07.04.1970
Neðri deild: 69. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

174. mál, lax- og silungsveiði

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er langt frá því, að ég sé að rengja hv. 5. þm. Norðurl. e. um það, að þeir hv. og ágætu menn, sem hann ræddi við og eru veiðiréttareigendur, hafi borið þessa ósk fram. Ég rengi það ekki neitt. En hitt er annað mál, að ég tel að það sé ástæðulaust fyrir þá að leggja svona mikla áherzlu á þetta, og ég tel það óhyggilegt, og þess vegna er ég á móti því að fella þetta niður. Það er að yfirlögðu ráði, sem lagt var til að skipa veiðimálanefnd á þennan veg. Það var reynt að taka tillit til sem flestra sjónarmiða. Þetta er þáttur í því að sætta hin stríðandi öfl, sem hafa verið sundurleit í veiðimálunum, en gera það þó þannig, að það verði bændum eða veiðiréttareigendum ekki til skaða, og veiðiréttareigendur hafa viðurkennt það, að þetta frv. tryggir þeirra rétt og þeirra hlut, en það hefur sumum fundizt, að hlutur stangaveiðimanna í þessu frv. væri fyrir borð borinn. En mér finnst eðlilegt, að hlutur þeirra, sem eiga veiðirétt og veiðilönd, sé tryggður með þessari löggjöf. Í því felst að viðurkenna eignarréttinn samkv. stjórnarskránni, en bændur þurfa að hafa samskipti og viðskipti við aðra til þess að geta notið þessara verðmæta og hafa vinsamleg viðskipti. Og þess vegna er eðlilegt að láta nokkuð eftir þessum viðskiptamönnum, stangaveiðimönnunum, sérstaklega ef það er veiðiréttareigendum að kostnaðarlausu. Og það er þetta sjónarmið, sem ræður afstöðu minni í þessu máli, og ég tel það varasamt og beinlínis óhyggilegt að fella þetta ákvæði burt, að stangaveiðimenn megi eiga einn mann í veiðimálanefnd af fimm.