þeim, sem hvíla á fyrri veðréttum, skal ekki nema hærri fjárhæð en 80% af matsverði veðsins, en matsverðið skal ákveðið af dómkvöddum mönnum á þann hátt, sem tíðkazt hefur vegna lántöku í veðdeild Búnaðarbankans.“

Á eftir 4. gr. leggjum við til, að komi tvær nýjar greinar, sem orðist svo:

5. gr. Seðlabankinn kaupir bankavaxtabréfin, sem notuð verða til lánveitinga samkv. 1. gr., fyrir nafnverð. 6. gr. verði þannig: Heimilt er að veita bændum sérstaka fjárhagsfyrirgreiðslu sakir harðæris og annarra stóráfalla í búskap, svo og frumbýlingum, er staðið hafa í nauðsynlegum framkvæmdum, en skortir veð samkv. 4. gr. Landbrh. skipar þrjá menn til þess að meta þarfir og fyrirgreiðslu þessa. Skal einn tilnefndur af Búnaðarfélagi Íslands, einn tilnefndur af Stéttarsambandi bænda og einn skipaður án tilnefningar.

Eins og fram hefur komið í umr. um þetta mál fól hæstv. landbrh. harðærisnefnd að gera nokkurs konar eignakönnun hjá bændum. Hefur nefndin sent frá sér skýrslu um þessa könnun og nær hún til ársloka 1967. Vantar því alveg inn í myndina árið 1968. En vitað er, að það ár varð mjög erfitt bændum vegna hins dæmalausa yfirdóms, sem féll 1. desember 1967, þar sem verðlagsgrundvöllurinn frá fyrra ári var framlengdur næsta verðlagsár án þess að láta þau hlunnindi, sem kölluð voru á sínum tíma hliðarráðstafanir, frá fyrra ári fylgja með eða gera neina leiðréttingu á verðlagsgrundvellinum, þó að fyrir lægi, að bændur hefðu ekki haft hálfar tekjur miðað við viðmiðunarstéttirnar það ár. Enn fremur kom gengisfellingin 1967 mjög illa við bændur, því að þó að þeir fengju hækkun á verðlagsgrundvellinum 1. janúar 1968, sem hækkuninni nam á rekstrarvörunum miðað við einingarverð, þá vantaði mjög á það, að magntölur í grundvellinum væru réttar miðað við notkun þeirra og lenti því stór hluti af þessum hækkunum á bændum. Í þriðja lagi var tíðarfar erfitt fyrir landbúnaðinn, hafís og harðindi og af þeim ástæðum óvenju mikill tilkostnaður víðast hvar á landinu.

Enginn vafi er á því, að sú mynd, sem harðærisnefnd dregur upp af efnahag bænda, breytist mjög til hins verra, þegar þetta síðasta ár er tekið með. Á það skal bent í þessu sambandi, að bændur nutu ekki nema að hluta til þeirra verðhækkana, sem urðu á afurðum þeirra 1. janúar 1968, því að útflutningssjóðurinn nægði ekki til að greiða útflutningsbætur vegna verðbólguþróunarinnar í landinu og varð því að grípa til þess ráðs að hækka verðjöfnunargjald af framleiðsluvörum bænda í 3 kr. kg af dilkakjöti og 28 aura á mjólkurlítrann og voru á þann hátt teknar 49.3 millj. af bændum árið 1968. Má því segja, að mestöll hækkunin af gengisfellingunni 1967 á rekstrarvörum landbúnaðarins hafi lent á bændastéttinni án bóta, og hefur það ekki lítil áhrif á stöðuna nú.

Þessi skýrsla nær ekki til 500–800 bænda, að harðærisnefnd telur, eða allra þeirra, sem ekki töldu fram til skatts árið 1967. Að áliti þeirra, sem bezt til þekkja, mun stærsti hópur þessara bænda vera mjög illa stæður, og er líklegt, að þegar þeir hafa verið skoðaðir, hækki talsvert hlutfallstala þeirra, sem mjög höllum fæti standa nú efnalega. Niðurstaða þessarar eignakönnunar stendur einnig á mjög veikum grunni, hvað mati á eignum bænda viðkemur miðað við það ástand, sem nú er hjá stórum hluta bændastéttarinnar. Væri normalt ástand í landbúnaði, væri annað mál, en það er langt frá því, að það sé. Það er ekki annað sýnna en æðistór hluti bænda hafi engin ráð til að kaupa þann áburð, sem ræktað land þeirra þarf á þessu vori, svo að líklegt sé, að þeir fái heyfóður handa búpeningi sínum. Verði heyfóður af skornum skammti á næstu haustnóttum og þurfi þá að fara með hluta af bústofninum á blóðvöll, er ég hræddur um, að afföll verði á eignum þeirra bænda miðað við þetta eignarmat. Og þeir, sem verða að gefast upp við búskapinn af fjárhagsörðugleikum eða öðrum ástæðum — þar sem þetta frv., ef að lögum verður óbreytt, leysir engan vanda hjá þeim, sem verst eru settir — hvað fá þeir fyrir jarðir sínar? Er það líklegt, að það nemi þeirri upphæð, sem harðærisnefnd leggur til grundvallar í mati sínu? Það a.m.k. efa ég, nema þá sé um hlunnindajarðir að ræða. Sé þar jarðhiti eða fylgi veiðiréttur, er áhugi fyrir slíkum jörðum af þéttbýlismönnum, en til búrekstrar lítill áhugi, og í sjálfu sér eru jarðir nú óseljandi til búrekstrar, og er það í réttu samræmi við afkomumöguleika bænda nú. Og ekki er líklegt, að rofi til í því efni eins og nú horfir.

Þegar 1. umr. fór fram um þetta mál, var ég ekki kominn til þings úr páskaleyfi, en ég las yfir ræður hæstv. landbrh., sem hann flutti við umr. og þar var sannarlega mörg gullkorn að finna, alls ekki færri en vanalega. Eitt af þeim var þetta,með leyfi hæstv. forseta:

„Það kom nú bóndi að máli við mig fyrir stuttu og ræddi um áburðarkaupin, og ég yfirheyrði hann, hvað hann hefði framleitt árið, sem leið. Og við reiknuðum út hvaða hækkanir hann hefði fengið frá því í fyrra og hvað tekjurnar hefðu aukizt vegna verðhækkana, og við komumst nú að þeirri niðurstöðu, að sá bóndi, sem telst svona í meðallagi, hafi fengið verðhækkanir á mjólk og kjöti til þess að geta keypt áburð og fóðurbæti og aðrar nauðsynjar.“

Þetta er orðrétt eftir sjálfum landbrh. Hvernig lízt hv. alþm. á? Er verið að undirbúa það, að þær verðhækkanir, sem urðu af völdum síðustu gengisbreytinga og ekki hafa nú verið teknar inn í verðlagið, lendi á bændum og verði ekki teknar inn í grundvöllinn, ekki einu sinni á næsta hausti? Eða hvað eiga menn að halda? Eða getur það virkilega verið, að hæstv. landbrh. skilji eins lítið í þessum málum eins og fyrrgreind ummæli hans gefa tilefni til að halda, ef ekki liggur eitthvað annað að baki þessum ummælum. Veit hæstv. landbrh. ekki, eða er hann búinn að gleyma því, að bændur höfðu aðeins hálfar tekjur og varla það fyrir árið 1967 miðað við viðmiðunarstéttirnar og fengu enga hækkun 1968 á grundvellinum, voru sviknir um gengishagnaðinn af ullar- og gærusölu að fyrirmælum ríkisstj. í sambandi við gengisfellinguna 1967 og þessi gengishagnaður notaður til þess að borga niður kjöt á innlendum markaði, og urðu að bera bótalítið allar þær hækkanir, sem urðu á rekstrarvörum landbúnaðarins vegna áhrifa frá gengisfellingunni 1967? Sú hækkun, sem yfirdómur úrskurðaði í haust á verðlagsgrundvellinum, var því aðeins hluti af því, sem þurft hefði til þess að leiðrétta áorðna skekkju liðinna ára. Og ýmsir liðir grundvallarins eru mjög óhagstæðir bændum. En út í það skal lítið farið að sinni. Þó get ég ekki látið það óátalið, að grundvallarbúið var úrskurðað stærra en það er í dag, og mun það sennilega vera 40–50 ærgildum of stórt, en þetta er aðeins um eina skekkjuna af mörgum.

Vegna þessara einkennilegu ummæla hæstv. landbrh. fór ég að athuga, hverjar væru þær verðhækkanir á rekstrarvörum landbúnaðarins vegna áhrifa frá síðustu gengisfellingu, sem ekki voru teknar inn í verðlagsgrundvöllinn í haust. — Þ.e.a.s. þá var tekinn hluti frá áhrifum af 20% gjaldinu og niðurstaðan varð þessi. Þar tek ég áburðinn með, því að nú er komið verð á honum og miðað við grundvallarbúið er sú hækkun 20114 kr. Á kjarnfóðrinu tæp 17 þús. kr., og þetta er í mörgum liðum, sem ég ætla nú ekki að lesa upp alla saman. Ég tók alla liðina nema hækkun á rafmagnstöxtunum og símagjöldunum. Og niðurstaðan varð sú, að hækkanirnar á þessu vísitölubúi voru hvorki meira né minna en 62 þús. 398 kr. 40 aurar. Í þessu er sú vísitöluhækkun á kaup, sem átti að koma inn 1. desember. En bændur hafa fengið nú 60 aura á hvern mjólkurlítra, sem gerir 17700 kr. Eftir standa því tæp 45 þús. kr. af grundvellinum. Sannleikurinn er sagna beztur og þannig er niðurstaðan í þessu máli.

Vegna margendurtekinna fullyrðinga landbrh. um, að framkvæmdir í landbúnaði hafi verið meiri í hans stjórnartíð en áður, framleiðsluaukningin meiri í landbúnaði og lánasjóðir landbúnaðarins hafi lánað hlutfallslega meira en áður, verður ekki hjá því komizt að líta ögn um öxl til að kanna það, hvað rétt er í þessu efni. Um síðustu aldamót höfðu 71.3% af þjóðinni lífsafkomu sína af landbúnaði. 50 árum síðar, þegar 20. öldin var hálfnuð, var þessi hlutfallstala orðin aðeins 20%. Síðustu 18 árin hefur þetta hlutfall enn lækkað allt að helmingi, og munu vera um 10% af þjóðinni, sem nú stunda landbúnað. Hins vegar hafa margir í þéttbýlinu framfærslu sína af þessari framleiðslu með margs konar hætti. Þessar tölur sýna hina miklu þjóðfélagsbyltingu, sem átt hefur sér stað á 20. öldinni og þó aðallega á síðustu þrem til fjórum áratugunum. Framkvæmdir hafa þó að langmestu leyti verið gerðar eftir síðustu heimsstyrjöld eða síðustu 25 árin. Árið 1948 var kindakjötsframleiðslan í landinu 4330 tonn, árið 1958 9920 tonn og jókst því á þessu 10 ára tímabili um 5590 tonn eða meira en tvöfaldaðist. Árið 1968 var kindakjötsframleiðslan 12200 tonn; eða hafði aukizt á þessu tímabili um 2300 tonn. Innvegin mjólk hjá öllum mjólkursamlögum á landinu árið 1948 var 32 millj. 316 þús. ltr. Árið 1958 var þessi tala orðin rúml. 69 millj.; eða hafði aukizt á þessum áratug um 36 700 000 lítra eða töluvert meira en tvöfaldazt. Árið 1968 mun innvegin mjólk hjá mjólkurbúum hafa orðið tæplega 102 millj. lítra; eða tæplega 37 millj. lítra aukning á þessum áratug.

Síðustu 7 árin hefur framleiðsluaukningin orðið mikið hægari en áður eða tæplega 20% af mjólk og tæp 7% af kjöti. Það er auðvelt að rekja orsakir þess til þeirrar breyttu stefnu, sem upp var tekin, þegar viðreisnarstjórnin komst til valda í árslok 1958, því að áhrifanna frá vinstri stjórnar árunum hefur gætt allt til ársins 1961, sérstaklega hvað mjólkurframleiðslu áhrærir, og ég kem betur að því síðar. Á meðan Framsfl. hafði úrslitaáhrif á landbúnaðarmálin fylgdi hann þeirri stefnu að halda niðri framkvæmdakostnaði og rekstrarliðum með margs konar hætti. Skýrasta dæmið um þá breytingu, sem varð á stefnu og framkvæmd þessara mála, þegar viðreisnarstjórnin komst til valda og ætti að verða þeim bændum, sem fylgt hafa stjórnarflokkunum að máli, umhugsunarefni, er, hvernig lánamál landbúnaðarins hafa breytzt frá því, sem áður var.

1958 voru rekstrarlán landbúnaðarins 161 millj. kr. Sambærileg tala nú ætti að vera sem næst því 500 millj., en rekstrarlánin eru enn eins að krónutölu og þau voru árið 1958. Auðvitað er þarna að finna skýringuna á þeim miklu rekstrarerfiðleikum, sem verzlunarfyrirtæki bænda hafa við að stríða í vaxandi mæli. Það hlýtur að segja einhvers staðar til sín, að rekstrarlán hafa minnkað niður í það að vera 1/3 af því, sem þau voru áður, en það er það sem skeð hefur. Lán Stofnlánadeildar Búnaðarbankans voru með 21/2–4% vöxtum. Nú eru þessi lán með 6 og 61/2% vöxtum, og sé stofnlánaskatturinn tekinn með, sem er bæði eðlilegt og sjálfsagt að gera, þá eru þær greiðslur, sem bændur eru látnir inna af hendi til Stofnlánadeildarinnar, nú yfir 11% miðað við þær skuldir, sem þeir voru í við Stofnlánadeildina í árslok 1967; eða vaxtabyrðin í prósenttölu hefði þá hækkað þrisvar sinnum frá því, sem áður var. Það þarf enginn að halda, að þetta tvennt hafi ekki haft mikil áhrif á hina óheillavænlegu þróun á afkomu og rekstraraðstöðu bænda síðari árin. Þetta jafngildir því, að bændur fá 1 kr. nú, en fengu 3 kr. áður í rekstrarlán, en þurfa að borga nú til Stofnlánadeildarinnar 3 kr., miðað við 1 áður að meðaltali af sömu upphæð. Þegar stofnlánaskatturinn var lögfestur á Alþingi var sagt, að tilgangurinn með honum væri sá, að bændur gætu fengið hærri stofnlán en áður og með því móti mætti komast hjá, að þeir söfnuðu lausaskuldum.

Til að sannprófa, hvernig hefur verið staðið við þetta fyrirheit, hef ég athugað lánveitingar á 12 ára tímabili úr stofnlánasjóðum Búnaðarbankans 1951–1967. Ég umreiknaði lán hvers árs yfir í byggingarvísitölu ársins 1955, þannig að sambærileg tala fáist. Síðan hef ég tekið meðaltal af árunum 1955–1958 að báðum meðtöldum og hins vegar af árunum 1959–1967, og kemur þá í ljós, að meðaltal lánsupphæðar fyrra tímabilið reyndist vera 40.768 kr., en hið síðara 36.398 kr. eða 4370 kr. minna hvert lán að meðaltali; eða framkvæmdamáttur hvers láns lækkaður um rúmlega 10%. Það fyrirheit, að stofnlánin yrðu látin hækka með tilkomu stofnlánaskattsins, hefur orðið þetta í reynd.

Hin breytta stefna er fólgin í því, að fyrir viðreisn fengu lánasjóðir landbúnaðarins fjárframlög beint úr ríkissjóði, en nú eru bændur látnir byggja upp sjálfir Stofnlánadeildina með háum vöxtum og sérstökum launaskatti. Í umr. um stofnlánadeildarskattinn sagði hæstv. landbrh., að þó að vextir hækkuðu og allar rekstrarvörur, gerði það bændum ekki til. Þeir fengju það allt aftur í hækkuðu verði á framleiðsluvörum sínum. Ekki dettur mér í hug, að hæstv. landbrh. vilji ekki, að hlutur bænda sé sem allra beztur. Enginn vafi er á því, að hæstv. landbrh. ætlaði bændum sinn hlut fyrir vinnu sína til jafns við aðra þegna þjóðfélagsins. Hann trúði því sjálfur, að sú lagabreyting, sem hann kom á í landbúnaðarmálum, mundi reynast bændum til heilla. Hans draumur var, að sagan mundi verða skráð á þann veg, að hann sem landbrh. hefði orðið brautryðjandi og borið höfuð og herðar yfir aðra ráðh., sem með þessi mál höfðu farið. Hann var einu sinni framsóknarmaður, en komst ekki þar áfram, eins og metnaður hans stóð til. Hann gekk þá í Heiðnaberg íhaldsins. Hann vildi sýna og sanna það fyrir bændum og þjóðinni allri, hann væri vaxinn upp úr þeim skoðunum, þeirri stefnu, sem framsóknarmenn hefðu stjórnað eftir. Þess vegna yrði hann að móta nýja stefnu, stefnu, sem yrði kennd við hann sjálfan og þann flokk, sem hann nú fylgdi. En það, sem hæstv. landbrh. flaskaði á, var þrennt. Hann mótaði stefnu án þess að skilja, til hvers hún mundi leiða. Hann tilheyrði flokki, sem hann þekkti ekki og skildi því síður. Samstarfsflokkurinn um stjórn landsins hafði það fyrst og fremst að markmiði að minnka landbúnaðarframleiðsluna og fækka bændum, en aðferðin, sem hann taldi árangursríkasta til að ná því marki, var að þrengja kjör bænda sem mest, þannig að þeir yrðu sveltir af jörðum sínum. Hæstv. landbrh. var því í algerri villu, er hann settist í ráðherrastólinn, og verst af öllu var það, að hann gerði sér alls ekki grein fyrir því. Ég vil sérstaklega undirstrika það, að hæstv. landbrh. trúði því sjálfur, að bændur mundu fá allt í hækkuðu afurðaverði. Því skipti ekki máli, þó að vextir hækkuðu og allur tilkostnaður, og því lét hann aðra leiða sig inn á þessar villigötur. Engir veltuskattar eða söluskattar á landbúnaðarvörum þekktust fyrir valdatíð viðreisnar og höfuðstefnan sú að halda niðri verði á rekstrarvörum landbúnaðarins og stuðla að hagkvæmari rekstri með beinum framlögum. Þetta er einmitt sú stefna, sem nágrannaþjóðirnar fylgja í landbúnaðarmálum, því að landbúnaðarvörur eru allstór hluti af verzlun almennings og verð þeirra hefur því mikil áhrif á kaupkröfur neytendanna og þar af leiðandi á framleiðslukostnað í viðkomandi landi.

Landbúnaður nágrannaþjóðanna hefur yfirleitt aðgang að nægu fjármagni til langs tíma með lágum vöxtum. Bændurnir þar þurfa ekki að byggja upp sína lánasjóði sjálfir með sérstökum skatti og háum vöxtum, eins og íslenzkir bændur eru látnir gera. Víða erlendis er verðlagi á rekstrarvörum landbúnaðarins haldið niðri með beinum niðurgreiðslum og landbúnaðurinn að ýmsu öðru leyti aðstoðaður. Þótt verð á framleiðsluvörum hans sé víða lágt, hafa bændur sæmileg kjör miðað við aðrar stéttir. Menn ættu að hugleiða þennan samanburð, er þeir bera saman framleiðslukostnað hér og erlendis á framleiðslu landbúnaðarins. Og flestir ættu að skilja það, að þessi aðstaða íslenzkra bænda gerir það að verkum, að þeir geta ekki orðið samkeppnisfærir á erlendum mörkuðum nema breytt sé aftur um stefnu í þessum málum og horfið að þeirri stefnu, sem við framsóknarmenn fylgjum og allar nágrannaþjóðir okkar gera allt til þessa dags. En verðbólga er engum atvinnuvegi til eins mikils tjóns og landbúnaðinum, en einmitt aðaleinkenni viðreisnarstefnunnar er verðbólgustefnan. Háir vextir leiða af sér aukinn framleiðslukostnað, hækkað verð á framleiðsluvörum og aukinn tilkostnaður leiðir auðvitað til hins sama. Hærra verð þarf því að fást fyrir afurðirnar og af því leiðir svo auknar kaupkröfur almennings til þess að geta veitt sér það sama og áður. Hin breytta stefna sagði líka fljótt til sín. Þrátt fyrir gott árferði og vaxandi framleiðslu uxu skuldir bænda mjög ört fyrstu ár viðreisnar og 1961 var svo komið, að margir bændur voru komnir í greiðsluvandræði, og háværar raddir heyrðust víða um, að lausaskuldunum yrði að koma í föst lán og við þessari kröfu var orðið 1962. Nú segir hæstv. landbrh. og hans málgögn, að framsóknarmenn hafi ekkert um þetta hugsað, en þörfin fyrir það hafi verið fyrir hendi á meðan við fórum með þessi mál. Í þessu sambandi vil ég benda á, að það voru engar óskir uppi um það að breyta þyrfti lausaskuldum í föst lán á meðan við fórum með landbúnaðarmálin. Og það má ekki falla úr minni að víxilvextir voru lægri áður en viðreisnarstjórnin komst til valda en vextir voru af þessum föstu lánum, sem bændur fengu 1962. Víxilvextir voru um tíma 12%, hækkuðu um 5% frá því sem áður var. Það var því ekkert undarlegt, þó að vaxtabyrðin lægi þungt á mörgum bændum og gleypti drjúgan hluta tekna þeirra. Hæstv. landbrh. og málgögn hans hafa hælzt mjög yfir því, að þeir hafi tekið upp útflutningstryggingu á útfluttar landbúnaðarafurðir og hafa talið, að þar væri um að ræða mjög merkt nýmæli á þessu sviði, þar sem bændum væri tryggt fullt grundvallarverð fyrir afurðir sínar um næstu framtíð. Því er fyrst til að svara, að útflutningstrygging var alls ekki óþekkt 1960 fyrir útfluttar landbúnaðarafurðir. Sett var löggjöf 1955 um framleiðslusjóð til uppbóta á útflutta íslenzka framleiðslu bæði til lands og sjávar og síðan löggjöf um útflutningssjóð í sama skyni. Útfluttar landbúnaðarvörur fengu á þessum árum yfirleitt sömu útflutningsbætur eins og þær sjávarafurðir, sem hæstar uppbætur fengu á hverjum tíma. T.d. árið 1955 voru greidd 35% til þeirra landa, sem greiddu í frjálsum gjaldeyri, en 17.5% til vöruskiptalanda. Þessar útflutningsbætur fóru hækkandi ár frá ári og komust hæst upp í 94% 1958. Áður en 10% útflutningstryggingin var lögfest höfðu bændur rétt til þess að hækka verð á framleiðslu sinni á innanlandsmarkaði, sem því nam er vantaði á framleiðsluverðið fyrir það sem út var flutt á hverjum tíma. Þessi réttur bænda, sem var á sínum tíma staðfestur með hæstaréttardómi, verkaði þannig eða tryggði það, að ríkisstj. hvers tíma hugði mjög að því að gera ráðstafanir til þess að halda niðri framleiðslukostnaði landbúnaðarins. Þessi réttur bænda var því þeim mikils virði, en hann var af þeim tekinn 1960 af viðreisnarstjórnarflokkunum, og þeir fengu í staðinn útflutningstryggingu, sem átti að sögn hæstv. landbrh. að tryggja bændum verðlagsgrundvallarverð um langa framtíð. Á þennan hátt var mikilvægt vopn tekið úr höndum bænda, sem þeir höfðu getað sýnt og notað til þess að koma í veg fyrir slendurteknar hækkanir á öllu, sem til framleiðslu þeirra þarf, eða að öðrum kosti að hækka verð á framleiðsluvörum sínum á innlendum markaði til þess að ná verðlagsgrundvallarverði fyrir það, sem út var flutt. Ekki liðu nema fá ár, þar til útflutningstryggingin nægði ekki lengur, svo ör varð verðbólguþróunin í landinu, þrátt fyrir það að viðreisnarstjórnin sagði í upphafi valdatöku sinnar, að þeirra aðalstefnumál væri að vinna bug á verðbólgunni. 1961, fyrsta árið, sem útflutningsuppbætur voru greiddar eftir að þessi nýja skipun varð á þessum málum, varð uppbótaþörfin rúmar 21 millj. kr. en 1964 nægði útflutningstryggingin ekki lengur, og síðan hafa myndazt vaxandi birgðir í landinu af landbúnaðarvörum, sem ekki hefur verið hægt að flytja út, þar sem engar útflutningsuppbætur hefur verið hægt að greiða með þeim. Og þrátt fyrir þessar 2 síðustu gengisfellingar 1967 og 1968, þótt allur gengishagnaður á útfluttum landbúnaðarvörum hefði fengizt af síðustu gengisfellingu, en hann er nú talinn vera allt að því 160 millj. kr., þá mundi það ekki nægja, ef hreinsa ætti til í þessu efni. Það mundi samt vanta 50–70 millj. kr., ef bændur ættu að fá grundvallarverð, en nú hefur verið sett 5 kr. verðjöfnunargjald á kindakjöt; á dilkakjöt, og 2,50 á ærkjöt. Þetta sýnir, hvernig verðbólgan hefur leikið þennan atvinnuveg á liðnum árum, hvernig komið er fyrir þjóðinni á 9. ári þeirrar ríkisstj., sem skírði sjálfa sig viðreisn. Það má færa full rök fyrir því, að annaðhvort sé, að það sé engin leið að framleiða neitt í okkar landi, þótt við séum rétt við fengsælustu fiskimið jarðarinnar, höfum við rekið okkur óþyrmilega á það, að sá atvinnuvegur getur ekki borgað mannsæmandi laun, hvað þá aðrir atvinnuvegir, eða hitt að stjórnarstefna liðinna ára hafi reynzt þjóðinni svo heil, að þar sé að leita orsakanna fyrir því, hvernig komið er í þessu efni. Ég er ekki í minnsta vafa um, að það eru nægir möguleikar í landi okkar og í sjónum umhverfis það. Hvorki landið eða þjóðin hefur brugðizt, það er stjórnarstefnan, sem hefur frá upphafi stefnt öllu til rekstrarstöðvunar og atvinnuleysis og afleiðing hvors tveggja er svo kreppukyrkingur, sem nú er að heltaka allan þjóðarlíkamann. Hvern dag, sem líður, stækkar sá hópur landsmanna, sem skilur þetta en það nægir ekki, þegar forystan og vitringaliðið trúir enn á forskrift viðreisnarinnar, þrátt fyrir andstreymið og allar staðreyndir.

Hæstv. landbrh. hefur oft haldið því fram, að fyrir hans stjórnarferil hafi oft vantað mikið á það, að bændur fengju verðlagsgrundvallarverð, en hitt er ekki síður staðreynd, að eftir að hann tók við ráðherrastólnum, vantaði meira en áður hafði þekkzt í þessu efni. Verðlagsárið 1959–60 vantaði 3362 kr. upp í verðið, eða 2.7% eða 0.5% meira en dæmi voru til áður. Ef flutt hefði verið út 3 síðustu árin eins og þörf var á, hefði vantað enn meira af grundvallarverðinu 1960. Þetta sýnir eina hliðina á þessu máli í réttu ljósi. Landbrh. hefur sagt frá því sem dæmi um það, hvernig hann og hans flokkur hafi rétt hlut bænda á liðnum árum, að vinnuliður verðlagsgrundvallar hafi hækkað á árunum 1960–66 um 144%, en á sama tíma hafi umsaminn taxti verkamanna aðeins hækkað um 100%. Þessar tvær tölur áttu að sýna það og sanna, að sögn hæstv. ráðh., hvernig hlutur bænda hefði mikið batnað undir hans forystu. E.t.v. trúir hæstv. ráðh. því, að þessar tvær tölur segi eitthvað um það, hvort bændur hafi fengið leiðréttingu mála sinna á umræddu tímabili eða ekki, en trúi hann því í raun og veru, sýnir það, hvað hann skilur lítið í þessum málum og er þá ekki að undra, hve illa er komið fyrir bændum með slíka forystu. Það, sem hefur skeð á þessum árum, sem er afleiðing aukinnar ræktunar og vaxandi framleiðslu, er, að bændur hafa notað í auknum mæli ýmsar rekstrarvörur. En það hefur aftur á móti ekki fengizt viðurkennt, nema að litlu leyti, þegar verðlagsgrundvöllurinn hefur verið ákveðinn hverju sinni. Svo langt hefur þetta gengið, að mikill hluti sumra rekstrarvara hefur ekki fengizt tekinn inn í grundvöllinn. Þar sem magntölur rekstrarvaranna í samræmi við vaxandi notkun þeirra fengust ekki viðurkenndar og hin hraðvaxandi fjármagnsþörf vegna óðaverðbólgu, þá verkar það á,vinnuliðina fyrst og fremst og beinlínis ákvarðar, hvað vinna hefur í sinn hlut, en ekki þessar samanburðartölur, sem hæstv. ráðh. er alltaf að hampa. Og það var það sem skeði, t.d. árið 1967, þegar bændur náðu ekki því að hafa hálfar tekjur viðmiðunarstéttanna. Þar er að finna blákaldan og beizkan sannleikann, hvernig tekizt hefur með gerð verðlagsgrundvallarins á liðnum árum. Þó eru fyrir því skýr og ótvíræð lagafyrirmæli, að verð á landbúnaðarvörum á innlendum markaði skuli miðast við það að heildartekjur bænda séu í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta. Þessu lagafyrirmæli hefur aldrei tekizt að framfylgja og liggja til þess ýmsar orsakir. Þó mun hin öra dýrtíðaraukning hafa valdið þar mestu um, og svo hin vaxandi notkun á rekstrarvörum, sem ekki fékkst tekin inn í verðlagsgrundvöllinn við ákvörðun búvöruverðs hverju sinni, eins og áður sagði. Árin hafa komið mjög misjafnlega út að þessu leyti. Árið 1965 hafa bændur sennilega komizt næst því að ná svipuðum tekjum og viðmiðunarstéttirnar höfðu það ár, en síðari árin, t.d. 1967, höfðu bændur aðeins að meðaltali 95 þúsund kr., en þá höfðu viðmiðunarstéttirnar 228 þús. kr. að meðaltali og ekkert bendir til þess, að síðasta ár hafi reynzt bændum hagstæðara að þessu leyti.

Í nóvembermánuði 1967, þegar yfirdómur í verðlagsmálum landbúnaðarins sat að störfum, sagði ég í þingræðu, að ég hefði um það rökstuddan grun, að dómurinn mundi ekki úrskurða bændum neina hækkun á framleiðslu þeirra, þrátt fyrir að fyrir lægi rökstuðningur á því, að búðarverðið þyrfti að hækka 25–28%, svo nokkur von yrði til þess að bændur hefðu út úr búum sínum sambærileg laun við aðrar stéttir. Hæstv. landbrh. rauk upp og sagði, að ég hefði í frammi ósæmilegar aðdróttanir. Dómurinn var upp kveðinn í desemberbyrjun, búvöruverðið óbreytt. Í grg. þeirri, sem yfirdómnum fylgdi, kom fram, að verð á ull og gærum hefði verið ákvarðað á þann hátt, sem gert var, vegna skilaboða frá ríkisstj., og í grg. var enn fremur viðurkennt, að niðurstaða dómsins væri ekki samkvæmt gildandi lögum. Þar sem ég hef áður rætt þessar niðurstöður yfirdóms 1967 allítarlega, ræði ég það ekki frekar að sinni, en það sem gerðist í raun og veru, var það, að dæmdar voru af bændum hálfar nettótekjur þeirra á því ári og ekki hikað við að sniðganga lög til þess að koma þessum rangindum fram. Þegar lög um gengishagnað landbúnaðarins vegna gengisfellingarinnar í nóvember 1967 voru afgr. frá Alþ., þá var í þeim ákvæði um það, að búvöruverðið skyldi hækka í janúar 1968, sem þeim hækkunum næmi á rekstrarvörum landbúnaðarins, sem af gengisfellingunni leiddi. En í lögum um gengishagnað landbúnaðarins vegna gengisfellingarinnar 11. nóvember 1968 var ekkert ákvæði sett inn um að búvöruverðið skyldi hækka. Þarna er um greinilega og alvarlega stefnubreytingu að ræða, sem ekki er líklegt að hæstv. landbrh. hafi þótt ánægjulegt að framkvæma, en þessi stefnubreyting er án efa samkvæmt forskrift þess, sem raunverulega ræður í öllum efnahagsmálum þjóðarinnar nú, hæstv. menntmrh. með meiru. Og því er sjálfsagt ekkert við því að gera, samkv. fyrri reynslu.

Ef dæma má af mörgu því, sem hæstv. landbrh. sagði í umr. um þetta mál fyrra fimmtudag, þá bendir ekkert til þess, að hann hafi mikið lært í því efni, þrátt fyrir það ástand, sem nú ríkir hjá bændastéttinni. Og ekki kæmi það mér á óvart, þó ýmsir þeir bændur, sem hafa fylgt ráðh. og flokki hans að málum fram að þessu, hrökkvi illa við og fari að hugleiða ráð sitt betur, er þeim berst það til eyrna, að þessi séu ummæli ráðh., þar sem flestum bændum er vel kunnugt um það rétta í þessum málum. T.d. sagði hæstv. ráðh. þetta fyrra fimmtudag, með leyfi forseta:

„77.7% af bændum eru hins vegar vel settir, þar sem skuldir þeirra eru ekki það miklar, að greiðslubyrði þeirra vegna sé óeðlilega þung.“

Ef farið er að athuga, hvað ráðh. hæstv. er að fara, hvar hann hefur gripið þessar tölur, sem hann svo dregur þessa furðulegu niðurstöðu af, kemur í ljós, að í skýrslu harðærisnefndar segir, að 77.7% bænda skuldi minna en sem svarar brúttótekjum þeirra. Ekki get ég séð, að slík uppgötvun segi neitt um efnahag eða greiðslugetu þessara bænda. Það þýðir lítið að hafa háar brúttótekjur, ef mestallt fer í kostnað. Það er ofar mínum skilningi, að sjálf veltan segi mikið um það, hvernig greiðslugetan sé. Og það þýðir lítið að virða jarðir hátt og miða efnahag bænda við það, séu jarðirnar óseljanlegar, eins og nú er. Það er ekkert raunhæft í slíku. Svona málflutningur minnir mig á mann, sem ég heyrði talað um, þegar ég var ungur. Hann keypti fisk fyrir 40 aura kílóið en seldi hann aftur á 38 aura kílóið. Þegar hann var spurður að því, hvernig hann stæði við að verzla á þann hátt, var svarið það, að hagnaðurinn kæmi ef veltan yrði nógu mikil.

Í skýrslu harðærisnefndar kemur það fram, að 2022 bændur, eða 42.4%, skulda meira en tvöfaldar nettótekjur þeirra, og er enginn vafi á því, að þessir bændur eru í greiðsluerfiðleikum. 1044 bændur skulda meira en fjórfaldar nettótekjur þeirra, og allir ættu að sjá, sem á annað borð skilja nokkuð í búrekstri, að allir þessir bændur eru í miklum þrengingum, og allt í óvissu með búskap þessara bænda, ef nettótekjur þeirra vaxa ekki að miklum mun. Hæstv. landbrh. sagði enn fremur við fyrstu umr. þessa máls í hv. deild, með leyfi hæstv. forseta:

„423 eða 8.8% bænda skulda meira en fjórfaldar, en minna en fimmfaldar nettótekjur. Fyrir þessa bændur kemur sér áreiðanlega vel að breyta lausaskuldum í föst lán til þess að létta þannig árlega greiðslubyrði vegna skuldanna. Aðstaða þeirra ætti að vera sæmileg, eftir að skuldunum hefur verið breytt.“

Ef engin breyting fæst á þessu frv., frá því sem það er nú, og þessi föstu lán verða aðeins til 20 ára með 81/2% til 9% vöxtum, eins og heyrzt hefur að fyrirhugað sé, þá mun sú breyting verða síður en svo til þess að létta greiðslubyrðina, heldur hið gagnstæða. Sannleikurinn er sá, að fyrir alla þá, sem ekki hafa getað greitt niður af sínum lausaskuldum síðustu árin, mun breytingin verða til þess að auka þeirra vandræði, þar sem þeir verða þá komnir inn í mikið harðara innheimtukerfi og yrðu að borga af þessum skuldum 5% fram yfir vexti. Kem ég því aftur að því, er ég áður sagði, að fyrir þessa menn þurfa lánin að verða lengri og vextirnir alls ekki hærri en að ársgreiðslur yrðu um 10% af heildarupphæð. Ég hef rætt þessi atriði við 4 bankastjóra, og voru þeir mér allir sammála að þessu leyti. Landbn. Ed. sendi þetta frv. til umsagnar Búnaðarfélagi Íslands, Stéttarsambandi bænda og harðærisnefnd. Umsagnir allra þessara aðila eru einmitt þær, að breyta þurfi þessu frv. á þann veg, sem við hv. 5. þm. Austf. leggjum til í brtt. okkar, sem ég lýsti í upphafi máls míns, og er á þingskjali nr. 468. Í sambandi við málið í Ed., og eins í sambandi við málið hér í Nd., eru umsagnir allra þessara aðila eins, og skora ég á hv. þingdeildarmenn að kynna sér umsagnir þeirra, áður en þeir taka afstöðu til málsins.