27.04.1970
Efri deild: 80. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

174. mál, lax- og silungsveiði

Jón Árnason:

Herra forseti. Það er, eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni, að sjálfsögðu um nokkurn ágreining um einstök atriði að ræða um þetta mál, enda þótt n. í heild hafi mælt með því, að frv. yrði samþ., en einstakir nm. áskildu sér þó rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma við frv. Minni hl. n. eða þrír af nm. hafa síðan flutt á sérstöku þskj. þá brtt. í sambandi við nefndarskipun veiðimálanefndar, að fjölgað verði upp í fimm, eins og upphaflega var gert ráð fyrir í frv. Þessu ákvæði var breytt í Nd. í það, að nm. yrðu þrír. Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér, munu öll veiðimálafélög í landinu mæla gegn því, að n. verði skipuð svo sem hér er lagt til. Ég tel með tilliti til þess, sem fram kom hér við 1. umr. þessa máls af hendi hæstv. landbrh. og áhuga hans fyrir því, að sem flestir aðilar, sem hlut eiga að máli, kæmust í þessa n., að með skipuninni, enda þótt það séu aðeins þrír menn, sé hægt að koma því við, að þessir aðilar eigi fulltrúa í n. Með tilliti til þessa og þess, sem ég hef áður sagt varðandi afstöðu veiðifélaganna í landinu, þá legg ég til, að n. verði skipuð þrem mönnum, eins og kveðið er á um í frv. nú.