25.03.1969
Neðri deild: 69. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

192. mál, Landsvirkjun

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Í sambandi við fsp., sem hæstv. ræðumaður beindi til mín, vil ég endurtaka það, sem ég sagði áðan en hann hefur e.t.v. ekki heyrt. Ég sagði: Rætt hefur verið um að stækka bræðsluna úr þeim 66 þús. tonnum, sem samið hefur verið um, í 86 þús. tonn, ef samningar um það takast, og að sú stækkun taki til starfa 1974.

Það hefur ekki verið samið um þessa stækkun. Það hefur aðeins verið rætt um hana, og af því leiðir, að það hefur ekki heldur verið samið um raforkuverðið, og því ekki fært fyrir mig að segja neitt um það að svo stöddu.

En hv. 6. þm. Reykv. talaði hér í svipuðum dúr og hann gerði, þegar var verið að ræða um virkjun Þjórsár um árið. Hann talaði um það, að þá hafi verið talið hyggilegt að byggja álverksmiðjuna í áföngum, vegna þess að menn hafi verið hræddir um, að það væri skortur á vinnuafli. Nú væri verið að hraða stækkuninni vegna þess, að nú væri ekki lengur um skort á vinnuafli að ræða, heldur hefði borið á atvinnuleysi. Það er öruggt, að ef lítið verður um atvinnu, þá er betra, að stækkunin komi sem fyrst. En þetta þarf nú ekki að vera aðalástæðan. Ég held, að ég hafi heyrt þennan ágæta þm. tala um það, að það væri þörf á því að hraða rannsóknum á fallvötnum landsins og orkumöguleikum vegna þess, að e.t.v. færi svo, að innan 20 ára væri kominn harður keppinautur við vatnsaflið, kjarnorkan, og ef við ekki flýttum okkur að nýta vatnsaflið, gæti verið, að þessi mikli orkugjafi, þessar námur, sem við höfum látið vera ónotaðar á undanförnum árum, yrðu okkur lítils virði. Gæti það nú ekki verið meginástæðan til þess, að við flýtum okkur að virkja, að koma orkunni, vatnsorkunni, í notkun á meðan það borgar sig, á meðan kjarnorkan er dýrari? Fossarnir okkar eru vissulega fallegir, og fossaniðurinn er þægilegur, þegar maður gengur með Þjórsá og sérstaklega innanverðri Þjórsá. Það hef ég gert. En við lifum ekki á slíku. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að gera þessa orku að aflgjafa, sem veitir þjóðinni bætt lífskjör. Þess vegna er það, að Landsvirkjun og ríkisstj. vilja halda áfram að virkja, og það er ódýrast að virkja stórt, og við þurfum þá á orkufrekum kaupanda að halda til þess að geta virkjað stórt. Ef við höfum innlendan orkukaupanda, þá er það ágætt. Ef við höfum hann ekki, eigum við að leita eftir útlendum aðila og gera hagstæða samninga við hann, eins og ýmsar aðrar þjóðir hafa gert, Norðmenn og fleiri þjóðir, og Bretar hafa nú í seinni tíð sótzt mikið eftir því að fá alúminíumverksmiðju inn í sitt land og jafnvel viljað gefa stórfé til þess, að það gæti orðið. En hv. 6. þm. Reykv. talar um það, að ríkisstj. ætli að einbeita sér að því að nota okkar lánstraust eingöngu í þessu skyni, að taka lán út á stórvirkjanir og eyða okkar lánstrausti með því. Ég er hræddur um, að það sé dálítill misskilningur hjá hv. þm. í þessu máli. Ég held, að við aukum lánstraust okkar með því að virkja og gera samninga í líkingu við þann, sem við gerðum við Alusuisse. Það eykur lánstraust okkar. Lánið, sem við höfum tekið til virkjunar í Þjórsá, eykur lánstraust okkar, en veikir það ekki, því að allir, sem vilja skilja, vita það, að þessi lán eru ekki byrði á íslenzku þjóðinni.

Hv. þm. talar um, að ríkisstj. vilji eingöngu beita sér að þessu og láta þá allt annað sitja á hakanum. Þetta er vitanlega reginmisskilningur. Um leið og ríkisstj. beitir sér fyrir stórvirkjunum og notkun vatnsaflsins í landinu, þá beitir hún sér fyrir alhliða uppbyggingu í atvinnulífinu, og það er ekkert, sem við erum ósammála um í því, ég og hv. 6. þm. Reykv., að iðnvæða landið, eins og hann orðaði það hér áðan. Og mér þykir vænt um að heyra það, að hann hefur þá skoðun, að við eigum að keppa að því að iðnvæða landið. Og með því að virkja og nota vatnsaflið erum við að skapa okkur betri aðstöðu til þess að iðnvæða landið, því að það er ekki stóriðjan ein, sem við viljum byggja á. Við viljum einnig byggja á alls konar öðrum iðnaði. Við viljum leggja undirstöðu að því, að það sé mögulegt að nota íslenzk hráefni og vinna að því í landinu, en selja þau ekki út úr landinu óunnin. Það eru nokkur þúsund manns, sem geta fengið atvinnu við það að fullvinna ullina og skinnin, sem til falla hér á landi árlega. Þetta ber að gera. Það er hægt að vinna fiskinn og annan sjávarafla miklu betur í landinu og meira heldur en gert hefur verið. Að þessu ber einnig að stefna.

Ríkisstj. hefur látið fram fara og kostað til þess miklum fjármunum að rannsaka, hvort mögulegt væri að koma hér upp sjóefnaverksmiðju, saltvinnslu, og hvort hægt væri að nýta jarðhitann til aukinnar iðnvæðingar og atvinnusköpunar. Þetta hefur ríkisstj. í huga um leið og hún vill nota vatnsaflið og skapa aðstöðu til þess, að það verði samkeppnisfært, því að það er mál manna, að við þær virkjanir, sem búið er að gera, áður en kjarnorkan verður ódýr, geti kjarnorkan ekki konkurrerað, heldur þær, sem verði byggðar eftir að kjarnorkan er komin á þetta ódýra stig.

Ég held, að það sé ekki eðlilegt, að hv. þm. sé með slíkar getsakir í garð ríkisstj. eða samþm. sinna, eins og hann var með hér áðan. Og ég undrast það, að jafnskynsamur maður og hv. 6. þm. Reykv. er skuli ekki reyna að hefja sig upp yfir þennan lágkúrulega stíl, sem hann notar í sinni ræðumennsku. Ég er alveg sannfærður um það, að hann getur komið auga á betri hliðina á þessu máli.

En það, sem er hér um að ræða í dag, er þetta frv., sem ég lýsti. Það er um það að gefa ríkisstj. heimild til þess að taka 7.5 millj. dollara lán, sem er fyrir kostnaði af seinni hluta virkjunarinnar við Búrfell. Það er það, sem um er rætt í dag, en ekki atvinnuuppbygging almennt. En að sjálfsögðu ætti ekki að standa á ríkisstj. eða stjórnarliðum að hefja slíkar umr., þegar ástæða þykir til þess.