04.12.1969
Efri deild: 21. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

104. mál, Norðurlandasamningur um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, er um það að öðlast megi lagagildi samkomulag milli Norðurlandanna – Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar – um breytingu á Norðurlandasamningi um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð. Ákvæði þau, sem hér er um að ræða, eiga að koma til endurskoðunar á eldri ákvæðum í sambandi við endurskoðun hjúskaparlöggjafarinnar, sem staðið hefur yfir undanfarið ár á milli Norðurlandanna. Þau eru einkum í sambandi við lýsingu og reglur í sambandi við stofnun hjúskapar og loks eru samræmd ákvæði í sambandi við slit hjúskapar. Aðaltilgangurinn er sá, að samræma reglur Norðurlandanna á þessu sviði, eins og á svo mörgum öðrum sviðum, sem unnið hefur verið að á undanförnum árum.

Ég hygg, að þetta mál ætti ekki að valda neinum ágreiningi og leyfi mér að leggja til, herra forseti, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.