25.04.1969
Efri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

192. mál, Landsvirkjun

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Aðalefni þessa frv. er að heimila hæstv. ríkisstj. að ábyrgjast viðbótarlán vegna Landsvirkjunar, sem hún tekur til Búrfellsvirkjunar, og er nánari grein gerð fyrir nauðsyn þessarar lántöku í athugasemdum við frv. á þskj. 385.

Eins og kunnugt er, eru orkulindirnar þýðingarmesta náttúruauðlind, sem við Íslendingar höfum yfir að ráða fyrir utan fiskimiðin, þannig að aukin framleiðsla hér á landi og bætt kjör þjóðarinnar hljóta mjög að vera háð aukinni nýtingu þessara orkulinda, og þó að nýting fiskimiðanna hljóti enn um skeið auðvitað að vera það, sem þjóðarbúskapur okkar öðru fremur byggist á, þá er þó sá munur á nýtingu orkulindanna og nýtingu fiskimiðanna, að fallvötnin halda óhindrað áfram að streyma til sjávar, en sjávaraflinn er sveiflum háður. Og hvað sem líður öðrum ágreiningi milli okkar, sem sæti eigum í þessari hv. d., hygg ég, að allir séu sammála um það, að æskilegt sé, að dregið verði úr þeim miklu sveiflum, sem verið hafa í þjóðartekjum okkar og þjóðarframleiðslu, en einhver öruggasta leiðin til þess verður aukin nýting orkulindanna, en þessar orkulindir verða ekki nýttar nema með meiri eða minni innflutningi erlends fjármagns, vegna þess að sparifjármyndun í okkar þjóðfélagi hlýtur a.m.k. fyrst um sinn að verða ónóg til þess að standa undir þeim framkvæmdum, sem nauðsynlegar eru í þessu efni. Með tilliti til þessara atriða, sem ég nú hef nefnt, hefur fjhn., eins og nál. á þskj. 505 ber með sér, orðið sammála um það, eða þeir, sem viðstaddir voru á þeim fundi, er málið var afgreitt á, að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.