25.03.1969
Neðri deild: 69. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (970)

192. mál, Landsvirkjun

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru nú aðeins örfá orð vegna þess, að hæstv. iðnmrh. tók nú af mér ómakið. En ég hef nú aldrei orðið eiginlega var við það fyrr en í dag, að hv. 6. þm. Reykv. virðist heyra eitthvað illa og heyra skakkt og leggur svo út af því í ræðum sínum, sem hann hefur misheyrt. Þannig vill hv. þm. láta líta þannig út, að það rekist eitthvað á málflutningur hæstv. iðnmrh. og minn, af því að hæstv. iðnmrh. sagði, að það væri ekki búið að taka ákvörðun um stórvirkjanir.

Það vill svo til, að ég hef hérna skrifað það, sem ég sagði hér áðan. Það var alveg sama og aths. í sambandi við, þegar talað var um að stækka álbræðsluna um 20 þús. tonn, það hefur verið rætt um þetta, ekki tekin ákvörðun um það. Það er einnig í samræmi við það, sem stjórn Landsvirkjunar hefur sagt, að það hefur verið rætt um og stefnt að því að gera virkjun við Sigöldu, að gera fullkomna miðlun í Þórisvatni. Og það hefur verið rætt um það að gera virkjun í Efri-Þjórsá. En það hefur ekki enn þá verið tekin ákvörðun um það. Og það var það, sem hæstv. iðnmrh. sagði hér áðan, það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það. En ég vil segja, að því er nú verr, að málið er ekki komið það langt. Ég vil lýsa fylgi mínu við það, að það megi takast, og ég vona, að það megi takast sem allra fyrst. En ákvörðun hefur ekki verið tekin um þetta enn þá, þótt að því sé stefnt. Og það, sem ég sagði hér áðan, var það, að ef álbræðslan yrði stækkuð upp í 86 þús. tonn, mundi slík stækkun þurfa 40 þús. kw., og eigi að vera hægt að anna þeirri aflþörf, olíuhreinsunarstöð o.fl., sem rætt hefur verið um, er nauðsynlegt að ráðast í Sigölduvirkjun sem fyrst.

Nú er það svo, að ég hygg, að bæði hv. 6. þm. Reykv. og aðrir hv. þm. séu í hjarta sínu samþykkir því, að það verði unnið að virkjunum, áframhaldandi virkjunum, bæði í Þjórsá og í öðrum fallvötnum landsins. En það virðist vera, að það sé einhver meinloka, sem hefur komið í þennan hv. þm., 6. þm. Reykv., að það virðist sem hann haldi það, að ef það verði gert, verði að leggja allt annað á hilluna, og allur hans málflutningur hér í dag hefur byggzt á því, að ef það væri ráðizt í stórvirkjanir, yrði allt annað lagt á hilluna, og ríkisstj. hafi engar formlegar áætlanir um það að byggja upp alhliða atvinnulíf í landinu. Um þetta þurfum við ekki að ræða í dag, vegna þess að það er vitað, að það er ýmislegt, sem gert hefur verið til undirbúnings því, að það geti komið hér upp alhliða blómlegur iðnaður í landinu. Og ég er dálítið undrandi á því, að hv. 6. þm. Reykv. skuli vera að halda því fram, að atvinnuleysið og óneitanlegur samdráttur í vissum atvinnuþáttum séu orsakir fyrir því, að það sé unnið að því að koma upp álbræðslu í Straumsvík og stórvirkjun í Þjórsá.

Hæstv. iðnmrh. rakti það hér áðan, hversu fráleitt þetta væri. Það eru um 1000 manns, sem hafa haft atvinnu við það að virkja og við það að byggja verksmiðjuna, en eins og hæstv. iðnmrh. sagði, hefðu togararnir ekkert fiskað meira, þótt ekkert hefði verið unnið að álbræðslubyggingu, og síldin hefði ekki veiðzt betur. En orsakir atvinnuleysis, sem hefur gert vart við sig, og orsakir nokkurs samdráttar í ýmsum þáttum atvinnulífsins hélt ég, að allir hv. alþm. hefðu gert sér grein fyrir, hverjar væru. Það vita allir hv. alþm., að síðustu tvö árin hefur þjóðin misst nærri þriðjung af sínum útflutningstekjum, sem stafar af því, að aflinn er minni og verðlagið á okkar aðalútflutningsvörum hefur hríðfallið. Og ástæðan til þess, að samdrátturinn hefur ekki orðið meiri og atvinnuleysið ekki tilfinnanlegra heldur en raun ber vitni, er sú, að núv. ríkisstj. hafði búið í haginn og safnað sjóðum á meðan betur áraði. Og við skulum ekki vera að setja hér í hv. Alþ. á stað eitthvert sjónarspil, sem er langt utan við veruleikann og langt utan við það, sem við allir þekkjum og skiljum. Það er enginn vafi á því, að ríkisstjórnarflokkarnir og stjórnarandstöðuflokkarnir vilja vitanlega einnig halda þannig á þessum málum, að við getum komizt út úr þeim örðugleikum, sem aflabresturinn og verðfallið hafa valdið okkur núna um sinn. Og ríkisstj. hefur gert ýmsar ráðstafanir til áætlunar því, hvernig út úr þessu megi komast. Tel ég ekki ástæðu til að endurtaka það hér. Það hafa verið gerðar ýmsar ráðstafanir og athuganir á því, hvernig við getum ráðið fram úr þessum vanda, og þótt við reynum að nýta vatnsaflið á meðan það er samkeppnisfært, þá breytir það ekki því, að það er nauðsynlegt að vinna að þessu og verður vitanlega gert.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál að svo stöddu.