28.04.1969
Efri deild: 79. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

5. mál, veiting ríkisborgararéttar

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það var fróðlegt að heyra þessa skýrslu ráðh. um endurskoðun á mannanafnalögum. Mér hefði þótt enn þá betra, ef hæstv. ráðh. hefði gefið skýrslu hér um framkvæmd þeirra l., en ég held, að það sé óhætt að segja, að mannanafnal. séu ein þeirra l., sem látið hefur verið undir höfuð leggjast að framkvæma að verulegu leyti. Það held ég, að sé óafsakanleg vanræksla. Ég held, að mannanafnal, séu þannig úr garði gerð, að það ætti ekki að vera nein skotaskuld að framkvæma þau. Ég vildi gjarnan heyra skýrslu ráðh. um það, hvað hefur verið gert til þess að halda ákvæðum þessara l. uppi í framkvæmd, það er ekki síður mikið atriði heldur en að láta endurskoða l. Auðvitað getur það verið rétt að láta endurskoða l., ef það sýnir sig, að breyttar aðstæður og þarfir krefjast þess, en það er ekki góð regla að endurskoða l. og grípa til þess að endurskoða 1. af því einu, að það er látið vera að framfylgja þeim um eitthvert skeið.