17.02.1969
Neðri deild: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

140. mál, vöruhappdrætti Sambands íslenskra berklasjúklinga

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ekki þarf að kynna hv. þdm. starf Sambands ísl. berklasjúklinga, svo þjóðkunnugt er það og það mikla átak, sem þar hefur verið gert fyrst og fremst í þágu berklasjúklinga, en eftir að tókst meira að vinna bug á berklaveikinni, þá hefur sambandið tekið að sér að sinna öðrum sjúklingum og þannig leyst af hendi mjög mikilvægt hlutverk fyrir þjóðfélagið. Starf þetta hefur verið rekið af mikilli fyrirmynd og einstæðum hætti að segja má, vegna þess að starfsemi vinnuheimilisins hefur að töluverðu leyti staðið undir sínum rekstrarkostnaði með vinnustofum og framleiðslustarfsemi, og má í einu orði segja, að rekstur þessa fyrirtækis hafi verið til mikillar fyrirmyndar. Sú aðstoð, sem þjóðfélagið hefur veitt í þessu efni, er fyrst og fremst að heimila Sambandi ísl. berklasjúklinga að starfrækja vöruhappdrætti. Það var fyrst heimilað með lögum 1949 og þá til 10 ára. Þessi heimild var endurnýjuð á árinu 1959 og gildir til ársloka 1969. Það þótti eðlilegt að tímabinda þessa heimild fyrir þá sök, að þessu happdrætti er fyrst og fremst ætlað að standa straum af byggingarframkvæmdum að Reykjalundi, en ekki af rekstri þeirra stofnana, sem þar eru starfræktar. Það hefur farið fram á því athugun nú og ítarleg greinargerð verið gerð af hálfu forráðamanna Sambands ísl. berklasjúklinga, að enn þá er þarna mikið óunnið, bæði eru ýmsar byggingar óreistar, sem nauðsynlegt er að koma upp, og ekki síður hitt, að miklar byggingarskuldir hvíla enn á sambandinu. Af þessum sökum er það, sem ríkisstjórninni hefur þótt rétt að mæla með því við Alþ., að Samband ísl. berklasjúklinga fengi enn um 10 ára bil að starfrækja umrætt happdrætti, og yrði ágóðanum af því varið til þess að greiða stofnkostnað við byggingarframkvæmdir þær, sem ég minntist á að Reykjalundi og þ. á m. til að koma upp byggingum vinnustofa fyrir öryrkja, og gert er ráð fyrir því, að ráðstöfun þessa fjár verði að öðru leyti undir yfirumsjón ríkisins á hverjum tíma.

Ég tel ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja frekar um þetta mál, en tel rétt, að hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, fái eftir þörfum upplýsingar um það hjá sambandinu, hvernig fjárþörf þess er, og kynni sér það til hlítar. Ég tel ekki ástæðu til að gera grein fyrir því hér opinberlega, því að ég veit, að allar slíkar upplýsingar eru til reiðu hjá forráðamönnum sambandsins.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.