14.04.1970
Neðri deild: 72. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

174. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Út af aths. hæstv. forsrh. varðandi gjald af rafstöðvum til fiskræktarsjóðs vildi ég segja aðeins fáein orð til skýringar, hvernig þetta er til komið.

Í þeirri n., sem endurskoðaði l. um lax og silung, sem var níu manna n., voru að sjálfsögðu mörg sjónarmið varðandi tekjuöflun í fiskræktarsjóð, sem snemma á starfstíma n. var ákveðið að leggja til, að stofnaður yrði. En um það varð n. þó, held ég, sammála, að eðlilegt væri, að rafstöðvarnar eða orkuverin greiddu eitthvað í sjóð til þess að byggja upp laxastofninn í landinu, vegna þess að þau mannvirki hindruðu á mörgum stöðum einmitt fiskgöngur um vötn, og fyrirmynd að þessu var talin vera bæði í Svíþjóð og Noregi, þar sem slíkar stöðvar greiddu nokkurt fé til fiskræktar í þessum löndum. Hitt var náttúrlega álitamál, hve langt ætti að ganga í þessu. Á tímabili var gert ráð fyrir að taka 5 0/00 en niðurstaðan varð sú, að þetta var lækkað mjög og á endanum orðið 2 0/00, eins og hæstv. ráðh. réttilega benti á. Nú varð landbn., sem hafði þetta frv. til meðferðar, sammála um það, að þetta væri heldur lítið, og þegar hún loks lagði til að hækka þetta í 3 0/00, varð hún alveg sammála um það, en lét þó þann ráðh., sem þetta mál lagði upp í hendur landbn. hér á Alþ., vita af því, svo að ég tel, að það hafi ekki verið komið neitt aftan að ríkisstj. með þetta atriði.

Varðandi hitt atriðið, að ekki sé gert ráð fyrir að taka gjald af þeim, sem tekjur hafa af veiði, nema þeir séu í veiðifélögum, þá er það að vísu rétt, en frv. gerir hiklaust ráð fyrir því og leggur meira að segja þá skyldu á hendur veiðivatnaeigendum að mynda með sér félög, svo að það mun ekki langur tími líða, að því er ætla má, þangað til allir komi undir þetta ákvæði.

Ég vildi aðeins segja þessi orð til skýringar á því, hvað á bak við liggur, að þessar tölur hafa verið settar inn í frv.