07.04.1970
Neðri deild: 69. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

174. mál, lax- og silungsveiði

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Vegna ummæla hæstv. landbrh. vil ég endurtaka það, sem ég sagði áðan, að þessar brtt. okkar eru fluttar eftir eindreginni ósk þeirra landeigenda allra, sem heimsóttu n. og hafa haft samband við okkur, eða a.m.k. mig persónulega, á því tímabili, sem við höfum verið að ræða og athuga þetta frv.

Eins og hæstv. landbrh. gat um, er þessi löggjöf tilfinningamál, og hún verður auðvitað aldrei sett þannig, það er okkur ljóst, að allir verði ánægðir. En þegar við fórum að ræða um það við þá menn, sem tóku sér langar ferðir á hendur, bæði ofan úr Borgarfirði, úr Árnessýslu og Rangárvallasýslu, til að tala við okkur, og sögðum þeim frá því, að það væri kannske um tvennt að velja, — það væri að koma með mjög litlar brtt., og þá mundi e.t.v. þetta frv. nást fram á þessu þingi, eða það næðist ekki fram, — og spurðum þá, hvað það væri þá fyrst og fremst, sem þeir legðu áherzlu á, þá var það einmitt það, að óbreytt yrði þessi skipan veiðimálanefndar. Þó að það væri ekkert annað en það, þá lögðu þeir áherzlu á, að við reyndum að breyta þessu ákvæði. Og þegar ég spurði suma af þeim að því, hvort þeir vildu þá frekar, að þetta frv. næði ekki fram að ganga, ef við fengjum ekki þessa breytingu, þá óskuðu a.m.k. sumir þeirra frekar eftir því. Hvort sem þetta er stórt atriði eða ekki, þá líta landeigendur svona á, það er staðreynd.

Ég er alveg sammála hæstv. landbrh., að í sambandi við hina brtt. um atkvæðamagnið er það ekki mikið atriði, en það var samt það atriði, sem þeir lögðu mesta áherzlu á, og þess vegna var það tekið með.

Eins og ég gat um áðan, telja ýmsir bændur, að stjórn þessara mála ætti að vera á annan veg, eins og ég sagði. Það væri kannske eðlilegast, að þetta væri bara deild í Búnaðarfélaginu og veiðimálastjóri væri nokkurs konar ráðunautur þar. Ég veit, að það verður farið að berjast fyrir þessari breytingu á næstu árum. Ég vil þess vegna vekja athygli á því, hvernig 102. gr. l. er nú, en við leggjum til, að þessu verði ekki breytt. Ég vil, með leyfi forseta, lesa þessa gr. upp:

„Í veiðimálanefnd eiga sæti þrír menn. Ráðh. skipar n., einn nm. að fengnum till. Búnaðarfélags Íslands, en annan að fengnum till. Fiskifélags Íslands. Nú verður stofnað landssamband fiskræktarfélaga eða veiðifélaga, og skulu þá tveir nm. skipaðir að fengnum till. þessara sambanda í stað Búnaðarfélagsins og Fiskifélagsins. Í stað nm., sem tilnefndur er af Búnaðarfélaginu, komi maður tilnefndur af landssambandi fiskræktarfélaga, og í stað þess, er Fiskifélagið tilnefnir, komi nm., er landssamband veiðifélaga tilnefnir.“

Þetta er gr. eða sá hluti hennar, sem um er að ræða í þessu sambandi, og þetta er það, sem landeigendurnir leggja til að sé óbreytt. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta frekar.