05.12.1968
Efri deild: 22. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

27. mál, eiturefni og hættuleg efni

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Hér á landi hefur skort almennar lagareglur um eiturefni og önnur hættuleg efni, þ.e.a.s. um framleiðslu slíkra efna, meðferð þeirra, notkun og varðveizlu. Og úr þeim annmarka er ætlað að bæta með því frv., sem hér er til umr.

Meginefni frv. er:

1. Skilgreining á því, hvað séu eiturefni og hættuleg efni. Fylgja frv. listar yfir þessi efni.

2. Ákvæði um stofnun eiturefnanefndar, sem skal vera ráðgefandi aðili um framkvæmd l. og gerir m.a. till. um breytingar og viðauka við listana yfir eiturefni og hættuleg efni.

3. Reglur um framleiðslu, sölu, varðveizlu og notkun eiturefna og hættulegra efna, en þessar reglur eiga áð fyrirbyggja, að þau valdi skaða.

Ákvæði frv. taka ekki til eiturefna og hættulegra efna, ef þau eru notuð samkv. ákvæðum lyfsölulaga eða l. um eyðingu á minkum og refum, l. um öryggisráðstafanir á vinnustöðum og l. um innflutning, sölu og meðferð á skotum, vopnum og skotfærum o.s.frv. og l. um öryggisráðstafanir gegn jónandi geislum frá geislavirkum efnum eða geislatækjum.

Þetta frv. hefur hlotið allrækilegan undirbúning og hefur verið mörg ár í smíðum. Frv. er samið undir umsjón landlæknis og af Þorkeli Jóhannessyni lækni og Erling Edwald yfirlyfjafræðingi, og er þetta frv. að allverulegu leyti sniðið eftir tilsvarandi dönskum lögum. Þessu frv. var vísað til heilbr.- og félmn. Nefndin kvaddi á sinn fund landlækni og Þorkel Jóhannesson og ræddi við þá um frv., og skýrðu þeir ýmis ákvæði þess og gáfu nm. ýmsar upplýsingar. Það varð svo niðurstaða heilbr.- og félmn., svo sem í ljós kemur á þskj. 114, að mæla með því, að frv. verði samþ., en einn nm. var fjarverandi, þegar málið var afgreitt, það var hv. 4. þm. Norðurl. e.