25.03.1969
Neðri deild: 69. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

192. mál, Landsvirkjun

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég held, að það væri mjög til íhugunar fyrir hæstv. forsrh. að athuga, hvort ekki sé þörf betri vinnuhagræðingar innan stjórnarráðsins. Hér stóð hæstv. iðnmrh. áðan og sagði, að það, sem ég hefði sagt um fyrirhugaðar stórvirkjanir og erlenda stóriðju í því sambandi, væru hreinir hugarórar, mælt út í bláinn, ég væri að vaða reyk. Það virðist þannig vera næsta takmarkað samband á milli hæstv. iðnmrh. og hæstv. raforkumálaráðh., sem veit ákaflega vel um þessi mál og minntist raunar á þau sjálfur í ræðu sinni áðan. Hæstv. raforkumálaráðh. minntist fyrstur manna á það áðan; að nú væri ráðgert að virkja Tungnaá við Sigöldu, gera þar verulega stóra virkjun og ljúka henni árið 1973. Og þessi virkjun er við það miðuð, að hún geti séð 1. áfanga nýrrar alúmínbræðslu fyrir nægilegri orku eða einhverjum öðrum sambærilegum erlendum iðnaði. Mér finnast það firn mikil, ef hæstv. iðnmrh. veit ekki um þessa staðreynd.

Ég spurði raunar hæstv. raforkumálaráðh. um það áðan, hvort mætti vænta þess, að frv. um þessa virkjun yrðu lögð fyrir þetta þing. Hæstv. ráðh. svaraði ekki, e.t.v. á hann það eftir, eða e.t.v. er ætlunin að ráðast því aðeins í þessa virkjun, að áður sé búið að semja við erlent auðfyrirtæki um að kaupa orkuna. Það er kannske ekki hægt að leggja frv. um þessa mikilvægu raforkuframkvæmd fyrir Alþ. nema fyrir liggi samþykkt erlends aðila um, að hann vilji kaupa orkuna á því lága verði, sem falt er.

Mér finnst það líka ákaflega furðulegt, að hæstv. iðnmrh. skuli ekki hafa hugmynd um það að eigin sögn, að unnið er að því af fullum krafti að gera áætlanir um að nýta allt fallið í Efri-Þjórsá í einni virkjun, sem tryggði jafnódýra orku og Búrfellsvirkjun. Ég veit ekki betur en jarðfræðirannsóknir í sambandi við þessar fyrirhuguðu framkvæmdir verði þegar á þessu ári framkvæmdar fyrir 10 millj. kr. Og ég veit ekki betur en með því sé reiknað, að þessi framkvæmd eigi að geta hafizt árið 1972 — það er ekki langt þangað til. — og miðað sé að því, að virkjunin hefji starfsemi 1975–1976, og í þessum áformum er reiknað með því, að orkan eigi að nægja fyrir tvær 60 þús. tonna alúmínbræðslur. Hver er að ræða um alúmínbræðslu án þess að láta hæstv. iðnmrh. vita af því? Eða veit hann kannske eitthvað meira en hann vill vera láta?

Við gerum okkur engan veginn rétta grein fyrir þessu frv., sem hér liggur fyrir, nema við vitum um þessar ráðagerðir, sem ná fram yfir miðjan næsta áratug, og metum þetta mál í samhengi við þá þróun. Hæstv. iðnmrh. vék svolítið að þróun íslenzkra atvinnuvega og sérstaklega iðnaðarins í þessu sambandi. Hann fór hér rétt einu sinni með tölur, sem við höfum oft heyrt hann fara með, þess efnis, að hver einn maður í alúmínbræðslunni í Straumi væri í raun og veru fjórgildur, því að athafnir hans tryggðu 3–4 öðrum mönnum vinnu. Þetta á ekkert frekar við um alúmínbræðsluna í Straumi en hvað annað. Með þessu móti getur hæstv. ráðh. fjórfaldað fjölda þeirra, sem vinna á togurum og fiskibátum. Þetta er engin speki, sem á sérstaklega við alúmínbræðsluna. Það á við alla þætti útflutningsframleiðslu okkar. Og þessi samanburður verður ekki alúmínbræðslunni í hag frekar en öðrum útflutningsatvinnuvegum.

Ég held, að sjálft ástandið í landinu sé nú bezt svar við lofsöng hæstv. ráðh. um framtak sitt í iðnaði. Hann minntist á uppbyggingu skipaiðnaðarins. Hræddur er ég um, að honum hafi ekki vegnað of vel. Hæstv. ráðh. hefur orðið að standa í stöðugum björgunarleiðöngrum vegna þess, að sá iðnaður er allt of illa skipulagður. Eitt fullkomnasta fyrirtækið á því sviði, Stálvík, er þannig á sig komið, að forstjórinn hefur greint frá því, að framleiðslugeta fyrirtækisins sé aðeins nýtt um 30%, og fjárfesting, sem er nýtt á svo lélegan hátt, skilar ekki þjóðhagslegum arði, jafnvel þótt um sé að ræða fullkomið fyrirtæki með hinum beztu vélum. Ef vélarnar eru ekki hagnýttar nema að tæpum þriðjungi miðað við það, sem þær geta, er þetta fyrirtæki ekki sú lyftistöng sem það gæti orðið.

Hæstv. ráðh. spurði einnig, hvernig væri ástatt í atvinnumálum, ef ekki væri alúmínbræðsla. Hvernig var ástatt í atvinnumálum á Íslandi, áður en þessi samningur var gerður? Þá var barizt um vinnuaflið. Við urðum að flytja inn vinnuafl frá öðrum löndum. Þetta var talið mikið vandamál ár eftir ár, að það væri svo mikil eftirspurn eftir vinnuafli, að þar væri ekki einu sinni hægt að halda í hemilinn á kaupgjaldinu. Þetta var áður en samningurinn var gerður. Og af hverju hafa umskiptin orðið? Umskiptin hafa orðið vegna þess, að hæstv. ríkisstj. dró saman hina innlendu atvinnuvegi vitandi vits vegna þess, að hún vildi hafa tiltækt vinnuafl handa hinum erlendu auðfélögum.

Ég spurði áðan um, hvar ráðagerðirnar væru um iðnþróun á Íslandi, þá óhjákvæmilegu iðnþróun, sem verður að verða hér, ef við ætlum að halda velli. Og hæstv. ráðh. sagði, að tvö eða þrjú rn. hefðu ráðgazt við, rætt hvert við annað. Beri menn nú saman þetta þokusnakk annars vegar og hins vegar algerlega frágengnar áætlanir um raforkuframkvæmdir í þágu útlendinga.

Þar eru ekki neinar bollaleggingar. Þar er búið að kanna og rannsaka hvert einasta atriði, tilkostnað, hvernig á að haga framkvæmdum. Þetta liggur allt fyrir. En í sambandi við þróun okkar eigin atvinnuvega fáum við ekkert að heyra annað en almennt orðagjálfur.