28.04.1969
Efri deild: 79. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

5. mál, veiting ríkisborgararéttar

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svar hans. Hann gerði ekki annað en staðfesta það, sem ég vissi, að þessum mannanafnalögum hefur ekki verið fylgt eftir í framkvæmd langa lengi. Það tel ég miður farið. Ég held, að það sé ekki réttmætt hjá hæstv. ráðh. að varpa sök í þessum efnum á presta. Ég held, að í þessum l. séu ákvæði þess eðlis, að það eigi að gefa út miklar skrár eftir þeim yfir þau nöfn, sem nota má eða ekki má nota. Það er, eins og hæstv. ráðh. sagði, æðilangur tími liðinn frá því, að þessi l. voru sett, en ég hygg, að það hafi ekki enn þá komizt í verk að gefa þessa skrá út, og sú skylda er ekki lögð á presta að gera það. Það eru önnur yfirvöld, og yfirmaður heimspekideildarinnar verður væntanlega að teljast menntmrh., og ég efast ekki um það, að þeir verða þægir í því tilliti, ef hann gefur fyrirmæli í þá átt. Annars vil ég segja það, eins og auðvitað hæstv. ráðh. veit, að það fór fram fyrir nokkrum árum gagnger endurskoðun á þessari nafnalöggjöf, og þá var samið frv. um það efni, og í þeirri n., sem þá endurskoðun annaðist, voru miklir sómamenn, og ég efast að vísu ekki um, að það sé nokkurt verk að endurskoða þessi l. nú, en ég hefði satt að segja haldið, að það mætti talsvert notast við þau gögn, sem komu fram í þessu nál., sem gengið var frá á sínum tíma, og í þeim frv., sem þá var gengið frá. Hitt er rétt, að sú n. varð ekki sammála að vísu, heldur urðu skiptar skoðanir þar, en út í það fer ég ekki nánar, og ég skal nú ekki fara að hefja neinar deilur um þetta efni. Það er alveg rétt, að þetta er efni, sem skiptar skoðanir eru um. Þetta er þó mál, sem mörgum hefur verið viðkvæmt mál og gert var að miklu kappsmáli á sinni tíð, en ég vil bara undirstrika það, sem ég sagði áðan, að ég tel það ekki vanzalaust að láta vera með öllu að framfylgja l. eins og þessum, sem ég tel þó þrátt fyrir allt ekki erfiðara að framfylgja en ýmsum öðrum l., ef vilji er fyrir hendi til þess.