27.04.1970
Efri deild: 80. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

174. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um breyt. á l. um lax- og silungsveiði, sem hér liggur fyrir til 2. umr., hefur landbn. haft til athugunar og rætt á nokkrum fundum. N. hefur athugað umsagnir, sem um það hafa borizt frá nokkrum aðilum, og kynnt sér þær, og hefur n. orðið sammála um að mæla með, að frv. verði samþ. Hins vegar, eins og nál. á þskj. 688 ber með sér, áskilja nm. sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma.

Ég þarf ekki, að ég hygg, að hafa ýkjamörg orð um þetta frv. að þessu sinni. Það hefur verið til athugunar um alllangan tíma í landbn. Nd., og eins og landbn. Nd. gekk frá því, hygg ég, að fengizt hafi nokkuð öflug samstaða um frv. Ég hygg, að það sé öllum ljóst, að ýmsir telja, að enn hefði mátt bæta um það á margan veg, en hins vegar er það líka ljóst, að það hefur verið erfitt að samræma sjónarmið þeirra manna, sem óskuðu breyt. í verulegum efnum. Þess vegna varð það niðurstaða landbn. Ed., eins og ég gat um áðan, að hún teldi frv. komið í það horf, að hún vildi mæla með því, að það yrði samþ.

Ég vil þá gera lítils háttar að umræðuefni brtt., sem ég hef leyft mér að bera fram við þetta frv., ásamt hv. 2. þm. Norðurl. e. og hv. 3. landsk. þm. Eins og ég gat um áðan, þá kom það fram í ræðum ýmissa manna í landbn., að þeir teldu, að frv., eins og frá því var gengið frá hendi landbn. Nd., hefði verið komið í það horf, sem menn gátu vel sætt sig við, og það er álit okkar, þeirra þriggja alþm., sem flytjum þá brtt., sem ég hér gat um, sem er að finna á þskj. 689, en í meðferð Nd. var sú gr. frv. felld niður, sem landbn. Nd. hafði mælt með, að samþ. yrði. Við teljum, flm. þessarar till., að ákvæði þessarar gr. séu svo mikilvæg, að við viljum ekki láta hjá líða að gera tilraun til þess að koma henni fram. Ég er þeirrar skoðunar, að þau rök, sem mælt hefur verið fyrir og talið, að mæltu gegn því að fjölga í veiðimálanefnd úr þremur í fimm og skipa hana á þann hátt, sem til er tekið í nefndri gr. frv., eigi sér ekki stoð. Við teljum, að rétti vettvangurinn fyrir þá aðila, sem oft hafa deilt um málefni friðunar og fiskræktar, til umræðna sé einmitt í veiðimálanefnd, og við erum ekki í vafa um það, að þær umr. mundu leiða til sameiginlegrar niðurstöðu og verða þess vegna til að skapa meiri samheldni og frið um þessi mál en verið hefur til þessa.

Ég held, að ég hafi ekki öllu fleiri orð um till. Ég vil þó geta þess, að hún er í einu falli breyt. frá því, sem landbn. Nd. lagði til. Við gerum hér till. um, að n., sem ráðh. skipar, skuli skipuð til 4 ára í senn, svo að farið sé eftir þeirri almennu og algengu venju, að n. séu skipaðar til ákveðins tíma, en ekki til ótiltekins tíma. Ég mæli með því fyrir hönd n. allrar, að frv. verði samþ., og ég vil mæla með því fyrir hönd okkar flm. brtt., að hún nái fram að ganga.